Stjórn Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði hefur ákveðið að fresta Flæðareyrarhátíðinni til næsta árs. Hátíðin átti að fara fram í sumar en vegna korónafaraldursins varð að grípa til þessa ráðs. Verður því næsta hátíð fyrstu helgina í júlí 2021.
Flæðareyri stendur við Lónafjörð í Jökulfjörðum fyrir opnum Hrafnfirði og þar reisti Ungmennafélagið Glaður í Grunnavíkurhreppi samkomuhús upp úr 1930. Átthagafélagið á Ísafirði hefur haldið húsinu við af miklum myndarbrag. Fjórða hvert ár er haldin átthagamót Grunnvíkinga að Flæðareyri. Fyrsta mótið var haldið 1969 og fyrstu skiptin var það á þriggja ára fresti en síðan var því breytt. Hafa alls verið haldnar þrettán hátíðir eftir því sem næst verður komist. Mikill fjöldi sækir hátíðina hvert sinn og skipir fjöldi þátttakenda hundruðum.
Aðalfundur Grunnvíkingafélagsins á Ísafirði var haldinn í gærkvöldi. Þar kom fram að starf félagsins var með ágætum á síðasta starfsári. Helstu viðburðir voru haustsúpan sem var haldin 5.október í Sigurðarbúð á Ísafirði og var mæting með ágætum eða um 50 manns.
Aðventudagurinn sem var annan sunnudag í jólaföstu var einnig mjög vel sóttur um 60 manns mættu. Loks má nefna þorrablótið. Það var haldið 8.febrúar í ár með Sléttuhreppingum og um 200 manns mættu á blótið.
Félagið á sumarhús í Borgarfirði, sem heitir Höfði og leigir það út. Grunnvíkingabókin er til sölu hjá félaginu og er verðið 5000 kr. fyrir þessar tvær veglegu bækur og er alveg upplagt að kaupa hana til gjafa.