Teigsskógur: tvær kærur og báðum hafnað

Í ljós kom að það bárust tvær kærur til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál varðandi Teigskóg.

Í báðum tilvikum var kærð sú  ákvörðun sveitarstjórnar Reykhólahrepps frá 25. febrúar 2020 að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðavegi á milli Bjarkalundar og Skálaness. Þess var krafist að að ákvörðunin yrði felld úr gildi.

 

Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi voru kærumálin sameinuð.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að hafna kröfunni. Það þýðir að framkvæmdaleyfið stendur og er í fullu gildi.

Að annarri kæru stóð samtökin Landvernd, en að hinni  stóðu sameigilega fjórir eigendur Grafar í Reykhólahreppi, tveir eigendur Hallsteinsness í Reykhólahreppi, Náttúruverndarsamtök Íslands, Fuglaverndarfélag Íslands og Gunnlaugur Pétursson, verkfræðingur.

Til varna í málinu voru Reykhólahreppur, sem gaf út framkvæmdaleyfið og Vegagerðin sem fékk framkvæmdaleyfið.

Vegagerðin gerði kröfu um frávísun seinni kærunnar þar sem hún væri of seint fram komin. Þá vildi Vegagerði vísa frá kröfu Gunnlaugs Péturssonar þar sem ekkert liggi fyrir í málinu hvaða lögvörðu hagsmuni hann hafi í málinu, en hann sé a.m.k. ekki landeigandi að Gröf eða Hallsteinsnesi. Reykhólahreppur tók undir þetta og vildi að úrskurðarnefndin tæki bæði þessi atriði til sjálfstæðrar skoðunar.

Auglýsingar um samþykkt og útgáfu hins kærða framkvæmdaleyfis hafi verið birtar 17. mars 2020. Kærufrestur er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Honum lauk því 17. apríl. Seinni kæran, frá landeigendunum o.fl er dagsett 16. apríl en þó liggi ekki fyrir hvenær hún hafi borist úrskurðarnefndinni. Enginn rökstuðningur sé í kærunni heldur sé eingöngu óskað frests til að leggja fram greinargerð með kærunni. Greinargerðin hafi síðan verið dagsett 18. sama mánaðar en ekki liggi fyrir hvenær hún hafi borist nefndinni, segir í athugasemdum Vegagerðarinnar.

„Vísa verði kærunni frá enda verði ekki bætt úr slíkum annmarka síðar. Með því að heimila kærendum að skila fyrst kæru, án alls rökstuðnings, og bæta svo úr þeim annmarka síðar sé úrskurðarnefndin í raun að lengja kærufrestinn án lagaheimildar.“ segir í rökstuðningi Vegagerðarinnar.

Um aðild Gunnlaugs að seinni kærunni segir Vegagerðin: „Í kæru sé aðild hans eingöngu skýrð með því að hann hafi gert athugasemdir við málið og eigi því rétt á að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð málsins og úrlausn þess. Skýrt sé skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvalds­ákvarðanir til nefndarinnar, en sérregla gildi um umhverfis- og náttúruverndar­samtök.“ Því beri að vísa kæru hans frá.

Kæru Gunnlaugs vísað frá

Af hálfu kærenda er því svarað þannig að kæran hafi borist innan kærufrests og varðandi aðild Gunnlaugs sé bent á að eiginkona hans eigi 25% eignarhlut í Gröf í Reykhólasveit. Samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 eigi hann helming eignarinnar komi til skipta milli þeirra. Hann hafi því einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af því að eignarréttindin verði ekki skert með veglagningu um örmjótt landið.

Um aðild Gunnlaugs Péturssonar að kærunni segir úrskurðarnefndin að  kærandi verði sýna fram á að  hann eigi einstaklingsbundna og jafnframt verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. „Að mati úrskurðarnefndarinnar geta þeir afleiddu hagsmunir sem kærandi kann að eiga á grundvelli eignarhalds maka að hluta jarðar á svæðinu, sem birtist á sameiginlegu skattframtali þeirra, komi til fjárskipta þeirra á milli ekki talist svo beinir eða verulegir að lögvarðir geti talist í skilningi greinds ákvæðis. Verður kæru hans því vísað frá úrskurðarnefndinni.“

Seinni kæran gild

Um kæruna í heild segir úrskurðarnefndin að kæran hafi borist innan tilskilins frests og í henni séu lögboðnar upplýsingar um það hver hin kærða ákvörðun er, hverjir kærendur eru og kröfur þeirra. Þá beri nefndinni að veita leiðbeiningar í samræmi við stjórnsýslulög. Það var gert og bent á það sem upp á vantaði og barst efnislegur rökstuðningur nefndinni skömmu síðar.

„Verður að því virtu að telja að kæra hafi borist innan kærufrests þrátt fyrir það að efnislegur rökstuðningur hafi ekki borist fyrr en að honum loknum.“

Hvað svo?

Almennt er unnt að bera ákvörðun framkvæmdavaldsins undir dómstóla, en úrskurðarnefndin er lokaaðili innan þess eða stjórnsýslunnar. Það er hins vegar fjarri því að hver sem er geti skotið til dómstóla máli af þessu tagi. Meginreglan er að sá geti kært sem hefur lögvarða hagsmuni í viðkomandi máli. Spurningin er hverjir eru það í þessu tiltekna máli.

Eftir úrskurðinn er ljóst að Gunnlaugur Pétursson getur það ekki. Það er athyglisvert þar sem hann hefur verður mjög virkur í andstöðu við Teigsskógsleiða alveg frá upphafi. Þá segir framkvæmdastjóri Landverndar í samtali við Bæjarins besta á fimmtudagskvöldið að líklega séu lagaleg úrræði Landverndar tæmd. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær tekur  hún fastar til orða og segir að dómstólaleiðin sé lokuð fyrir umhverfisverndarsamtök. „Þannig að sú leið er alla vega lokuð fyrir okkur.“

Sé þetta raunin á það einnig við um Náttúruverndarsamtök Íslands, og Fuglaverndarfélag Íslands. Það breytir málinu töluvert ef þessi samtök geta ekki frekar tafið framgang málsins.

Þá stendur eftir að það eru einungis landeigendur sem geta kært framkvæmdaleyfið til dómstóla. Landeigendur eru reyndar ekki bundnið við að kæra framkvæmdaleyfið, þeir gætu valið að verjast eignarnámi fyrir dómstólum.

Eftir sem næst verður komist eru það aðeins eigendur að tveimur jörðum sem standa gegn vegaframkvæmdinni, Gröf og Hallsteinsnesi. Samningar hafa náðst eða samningavirðræður eru í gangi við eigendur að öðrum jörðum sem þarf að fara um.

Þessi staða er ekkert of góð fyrir þá sem standa gegn Þ-H leiðinni. Fyrirsjáanlegt er að Vegagerðin fái samþykkta heimild til eignarnáms og ef ekki nást samningar um verð munu matsmenn skera úr um það.

Almannaviljinn er ljós í málinu með afstöðu Alþingis og sveitarstjórnar og vandséð að hægt sé að stöðva framgang hans. Eina sem landeigendur geta haft áhrif á er hversu mikið Vegagerðin þarf að greiða fyrir landið.  Niðurstaðan er þá: hve mikið en ekki hvort.

-k