Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn drög að viljayfirlýsingu umhverfis- og auðlindaráðherra, Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar um málefni þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum og þróun þjóðgarðsins til framtíðar.
Yfirlýsingin hefur ekki verið birt og erindi Bæjarins besta, þar sem óskað er eftir yfirlýsingunni, hefur ekki verið svarað.
Bæjarstjóra er svo falið að vinna málið áfram, eins og bókað er, og leggja fyrir bæjarstjórn til samþykktar. Eftir því sem næst verður komist fjallar yfirlýsingin um fjármagn til væntanlegs þjóðgarðs og felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu ríkisins um fjármagn. Sif Huld Albertsdóttir sagði að í yfirlýsingunni kæmi fram hvaða innviðauppbygging gæti átt sér stað. Af umræðumm bæjarfulltrúa á fundinum mátti ráða að talið væri fast í hendi stöðugildi þjóðgarðsvarðar og að Umhverfisstofnun myndi færa eitt stöðugildi frá stofnunni til þjóðgarðsins og svo væru vonir um þriðja stöðugildið síðar.
Súpufundur með Umhverfisstofnun í hádeginu
Fram kom á bæjarstjórnarfundinum á fimmtudaginn í umræðum um viljayfirlýsinguna að bæjarfulltrúar hefðu hitt fulltrúa Umhverfisstofnunar fyrr um daginn til viðræðna um breytingar á friðlýsingarskilmálum þjóðagarðsins. Ekki var gerð grein fyrir breytingartillögunum né hafa þær fengist afhentar. Sigurður Jón Hreinsson sagði að þessi fundarhöld væru óeðlileg og mætti ekki á þann fund.
Ekki var heldur skýrt hver staða breytingatillagna við friðlýsingarskilmálana væri en Jónas Birgisson, bæjarfulltrúi sagði í umræðum að viðbót við 13. grein skilmálanna gerði það að verkum að hann gæti samþykkt viljayfirlýsinguna og væri tilbúinn til að halda áfram viðræðum þótt hann væri ekki tilbúinn til þess að samþykkja friðlýsingarskilmálana. Marzellíus Sveinbjörnsson sagðist enn vera að skipta um skoðun á málinu en gæti samþykkt viljayfirlýsinguna. Þórir Guðmundsson og Sigurður Jón Hreinsson voru gagnrýnir á framgang málsins. Sigurður sagði bæjarstjórn vera að flýta sér óþægilega mikið og vildi tryggja að haldið yrði opnu að nýta virkjunarmöguleika í væntanlegu þjóðgarði og nefndi þar hugmyndir um virkjun í Vatnsfirði. Benti hann á að Vestfirðingar þyrftu að ræða hvernig afla skyldi raforku ef ekki yrði af Hvalárvirkjun. Þórir tók undir það að verið væri að flýta sér um of og sagði kynningu til íbúanna ekki hafa verið næginlega.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri sagði að skilmálarnir væru ekki tilbúnir og að ekki væri hægt að afgreiða málið endanlega fyrr en þeir væru komnir.
Umsagnir Orkubúsins og Fjórðungssambandsins ekki kynntar
Athygli vekur að ekki verður séð að framkomnar umsagnir um friðlýsingaskilmálana hafi verið lagðar fram í bæjarráði eða í bæjarstjórn. Einn bæjarfulltrúi sagði við Bæjarins besta að hann hefði ekki séð umsagnirnar og að hann vissi ekki til þess að þær hafi verið kynntar.
Meðal umsagna eru umsagnir Orkubús Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Í báðum umsögnunum eru gerðar alvarlegar athugasemdir við friðlýsingardrögin og kallað eftir því að gefa meiri tíma til þess að ná fram breytingum og tryggja að hægt verði að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngum og raforkumálum. Leggur stjórn Fjórðungssambandsins m.a. til að fresta málinu fram í september. Fulltrúi Ísafjarðarbæjar í samráðshópnum er Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri.