Norskir hvalveiðimenn tóku fyrstu skóflustunguna fyrir grunni hvalstöðvar á Langeyri á Vestfjörðum árið 1883 og rúmum tíu árum síðar höfðu þeir reist alls átta stöðvar þar í kring. Skömmu eftir aldamótin 1900 höfðu þeir þó gengið svo nærri hvalastofninum við Vestfirði að þeir færðu sig til Austurlands í leit nýrra miða. Nú eru einu minjar þessara atvinnustarfsemi þessi skorsteinn við Sólbakka við Önundarfjörð og ketillinn við hlið hans, sem sjást á myndinni.
Nú eru norsk fyrirtæki komin aftur til Vestfjarða að nýta firðina þar til laxeldis. Markmið þeirra er það sama og hvalfangaranna fyrir 120-140 árum, að ná eins miklum hagnaði og mögulegt er á sem skemmstum tíma. Markmiðið er ekki að byggja upp laxeldi í friði við samfélag og náttúru eða eftirsótta vinnustaði sem skila arðinum af auðlindunum inn í byggðirnar svo hann geti orðið grunnur af sterku samfélagi. Ó, nei, markmiðið er að skila sem allra mestum hagnaði til skemmri tíma svo sá hagnaður geti fóðrað arðgreiðslur til hluthafa. Þannig var það líka með hvalfangarana. Þeirra markmið var ekki að lyfta upp Vestfjörðum heldur aðeins að skila hagnaði til hluthafa í Noregi.
Vestfirðir eiga ekki að vera verstöð
Það er eitthvað óendanlega sorglegt að við séum ekki komin lengra. Að Vestfirðir séu enn verstöð, eins og þeir voru fyrir rostungafangara við landnám. Eins og þeir voru fyrir Baska og sjómenn frá Bretagne-skaga áður en Íslendingar gátu að ráði sótt í auðlindir hafsins. Eins og þeir voru á síldarárunum og eins og þeir eru enn í dag. Það kallast verstöð þegar arðurinn af atvinnustarfseminni er fluttur burt en ekki nýttur til að byggja upp samfélag þar sem hann verður til.
Endurreisn Vestfjarða mun byggja á því að Vestfirðingar sjálfir nái auðlindunum aftur, að kvótinn komi heim til Vestfjarða og að samfélögin sjálf taki yfir fiskeldið í fjörðunum. Það er ekki bara leiðin til að byggja upp öflug og lífvænleg samfélög heldur besta leiðin til að verja náttúruna.
Það er sagt um dýrin að þau skíti ekki í bælið sitt. En þau geta skitið í bæli annarra. Og það á við um kapítalískan rekstur. Hvort sem hluthafar í fiskeldisfyrirtækjum búa í öðru landi eða eru auðfólk sem á ekki lengur neinar rætur í neinu samfélagi heldur svífa um í samfélagi hinna ofsaríku í aflöndum; þá veigra þeir sér ekki við að eyðileggja einn fjörð eða tuttugu. Fyrir þeim er nóg til af fjörðum út um allan heim. En fyrir þau sem búa við fjörðinn er aðeins til einn fjörður og sá fjörður þarf að brauðfæða fólkið í byggðinni, ekki bara næsta uppgjörstímabil heldur um aldur og ævi.
Ekki hlusta á loforð þeirra sem hafa svikið allt
Við þurfum að hefja sjálfstæðisbaráttu Vestfjarða, ekkert ólíka þorskastríðunum. Við þurfum að ná auðlindum hafs og náttúru úr höndum þeirra sem ofnýta þær og þeirra sem taka arðinn af þeim úr byggðunum og flytja burt. Við þurfum að flytja aflið aftur inn í byggðirnar, þar sem fólkið sjálft nýtur þeirra.
Um það snýst sósíalísk byggðastefna Sósíalistaflokks Íslands. Ekki um að brjóta niður byggðirnar eins og gerst hefur í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks svo til alla lýðveldissöguna, heldur til að byggja þær upp; flytja ákvörðunartökuna aftur inn í byggðirnar, valdið til að ákveða hvernig byggðirnar eigi að þróast.
Eitt af allra mestum undrun íslenskra stjórnmála er hvers vegna fólk utan höfuðborgarsvæðisins fellur æ ofan í æ fyrir loforðum Sjálfstæðisflokksfólk og Framsóknarmanna um að þessir flokkar muni verja fólkið úti á landi. Saga sýnir okkur allt annað. Sagan sýnir að í gegnum kvótakerfið og rekstur ríkisvaldsins hafa þessir flokkar flutt allt afl og vald úr byggðunum hringinn í kringum landið og suður til Reykjavíkur eða út í aflandseyjar þar sem hin ríku fela auð sinn.
Í haust gefst fólki færi til að láta af þessari auðsveipni við valdið og auðinn. Leiðin til þess er að kjósa Sósíalistaflokk Íslands.
Gunnar Smári Egilsson.
Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands