Aðalfundur Litla Leikklúbbsins

Aðalfundur Litla leikklúbbsins á Ísafirði verður haldinn í Edinborgarsal klukkan 15 sunnudaginn 9. maí. Starf klúbbsins er að lifna við á ný eftir nokkurra ára hægagang og segir í frétt frá stjórn klúbbsins að óhætt sé að segja að meðlimir séu fullir af hugmyndum, krafti og gleði.
Samkomutakmarkanir undanfarið ár hafa vissulega haft sín áhrif, til dæmis voru vinnustofur sem klúbburinn stóð fyrir á síðasta ári færðar að mestu yfir á Zoom eftir því sem takmarkanir voru hertar. Gamanleikritið Fullkomið brúðkaup, sem sýnt var í janúar á þessu ári, átti upphaflega að vera frumsýnt í október 2020.

„Þetta hefur þó ekki haft áhrif á leikgleðina og nú horfum við björtum augum til næsta leikárs, sem lítur út fyrir að geta farið að mestu eðlilega fram. Stefnt er að því að sýna leikrit haustið 2021 og verður uppfærslan einmitt rædd á aðalfundinum.“


Það þarf mjög margt að ganga upp til þess að koma leiksýningu á svið. Tæknimálin þurfa til dæmis að vera í öruggum höndum. Þá þarf margar hendur þarf til að sinna búningum, sminki og sviðsmynd. Sviðsstjórar, sýningarstjórar og leikmunastjórar leika lykilhlutverk án þess að stíga nokkurn tíma á svið og svo eru það auðvitað leikstjórinn og leikararnir sem skila verkinu áfram til áhorfenda.

Það er þörf og pláss fyrir alls konar fólk í leikhúsinu og því eru gamlir sem nýir meðlimir Litla leikklúbbsins hvattir til þess að mæta á aðalfundinn, skrá sig til leiks og taka þátt í undirbúningi næsta leikárs.

DEILA