LausnaVer – Vestfirskir leiðtogar til framtíðar

Hvað er LausnaVer?

Skúrin, samfélags- og nýsköpunarmiðstöð á Flateyri, Djúpið, frumkvöðlaskjól í Bolungarvík og Verkefnastjóri á Flateyri standa að leiðtogaþjálfun fyrir frumkvöðla sumarið 2021. Verkefnið er unnið í samvinnu við Vinnumálastofnun, Lýðskólann á Flateyri, Future Food Institute/FAO og samfélags- og nýsköpunarmiðstöðvar á Vestfjörðum. 


Í fréttatilkynningu frá LausnaVeri segir að með verkefninu sé markmiðið að skapa vettvang fyrir unga frumkvöðla til að koma saman og takast á við krefjandi áskoranir og rannsaka nýjar lausnir á staðbundnum sem og alþjóðlegum áskorunum. Lögð verður áherslu á víðtæka sýn í forystu og að byggja upp færni til sjálfshjálpar og samfélagsþróunar. Stuðlað verður að því að efla frumkvöðlastarf meðal ungs fólks á svæðinu með þjálfun og vinnu sem miðar enn fremur að því að koma á tengslum á milli þátttakenda og efla samstarf á milli byggðanna á Vestfjörðum. Að lokum er markmiðið að tengja ungt og upprennandi fólk við framsækin fyrirtæki af svæðinu og tryggja þannig tengingar sem halda til framtíðar!

Fyrir hverja?

Markhópar LausnaVers eru ungir frumkvöðlar og verðandi leiðtogar sem búa á Vestfjörðum, hafa búið hér, hyggjast setjast hér eða hafa þor og vilja til að taka þátt í uppbyggingu svæðisins. Við leitum að þátttakendum sem hafa brennandi vilja og áhuga á því að leggja sitt af mörkum til samfélagsþróunar í heimabyggð og á svæðinu öllu. Valdir verða til þátttöku einstaklingar sem hafa sýnt frumkvæði og þor og eru tilbúin til að reyna á sig, takast á við áskoranir og leita að verðmætum lausnum til framtíðar uppbyggingar á svæðinu. 

LausnaVer hentar jafnt Íslendingum sem og öðrum og fer kennsla og verkefnavinna fram á ensku þegar það á við. 

Námsbrautin

LausnaVer er skipulagt sem þriggja mánaða námsbraut og verður haldið í júní, júlí og ágúst á þessu ári. Þátttakendur hittast (á staðnum eða á fjarfundum) í vinnustofum, hafa aðgang að leiðbeinanda (mentor), vinna að einstaklings- og hópaverkefnum og taka þátt í annars konar viðburðum. 

Námsbrautin endar svo með stærri viðburði í samstarfi við Future Food Institute (https://futurefood.network/institute/). Viðfangsefnin eru miðuð að Sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna SDG og er námsefnið þróað í samstarfi við Future Food Institute (ÍT). 

Þátttökugjald: Gjald fyrir þátttöku í LausnaVeri er 50 þúsund krónur sem greiðist þegar þátttaka hefur verið staðfest. 

Þátttakendur geta valið að greiða gjaldið sjálfir en til greina kemur einnig að leita til fyrirtækja eða stofnana á svæðinu um styrk til þátttöku auk þess sem flestir starfsmenntasjóðir verkalýðsfélaganna styrkja félagsmenn sína til slíks náms. 

Umsóknarfrestur: Umsóknarfrestur er til 15. maí n.k.

Umsóknir og nánari upplýsingar á lausnaver.is.

Frekari upplýsingar eru á

https://www.facebook.com/Lausnaver

Myndband:

https://youtu.be/mpxmCVT-Ej0
Lýðskólinn á Flateyri.
DEILA