Kynningargrein: Þóra Margrét Lúthersdóttir

Hver er Þóra.

Ég er sauðfjár- og skógarbóndi, og ég er í sambúð með Einari Árna Sigurðssyni. Saman eigum við fjögur kraftmikil börn. Við búum á bænum Forsæludal í Vatnsdal og rekum þar sauðfjárbú, einnig vinnum við að skógrækt. Ég á ættir að rekja í Fnjóskadal og í Húnavatnssýslur. Mínum frítíma vil ég eyða með fjölskyldunni, í ferðalög, útivist og bókalestur.

Vinstri hreyfingin grænt framboð.

Framundan er rafræn kosning um efstu sæti á framboðslista VG næsta haust. Kosningin fer fram rafrænt dagana 23-25 apríl.

Ég vil hvetja fólk sem skráð er í hreyfinguna, nýja félaga sem eldri, til að nota rétt sinn og kjósa.

Fólkið

Kjördæmið er víðfeðmt, býr að fjölskrúðugu mannlífi og ótal tækifærum til vaxtar og sóknar. Að mínu viti búa þó landsvæðin innan okkar stóra kjördæmis að mismunandi áherslum og mismunandi þörfum, hvað varðar atvinnu- og byggðaþróun. Því þarf að mæta og gæta þess að taka ekki framfyrir hendur fólksins sem búið hefur til sín tækifæri í heimabyggð.

Það sem þó sameinar svæðið allt eru samgöngur, til að atvinnulíf nái að blómstra þurfa framleiðendur að koma sínum vörum frá sér og hafa aðgengi að hráefni. Vegakerfin hér í kjördæminu eru víða í mjög slæmu standi og val um annan ferðamáta víða ekki í boði. Að ekki sé traust fjarskiptasamband alls staðar þarf að bæta út. Stöðugt og traust fjarskiptakerfi er ekki eingöngu öryggisatriði fyrir okkur, heldur skiptir það miklu máli í atvinnumálum. Störf án staðsetningar eru framtíðin, ríkið ætti að mínu mati að ríða á vaðið, koma upp starfsstöðvum úti á landi og auglýsa sín störf í auknum mæli sem störf án staðsetningar.

Til að ungt fólk komi og ákveði að búa hér þurfum við að hafa traust atvinnusvæði, félagslegt frelsi, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og möguleika til sköpunar.

Saman getum við byggt upp – saman getum við gert gott samfélag betra.

Framtíðarsýn mín fyrir Norðvesturkjördæmi – hvað þurfum við til að ná lengra.

Við þurfum bættar samgöngur og fjarskiptatengningar. Ef eitthvað þá hefur Covid19 sýnt okkur að það er hægt að undirrita stóra samninga, eiga samskipti og starfa utan starfsstöðva. Við í kjördæminu eigum að fá bita af kökunni, við höfum fólkið og hugmyndirnar. Við þurfum að fá öflugt fólk til að starfa fyrir okkur, fólk til að greiða götur hugmynda og uppbyggingar í okkar þágu.

Horfa skal til þess að fullvinnsla vöru fari sem mest fram í heimahéraði, það skapar störf og meiri innkomu fyrir framleiðslusvæðið. Úthlutun ríks á kvóta til smábátasjómanna á að vera réttlát, kvótasöfnun á hendur fárra og stórra útgerða er ekki framtíðarhagur byggðarlaga. Fyrir mörg sjávarpláss hér í kjördæminu skiptir þetta gríðarlega miklu máli.

Við sem þjóð eigum að framleiða okkar orku og matvæli fyrir okkur, okkar vegna. Orkusala til okkar sem þjóð, okkar orkuþörf, á að ganga fyrir. Ekki skal virkja íslenska náttúru til að selja orkuna út á erlenda markaði. Framsal stjórnvalda á loftslagskvóta á að afnema.

Tryggja á að íslensk þjóð hafi hagnað af að erlend fyrirtæki reki rekstur hér á landi.

Kaup aðila á landi vegna auðlinda landsins skal stöðva, íslenskt land á að vera í eigu þeirra sem hér búa. Íslenskar bújarðir skulu ekki vera gerðar að eyðibýlum vegna hlunninda og að fólk kaupi þær hlunnindanna vegna en búi ekki þar.

Eldri borgarar og öryrkjar eru ekki sami hópur, þetta eru tveir hópar með mismunandi þarfir og mismunandi réttindamál. Þeim þarf að mæta með þær þarfir í huga.

Heilbrigðisþjónustu, og ég vil segja sérstaklega til yngra fólks, þarf að bæta. Fyrir samfélög líkt okkar er ofboðslega dýrt að missa fólk úr námi, úr vinnu eða sem virkan þátttakanda í samfélaginu vegna andlegra veikinda eða líkamlegra kvilla. Við þurfum að grípa inn í fyrr, ekki bara þegar rauðu ljósin öskra á okkur.

Menntun er einn mikilvægasti þátturinn, við eigum framhalds-, og háskóla að ógleymdum fjarnámslausnum. Menntun eru upplýsingar, menntun eru fyrstu skref margra til þroska og skoðana og sjálfstæðis. Við þurfum að passa að menntastofnanir byggist upp og haldi velli í kjördæminu okkar. Við þurfum að búa svo um að mótunarár ungs fólks byggist á jákvæðri líðan í samfélaginu og að ungt fólk sjái sína framtíð hér áfram.

Nafn: Þóra Margrét Lúthersdóttir

Aldur: 39 ára

Heimili: Forsæludalur

Fæðingarstaður: Reykjavík, 1sta febrúar 1982

Staða: Sauðfjár- og skógarbóndi

Sæti á lista VG: 2-3 sæti