Arctic Fish golfmótið

Arctic Fish golfmótið, sem er hluti af Sjávarútvegsmótaröðinni, var haldið sunnudaginn 28. júlí á Tungudalsvelli.

Veðrið lék ekki við keppendur, sem voru 40 talsins, rigningarsuddi og 9° hiti. En keppendur létu það ekki á sig fá og var mótið sögulegt; en sigurvegari þess, Anton Helgi Guðjónsson Golfklúbbi Ísafjarðar, sett nýtt vallarmet á Tungudalsvelli á 68 höggum. Það hentaði Antoni Helga að mörgu leyti vel að spila á blautum vellinum, enda flatir mjúkar og auðveldara að láta kúluna stoppa við innáhögg. Undanfarið hafa flatir verið mjög harðar, enda þurrkar fylgt miklu sólskini og lítilli vætu.

Í öðru sæti í karlaflokki var Flosi Valgeir Jakobsson úr Golfklúbbi Bolungarvíkur og Högni Gunnar Pétursson Golfklúbbi Ísafjarðar var í því þriðja.

Sigurvegari í kvennaflokki var Petrína Freyja Sigurðardóttir úr Golfklúbbi Selfoss, Bjarney Guðmundsdóttir Golfklúbbi Ísafjarðar í öðru sæti og Björg Sæmundsdóttir úr Golfklúbbi Patreksfjarðar í því þriðja.

Í punktakeppni sigraði Flosi Valgeir Jakobsson með 43 punkta.

Að loknu móti var veðurbörðum keppendum boðið upp á veislu í Golfskálanum í boði Arctic Fish og Hótel Ísafjarðar, þar sem verðlaunaafhending fór fram.

Arctic Fish er eitt af leiðandi fyrirtækjum í laxeldi á Íslandi, með höfuðstöðvar staðsettar á Ísafirði. Öll starfsemi fyrirtækisins er á Vestfjörðum, var stofnað 2011 til að stunda fiskeldi á sjálfbæran hátt. Fyrirtækið rekur fullkomna seiðaeldisstöð í Norðurbotni í Tálknafirði með framleiðslu upp á tæplega þrjár milljónir seiða á ári og áætlar framleiðslu upp á fimm milljón seiða á næstu árum. Arctic Fish slátraði rúmlega sjö þúsund tonnum í fyrra en gert er ráð fyrir 12 þúsund tonna framleiðslu í ár og að hún verði orðin um 24 þúsund tonn á næstu árum.

Um 70 manns starfa hjá Arctic Fish í dag og er starfsemin dreifð um Vestfirði.

Myndir: aðsendar.

DEILA