Fisherman á Suðureyri er að hefja framkvæmdir við nýtt reykhús fyrir Fisherman við Skólagötu 8 á Suðureyri. Að sögn Elíasar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra er um að ræða um þrjú hús sem tengjast saman með tengibyggingum alls 655 fermetrar. Framkvæmdin er skipulögð sem tveir áfangar, fyrst tvö hús sem snúa að Skólagötu og svo á síðari stigum er áætlað að byggja húsið sem snýr að Stefnisgötu. Áætlað er að rekstur verði kominn í húsin við Skólagötu í byrjun árs 2022.
Húsið við Stefnisgötu er endurgerð sem byggir á húsi sem norskir hvalveiðimenn byggðu fyrst á Uppsalaeyri í Ísafjarðardjúpi sem nú heitir Eyri í Seyðisfirði. Þegar hvalveiðum lauk þá eignaðist Ásgeirsverslun á Ísafirði húsið og var það flutt í pörtum og endurbyggt sem verslun á Suðureyri árið 1908. Síðar var Ísver hf með saltfiskvinnslu í húsinu en húsið brann til grunna vorið 1953. Húsin við Skólagötu draga svip sinn af pakkhúsi sem Ásgeirsverslun var með á þessum slóðum áður fyrr svo hönnun á þessum húsum er tekin frá húsum sem voru á þessu svæði við upphafi byggðar á Suðureyri.
Vinnslan vestur á næsta ári
Fisherman rekur reykhús og vinnslu á afurðum úr laxi, silung og bleikju í Hafnarfirði en áætlað er að öll sú starfsemi verði komin vestur fyrir 1.apríl 2022. „Markmið okkar með þessum flutning á starfseminni er að vera með alla okkar framleiðslu á sama stað og að vera nær þeim sem eru að rækta fiskinn hér fyrir vestan. Við höfum verið að að kaupa lax, silung og bleikju af Arnarlax, Arctic fish, Hábrún og Tungusilung sem eru öll með frábæran fisk hér fyrir vestan og vöxtur í eldi hér á svæðinu skapar fyrirtæki eins og Fisherman tækifæri í frekari fullvinnslu á afurðum. Við ætlum að fylgja því eftir með frekari fjárfestingum í fullvinnslu sjávarafurða sem verða þá, hreinlega að vestan“ segir Elías Guðmundsson.