Orkubú Vestfjarða: ekki hægt að fara í Vatnsfjarðarvirkjun ef hennar ekki getið í friðlýsingarskilmálum þjóðgarðsins

Í minnisblaði Orkubús Vestfjarða til fulltrúa Ísafjarðarbæjar og Vesturbyggðar í samstarfshópi um stofnun þjóðgarðs á Vestfjörðum, bæjarstjóranna Rebekku Hilmarsdóttur og Birgis Gunnarssonar, er upplýst að fram hafi komið á fundi Orkubúsins með Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneyti það mat lögfræðinga að ekki yrði hægt að að taka 20 til 30MW Vatnsfjarðarvirkjun til meðferðar í Rammaáætlun vegna laganna sem gilda um Rammaáætlun, þar sem
hún væri yfir 10MW mörkunum og hennar væri ekki getið sérstaklega í friðlýsingarskilmálum um þjóðgarðinn.

Orkubúið telur afar mikilvægt að sveitarfélögin bregðist við þessum upplýsingum þannig að hægt verði að setja valkostinn, Vatnsfjarðarvirkjun í skipulagsferli og taka til meðferðar í Rammaáætlun.

Bent er á tvær leiðir til þess að ná því fram.

Annars vegar mætti bæta inn í friðlýsingarskilmálana texta sem beinlínis heimilaði að virkjun sem nýta
ætti afrennslið fyrir botni Vatnsdals yrði tekin til skipulagsmeðferðar og umfjöllunar í Rammaáætlun.
Þar væri miðað við 20 til 30 MW afl.

Hins vegar mætti skoða þann möguleika að sú virkjun ásamt tilheyrandi vatnasvæði yrði tekin út úr friðlandinu með nýjum mörkum á friðlýstu svæði þjóðgarðs og friðlands.

Í minnisblaðinu er farið yfir stöðuna í raforkumálum á Vestfjörðum. Það er ekki nægileg raforkuframleiðsla til þess að unnt sé að bjóða upp á nægilegt raforkuöryggi. Ástæðan er einfaldlega sú að Mjólkárvirkjun er of lítil og skammhlaupsaflið í Mjólká verður því of lítið. Þessi skortur á skammhlaupsafli verður hamlandi á komandi árum þegar Landsnet hefur lokið jarðstrengslögnum sem hringtengir suður- og norðursvæði Vestfjarða innbyrðis. Af því leiði m.a. að ný lína til Súðavíkur verði að vera loftlína. Núverandi loftlína Orkubúsins til Súðavíkur hefur verið og er erfiðasta línustæði fyrirtækisins og það bilanagjarnasta, enda er þessi lína sú hæsta yfir sjávarmáli á öllu landinu.

Vatnsfjarðarvirkjun er lausnin

Í minnisblaðinu segir:
„Lausn á áðurnefndri styrkingu á Mjólkárveitu, er að byggja stærri virkjun en Mjólkárvirkjun, þ.e. Vatnsfjarðarvirkjun. Virkjunin mundi draga mjög úr þörf á að flytja raforku inn á Vestfirði, en aðalatriðið er þó að hún lagar nánast alla galla Mjólkárveitu eins og hún er í dag. Vegna nálægðar 20-30 MW Vatnafjarðarvirkjunar við Mjólkárveitu, þá er það sú virkjun sem gagnast raforkuöryggi á vestan verðum Vestfjörðum mest. Við fyrstu skoðun virðist virkjunarkosturinn vera einn sá hagkvæmasti á Vestfjörðum og með nýtingu hans er hægt að slá tvær flugur í einu höggi og auka græna orkuframleiðslu innan Vestfjarða sem rímar við stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.

Orkubú Vestfjarða hefur farið vandlega yfir mögulega orkukosti á Vestfjörðum og hefur ekki fundið neinn valkost sem kemst nærri þeim sem hér er nefndur í að styrkja raforkukerfið og afhendingaröryggið á Vestfjörðum.

Hinn valkosturinn

Ennfremur segir í minnisblaðinu:
„Verði ekki mögulegt að fara í Vatnsfjarðarvirkjun þá þarf að byggja upp 160 km langa loftlínu til að
tvöfalda línuna úr Hrútatungu í Mjólká með tilheyrandi kostnaði sem gæti numið 14 til 16 milljörðum
króna. Þá mun einnig skapast þörf á auknu (olíuknúnu) varaafli. Sá tími er hins vegar liðinn að flestra
mati að hægt sé að byggja nýjar olíuknúnar varaaflstöðvar af sömu stærðargráðu (11 MW) og byggð var
árið 2015 í Bolungarvík. Aukin eftirspurn eftir forgangsorku á svæðinu mun alltaf kalla á annaðhvort
meira varaafl eða meira vatnsafl innan svæðisins.“

DEILA