Ljósið heim

Halldór Jónsson fer á flug í aðsendri grein og vill þinglýsa ljóðsleiðaravæðingu landsins á Sjálfstæðisflokkinn. Það sem er rétt hjá Halldóri er að Haraldur Benediktsson hefur stýrt stýrihópi um Ísland ljóstengt frá upphafi og hefur farist það vel og örugglega af hendi. Verkefnið Ísland ljóstengt hefur staðið yfir frá árinu 2016 og var sett á stað í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Framsóknar og Ólöf Nordal var innanríkiráðherra sem hafi þá yfirumsjón með málaflokknum.

Og það varð ljós

Gott fjarskiptanet hefur verið áherslumál Framsóknarflokksins lengi enda flokkurinn staðið fyrir öflugri byggðastefnu allt frá upphafi. Samkeppnishæfni samfélaga snýr að tryggu fjarskiptasambandi og ljósleiðaratæknin grunnþátturinn í öflugri atvinnu og búsetu um allt land. Árið 2013 ritaði Sigurður Ingi Jóhannsson þá alþingismaður grein sem bar yfirskriftina „ljós í fjós“ þar sem kastljósinu var beint að dreifbýlinu og mikilvægi þess að það yrði ljóstengt. Síðar það ár var það sett á dagskrá í stjórnarsáttmálanum nýrrar ríkisstjórnar sem framsóknarmenn komu að. Í fjarskiptaáætlun sem Sigurður Ingi lagði fram á Alþingi árið 2019 segir að stefnt skuli að því að aðgengi lögheimila og atvinnuhúsnæðis að ljósleiðara verði 99,9% og gert er ráð fyrir að verkefnið Ísland ljóstengt ljúki fyrir árslok 2021 enda var átakið aftur sett í forgang í núverandi stjórnarsamstarfi.

Öflugt ljósleiðaranet

Í dag eru nær 90% heimila í landinu ljósleiðaratengd og er Ísland í toppsæti sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu. Það skýrist af metnaðarfullri uppbyggingu ljósleiðara undanfarin ár í boði stjórnvalda. Verkefnið Ísland ljóstengt er byggt á fjarskiptaáætlun. Í henni er mörkuð stefna í fjarskiptum og netöryggi. Síðan er það öflug samvinna ríkis og sveitarfélaga að tryggja íbúum landsins tenginguna.

 Nú hefur Sigurður Ingi sem samgöngumálaráðherra sagt að hann í sínu ráðuneyti svari ákalli um ljósleiðarvæðingu byggðakjarna og hyggst leggja grunn að nýju samvinnuverkefni, Ísland fulltengt, í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins alls fyrir árslok 2025.

Verkefnið feðrað

Það er skiljanlegt að allir vilji eigna sér verkefnið enda gott. Það er þó líklega svo að margir vinna létt verk og svo er um þetta stóra verkefni. Í ræðu sinni um daginn þakkaði samgönguráðherra Guðbjörgu Sigurðardóttur, skrifstofustjóra fjarskiptamála í ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnar sem hefur staðið í stafni í þessum málum frá upphafi þess.

Það er gott að hafa góðar flugfjaðrir en það þarf að örugga samvinnu og úthald til að ná til lands með svo öflugt verkefni sem Ísland ljóstengt hefur skilað íbúum landsins. Þar hefur framsókn staðið í stafni.

Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA