Framhaldsnámskeið í íslensku í dymbilvikunni

Á föstudaginn langa lauk formlega framhaldsnámskeiði í íslensku fyrir útlendinga á stigi B2 sem Háskólasetrið hélt í dymbilvikunni. Margt var haft fyrir stafni á þessum fimm dögum sem námskeiðið varði þótt segja megi að hluti námskeiðsins, fyrir suma, hafi verið að mæta á Aldrei fór ég suður og hafi því námskeiðið dregist fram á sunnudag.

Á námskeiðinu er ekki lögð áhersla á málfræði heldur fyrst og fremst orðaforða og notkun málsins. Námskeiðið fer eingöngu fram á íslensku enda er notkun tungumálsins við raunverulegar aðstæður besta leiðin til að læra það. Málið lærist best sé það notað, heyrt, talað, skrifað og skynjað.

Á námskeiðinu voru vel valdir staðir, fyrirtæki og stofnanir á Ísafirði heimsótt auk þess sem nemendur fengu heimsóknir í kennslustofuna.  Áður en til heimsóknar kom hittust þó nemendur alltaf með umsjónarkennara námskeiðsins og fóru yfir orðaforða dagsins.

Þeir staðir sem að þessu sinni voru heimsóttir voru Hversdagssafnið, Byggðasafnið, Stjórnsýsluhúsið, Ísafjarðarkirkja og Bókasafnið Ísafirði. Vaida Bražiūnaitė kynnti Hversdagsafnið, Heimir G. Hansson kynnti Byggðasafnið,  Tinna Ólafsdóttir stjórnsýsluhúsið, séra Grétar Halldór Gunnarsson Ísafjarðarkirkju og Sigmar Þór Óttarsson Bókasafnið.

Þær kynningar sem fram fóru í kennslustofu voru einnig áhugaverðar. Ingi Björn Guðnason kynnti starfsemi Háskólasetursins, einkum meistaranámsleiðirnar sem í boði eru. Hlynur Reynisson kynnti Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða og störf sín þar. Að lokum sá umsjónarkennari námskeiðsins, Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um kynningu á tónlistahátíðinni Aldrei fór ég suður. 

Kynningarnar voru fyrirtaks og hjálpuðu nemendum að tileinka sér orðaforða sem þau alla jafna hafa ekki aðgang að. Þar að auki var ýmislegt fróðlegt kynnt til sögunnar.

Þátttakendur voru einvörðungu fimm, fámennt en góðmennt, og gekk námskeiðið vel fyrir sig segir í frétt um námskeiðið á veefsíðu Háskólasetursins. Stóðu sig þátttakendur með sóma og beittu íslenskunni vel. Er það vonandi að standa megi að fleiri viðlíka námskeiðum því vöntun er oft og tíðum á slíkum framhaldsnámskeiðum.

DEILA