Raggagarður – vinnudagur á morgun 22. júní 2019

Það hefur verið hefð í Raggagarði í Súðavík frá því árið 2004 að halda einn vinnudag heimamanna ár hvert.  Þá geta þeir sem áhuga hafa á að hjálpa til í garðinum komið og unnið í 2 til 3 tíma við að mála pússa og ýmislegt sem þarf að laga og bæta.  Fólk hefur iðulega komið með nesti með sér í garðinn og garðurinn býður upp á heitt kaffi eftir vinnuna og allir drekka kaffi saman og eiga notalega samverustund.

Vilborg Arnarsdóttir sagði samtali við Bæjarins besta að áhugasömum Vestfirðingum væri boðið að vera með á vinnudegi laugardaginn 22 júní frá kl:10.00 til 12.00.  Til stendur að klippa runnan ofan við efra svæðið og orkulundinn að hluta.  Smá málningarvinna og fara með sandpappír á þá bekki sem þurfa smá yfirhalningu.

„Þeir sem hafa áhuga á að klippa með okkur runnana og eiga klyppur mættu hafa þær með sér.  Gámaþjónusta Vestfjarða styrkti okkur um opin gám til að henda trjágróðurinn í. Það styttist í að Borgarverk leggi klæðningu upp götuna frá Ask og Emblu og upp götuna að skiltum.  Á næsta ári ætlar Hlaðbær Colas að malbika bílastæðið ofan við garðinn“ segir Vilborg.

Allir eru hjartanlega velkomnir í Raggagarð næstkomandi laugardag og kíkja á nýju leiktækin og hafa gaman saman.

Vilborg hefur undanfarnar vikur unnið í garðinum ásamt öflugu liði velunnara garðsins. Hún segir að leikjasvæði Raggagarðs verði orðið klárt fyrir fjölskyldufólk á laugardag 22 júní og fólki óhætt að mæta í garðinn.  Aðeins á eftir að setja sand utan við nýju róluna og verður eflaust gert á virkum degi. Nú verða bara smíðavinna á Boggutúni út næstu viku að mestu en smá vélavinna á sunnudeginum.

Mikið verður um að vera í næstu viku.Dagskrá næstu daga eru eftirfarandi:

Föstudaginn 21 júní: Vinnuskóli Ísafjarðabæjar mætir í vinnu og fær fræðslu um garðinn og lífið.
Laugardagur 22.júní: Vinnudagur heimamanna / Vestfirðinga frá kl:10.00 til 12.30.
Sunnudagur 23 júní: Setja niður hinn helminginn af rekaviðarskóginum og klára það
Mánudagur 24 júní.  Vinnuskóli Bolungarvíkur
Þriðjudagur 25. júní Raggagarðsfólkið gengur frá malarsvæði Rekaviðarskóg og fleira.
Miðvikudagur 26 júní. Vinnuskóli Súðavíkurhrepps klára hreinsun trjábeða og leikjasvæða.

DEILA