Vestfirðir: fjölgaði um 23 íbúa í ágúst

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þann 1. september voru 7.202 íbúar á Vestfjörðum og haf’i þeim fjölgað um 23 í mánuðinum. Frá 1. desember 2020 hefur íbúum fjölgað um 103 sem gerir 1,5% fólksfjölgun í fjórðungnum. Landsmeðaltalið er 1,4% á sama tíma svo fjölgunin á Vestfjörðum er aðeins yfir því.

Helstu breytingar í ágústmánuði voru áframhaldandi fjölgun í Vesturbyggð. Þar bættust 15 íbúar við og voru þeir 1.135 þann 1. september 2021. Þá fjölgaði einnig í Bolungavík um 7 íbúa og í Ísafjarðarbæ um 6 manns. Fækkun varð í Strandabyggð um 4 og voru íbúar um mánaðamótin 435.

Vesturbyggð: fjölgun um 70 manns

Frá 1. desember 2020 hefur fjölgnin í Vesturbyggð orðið 70 manns eða tæp 7%. Næstmest fjölgun hefur orðið í Ísafjarðarbæ, en þar bættust 47 manns við íbúaskrána. Þriðja sveitarfélagið sem fjölgað hefur í er Súðavík og eru nú 211 íbúar í sveitarfélaginu en voru 202 þann 1. desember sl. Þá hafa tveir íbúar bæst við í Árneshreppi. Fjöldinn er óbreyttur í Strandabyggð en fækkað hefur í fjórum sveitarfélögum, um 9 manns í Bolungavík, um 8 á Tálknafirði og um 4 í Kaldrananeshreppi og Reykhólahreppi hvorum um sig.

DEILA