Sjótækni festir kaup á vinnubát

Mynd af samskonar vinnubát: Vinnubátur Sjótækni, Catamaran NABCAT 1510 DD frá Moen Marin í Noregi. Ljósmynd Moen Marin.

Sjótækni á Tálknafirði og fiskeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic fish undirrituðu þjónustusamninga á dögunum á Ísafirði. Sjótækni hefur annast ýmsa þjónustu fyrir fiskeldisfyrirtækin á Vestfjörðum á undanförnum árum og ná þessir samningar yfir þau verkefni sem sinna þarf. Samningarnir eru í gildi til fjögurra ára og fela í sér aukin tækifæri til uppbyggingar í þjónustu og búnaði Sjótækni.

Sjótækni er verktaki sem sinnir uppsetningu, eftirliti, viðhaldi og þjónustu við ýmiskonar mannvirki í sjó og vatni fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög ásamt því að reka öfluga köfunarþjónustu. Fyrirtækið þjónustar bæði stóra og litla verkkaupa við fjölbreytt verkefni um allt land og erlendis eftir því sem verkkaupum hentar. Framkvæmdir tengjast meðal annars fiskeldi, neðansjávarlögnum, mannvirkjum í sjó og vatni, skipaþjónustu, virkjunum og stóriðju. Sjótækni gerir út báta, vinnuskip, pramma, þjónustubíla og mikið af sérhæfðum tækjum og búnaði svo sem sjó- og vatnamælingatæki af fullkomnustu gerð. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Tálknafirði í Hafnarhúsinu.

Nýr vinnslubátur í smíðum

Þar hefur verið unnið að endurbótum húsið rúmi betur starfsemi og búnað félagsins. Í fréttatilkynningu frá Sjótækni segir að framundan sé mikilvæg fjárfesting hjá Sjótækni þar sem gengið hefur verið frá samningum um smíði á nýjum vinnubát fyrirtækisins í Noregi. Um er að ræða öflugan vinnubát sem sinnt getur þjónustu við fiskeldismannvirkin og unnið við uppsetningu nýrra kvía og festinga þeirra ásamt margskonar öðrum verkefnum sem Sjótækni fæst við.

Vinnubáturinn er af gerðinni Catamaran NABCAT 1510 DD frá Moen Marin í Noregi og er 15 m langur og 10 m breiður. Vinnubáturinn er tvíbytna og búinn öflugum vélum ásamt krönum og búnaði til að setja út og strekkja kerfisfestingar fyrir kvíar. Góð aðstaða verður fyrir áhöfnina um borð og mun báturinn auðvelda alla vinnu hjá Sjótækni við fiskeldið. Von er á bátnum til Íslands í mars og beðið er með eftirvæntingu og tilhlökkun að takast á við framtíðar verkefni.

Kjartan Jakob Hauksson, framkvæmdastjóri Sjótækni ehf.
Mynd frá undirskrift samninga: Nýjum samningum fagnað við undirskrift, frá vinstri Egill Ólafsson, Arctic fish, Sten Ove Tveiten, Arctic fish, Rolf Ørjan Nordli, Arnarlax, Kjartan Jakob Hauksson, Sjótækni, Björgvin Gestsson, Sjótækni og Gunnar Skúlason Sjótækni. Ljósmynd Neil Shiran Þórisson, Arctic fish.

 

 

DEILA