Melódíur minninganna & Jón Kr. Ólafsson í Rokksafni Íslands

Ný sérsýning var opnuð í Rokksafni Íslands í Hljómahöllinni í Keflavík í gær, sunnudaginn, 7. mars.  Ber hún titilinn Melódíur minninganna & Jón Kr. Ólafsson. Sýningin fjallar um söngvarann Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal og tónlistarsafn hans Melódíur minninganna sem er til húsa á heimili Jóns á Bíldudal.

Undirbúningur að sýningunni hefur staðið síðan í júní á síðasta ári að frumkvæði  Tómasar Young framkvæmdastjóra Hljómahallarinnar og Rokksafns Íslands í Keflavík og með dyggri aðstoð Jónatans Garðarssonar, alfræðings í íslenskri tónlistarsögu.

Á sýningunni  má finna fjölmarga muni sem Jón hefur safnað í gegnum tíðina frá tónlistarferli sínum og öðrum tónlistarmönnum svo sem; Elly Vilhjálms, Ragga Bjarna, Hauki Morthens, Svavari Gests, Stuðmönnum og fleirum.

Gestir sýningarinnar geta upplifað safnið Melódíur minninganna á Bíldudal með aðstoð tækninnar en hluti af sýningunni á Rokksafni Íslands er gagnvirk sýndarveruleikagleraugu sem gera gestum kleift að skoða og ganga um tónlistarsafnið, sem myndað var sérstaklega fyrir sýninguna.

Söngvarinn Jón Kr. Ólafsson, sem gerði garðinn ekki hvað síst frægan með hljómsveitinni Facon frá Bíldudal á seinni hluta sjöunda áratugarins, hefur í tvo áratugi rekið tónlistarsafnið Melódíur minninganna á heimili sínu á Bíldudal.

„Ég ákvað að hætta í vor. Ég varð áttræður í ágúst og ég er búinn að skila 60 árum. Ég er búinn að syngja í 60 ár. Það er sæmilega góður tími og nú er ég frjáls. Alveg frjáls,“ segir Jón í Fréttablaðinu  og vísar til lagsins Ég er frjáls sem hann gerði landsfrægt með hljómsveitinni Facon og Svavar Gests gaf út á 45 snúninga hljómplötu árið 1969.Fjölmenni var við opnun sýningarinnar í gær í Rokksafni Íslands í Keflavík. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Kjartan Már Kjartansson, opnaði sýninguna formlega og heiðraði Jóni Kr. með fallegum steini til minningar þessa glæsilega þáttar í sögu Rokksafns Íslands.