Greið játning þingmanns Framsóknar

Það er til mikillar eftirbreytni þegar einhverjum verður á að sá hinn sami játi misgjörðir sínar greiðlega, Það gerði  Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins á dögunum í kjölfar þess þegar formaður flokks hennar reyndi að eigna sér stórstíga ljósleiðaravæðingu í dreifbýli á undanförnum árum. Halla Signý ritaði grein þar sem hún rekur ágæt störf Haraldar Benediktssonar að þessu stórvirki sem eins og áður hefur komið fram hefur á örfáum árum gjörbreytt búsetuskilyrðum í dreifbýli. Halla Signý á hrós skilið  fyrir þessa bragarbót á tilraun Framsóknarflokksins til þess að skreyta sig með stolnum fjöðrum.

Þegar líður á grein Höllu Signýjar reynir hún samt sem áður að gera formann sinn og Framsóknarflokkinn að höfundi ljósleiðaravæðingarinnar og nefnir þar til sögunnar grein Sigurðar Inga formanns síns frá árinu 2013. Því er ekki úr vegi að rifja upp nokkrar sögulegar staðreyndir.

Það mun hafa verið á árinu 2011 sem umræða hefst innan bændasamtakanna, undir forystu Haraldar, um uppbyggingu öflugra fjarskipta í sveitum. Snemma árs 2012 áttu forystumenn bændasamtakanna fund með stjórnendum Mílu um framtíðarskipulag fjarskipta í sveitum. Þá hófst barátta við að ná athygli stjórnvalda að málinu. Það tókst þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir skipaði starfshóp undir stjórn Haraldar sem skilaði af sér tillögum sem  urðu grunnurinn að því átaki sem nú er á lokastigi. Átaki sem skilað hefur Íslandi í fremstu röð  í fjarskiptum.

Það er óþarfi að dvelja mikið við söguna sé hún rétt skráð. Meira um vert er að nýta þá reynslu sem þetta átak hefur skapað til stórstígra framfara á öðrum sviðum. Má þar nefna dreifingu rafmagns og endurnýjun tengivega líkt og Haraldur hefur nefnt. Mikilvægt er að þar standi þingmenn og sveitarstjórnarmenn saman. Ég veit að Halla Signý mun ekki liggja á liði sínu þegar að þeim málum kemur. Það er fyrir öllu.

Halldór Jónsson

DEILA