Tillaga minni sveitarfélaga: til umsagnar hjá sveitarstjórnum á Vestfjörðum

Frá Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Óformleg samtök minni sveitarfélaga á landinu hafa sent inn tillögu sína til Alþingis þar sem lagt er til að fella brott úr frumvarpi ríkisstjórnarinnar lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga fámennari en með 1000 íbúa eins og greint hefur verið frá á Bæjarins besta.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík er einn þeirra sem unnu að tillögunni fyrir hönd fámennu sveitarfélaganna og hann sagði Bæjarins besta að tillagan hefði verið sent ölum sveitarstjórnum á Vestfjörðum með ósk um að framsenda hana til allra sveitarstjórnarmanna og að þeir tækju hana til umræðu og gæfu álit sitt á innihaldinu.

Umræður í stað þvingunar

Í tillögu minni sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að skylt verði að loknum sveitarstjórnarkosningum og eigi síðar en 6 mánuðum eftir þær, að taka til umræðu og meta hvort ástæða sé til að sveitarfélagið sameinist öðru eða öðrum sveitarfélögum. Í þessu felst að hætt verði við sameiningu án samþykkis íbúa sveitarfélagsins.

Sé það mat sveitarstjórnar að rétt sé að skoða sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög hefst viðræðuferill. Sveitarstjórn skal kynna niðurstöðu almennrar umræðu fyrir íbúum, að lágmarki með bókun í fundargerð sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.

Telji sveitarstjórn ekki þörf fyrir sameiningarumræða geta 15% íbúa óskað eftir því að sameiningarkostir verði metnir og haldin íbúakosning um þá.

Stuðningur við tillögurnar

Tvö sveitarfélög hafa þegar tekið tillögurnar til umræðu og er afstaða þeirra beggja jákvæð.

Bæjarráð Bolungarvíkur hefur tekið málið á dagskrá og segir í bókun að það styðji tillögu undirbúningshóps minni sveitarfélaga og telji hana vera
vel ígrundaða lausn til sátta milli allra sveitarfélaga á landinu.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók málið fyrir í síðustu viku og segir að sveitarstjórn taki heilshugar undir efni minnisblaðs frá starfshópi minni sveitarfélaga og þakkar sveitarstjórnin góða vinnu sem þar hefur farið fram.

DEILA