Stefnumál A-lista almennra borgara til sveitarstjórnarkosninga í Strandabyggð 2022

Listi almennra borgara, A-listinn, er skipaður fólki með fjölbreyttan bakgrunn og víðtæka reynslu. Við eigum það sameiginlegt að hafa sterkan vilja til að vinna að því sem til framfara horfir í samfélaginu okkar. Við viljum stefna ötullega að hverju því sem bætir menningu, mannlíf og búsetugæði og vinna að krafti að öllu sem til framfara horfir í atvinnu- og byggðamálum.

A-lista fólki er ljóst að Strandabyggð hefur glímt við fjárhagserfiðleika. Við erum þakklát stjórnendum sveitarfélagsins og starfsfólki þess fyrir vel unnin störf, við að mörgu leyti erfiðar aðstæður. Við getum ekki lofað ykkur miklu kæru íbúar Strandabyggðar. Margt getur breyst á fjórum árum og ekki innistæða fyrir hástemmdum loforðum. Við vitum hvert við viljum stefna og því heitum við, að vinna af heilindum að velferð, góðu mannlífi og bættum búsetugæðum íbúa Strandabyggðar á komandi kjörtímabili.

A-lista fólk vill vinna að verkefnum með aðkomu íbúa. Þess vegna fögnum við allri málefnalegri umræðu og viljum gjarnan heyra sem flestar skoðanir og tillögur frá ykkur um það hvernig við höldum áfram veginn. Okkar eyru eru alltaf opin og við hlökkum til komandi verkefna. 

Stefnumál A-lista almennra borgara:

Stjórnsýsla, rekstur og upplýsingamiðlun

  • Almennir borgarar leggja mikla áherslu á ábyrga fjármálastjórn til að tryggja framtíðarrekstur sveitarfélagsins.
  • Uppfæra og endurhanna vefsvæði Strandabyggðar.
  • Halda áfram að innleiða skjalastjórnunarkerfi sem auðveldar aðgengi íbúa og uppfyllir kröfur um upplýsingaskyldu. 
  • Sett verði upp rafræn upplýsingaveita um Strandabyggð, (íbúa handbók). 
  • Endurbæta og viðhalda eignum sveitarfélagsins Strandabyggðar.
  • Að sveitarfélagið sé leiðbeinandi og haldi utan um íbúa með góðri upplýsingagjöf á öllum sviðum.
  • Efla samstarf sveitarfélaga yfir núverandi sveitarfélagamörk.

Umhverfis- og skipulagsmál

  • Halda áfram vinnu við að meta húsnæðisþörf í Strandabyggð.
  • Halda áfram vinnu við aðalskipulag og deiliskipulag. Skipuleggja fjölbreytt úrval lóða með aðkomu íbúa.  
  • Viðhalda götum og göngustígum í Strandabyggð. 
  • Við viljum leggja okkur fram um að aðstoða íbúa við að fegra og bæta ásýnd umhverfis okkar. Sveitarfélagið gangi á undan með góðu fordæmi.
  • Koma á umhverfisátaki þar sem íbúar taka þátt í að fegra umhverfi sitt og Strandabyggðar, hvetja til betri umhverfisvitundar. 

Sameining sveitarfélaga

  • A-listinn mun leitast við að sameining sveitarfélaga verði á þeim forsendum að allir íbúar njóti sömu þjónustu óháð stöðu og staðsetningu(fjölkjarna sveitarfélag), standi sterkari á eftir og að nýtt sveitarfélag verði fjárhagslega sjálfbært. 

Orkumál

  • A-listinn leggur áherslu á að koma á hitaveitu í Strandabyggð.

Atvinnumál

  • A-listinn vill stuðla að öflugu, góðu og fjölbreyttu atvinnulífi. 
  • A-listinn vill halda uppi gagnvirku samtali við fyrirtæki í sveitarfélaginu, stór og smá, hvort sem þau eru til sjós eða lands, hugar eða handar, með það að markmiði að tryggja þá þjónustu sem öllu atvinnulífi er nauðsynleg. 

Félags- og velferðarmál

  • A-listinn leggur áherslu á fjölskylduvænt samfélag. Við viljum stuðla að öflugu og góðu samfélagi þar sem fólk kýs að búa. 
  • Að sveitarfélagið bjóði upp á fjölbreytta þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur í samfélaginu.
  • Við viljum halda áfram samvinnu um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Menntamál

  • A-listinn vill halda áfram því góða starfi sem unnið hefur verið að í skólamálum í Strandabyggð. 
  • A-listinn vill gefa öllum nemendum skólanna í Strandabyggð kost á bestu menntun sem völ er á óháð skólastigi.
  • A-listinn vill stuðla að því að nemendur eigi aðgang að hæfu og vel menntuðu starfsfólki.
  • A-listinn vill efla snemmtæka íhlutun, þannig að hægt sé að byrja aðstoð um leið og þörf er á henni. 

Lýðheilsa, íþróttir og tómstundir

  • Við viljum efla lýðheilsu og forvarnir í Strandabyggð. Heilsueflandi samfélag er næsta skref, þar sem leik- og grunnskólinn á Hólmavík eru orðnir þátttakendur í heilsueflandi skóla. 
  • Bæta aðstöðu á leikvöllum í Strandabyggð.
  • Styðja við íþróttafélög á svæðinu sem halda úti íþróttastarfi í Strandabyggð. 

Ferðaþjónusta

  • Endurútgefa gönguleiðakort og merkja gönguleiðir í Strandabyggð.
  • Styrkja innviðina svo við getum með sem bestum hætti skapað verðmæti með móttöku ferðamanna og eflt Strandabyggð sem áfangastað. 

Menningarmál

  • Styðja við frjálsa félaga starfsemi sem kostur er. 
  • Unnið að gerð menningarstefnu í Strandabyggð. 

Að lokum

Frambjóðendur A-listans eru meðvitaðir um að ómögulegt er að skipuleggja heilt kjörtímabil fram í tímann með loforðum og vilja þess í stað reyna að grípa alla bolta og tækifæri til framfara á komandi árum. Í staðinn fyrir að fara í mjög nákvæma málefnavinnu núna með stórum fundum, viljum við vinna þessa vinnu jafnt og þétt yfir kjörtímabilið, vonandi með sem mestri aðkomu ykkar íbúa. Það er okkar von að slíkt fyrirkomulag verði til þess að öll vinna og ákvörðunartaka verði markvissari fyrir vikið. 

DEILA