Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir VerkVest verði áfram með samningsumboð sitt hjá Landssambandi verslunarmanna, Starfsgreinasambandinu og Samiðn. Vestfirðingarnir fylgja því ekki VR, Verkalýðsfélagi Akraness og Eflingu sem hafa myndað eigið bandalag og munu, væntanlega í dag, vísa kjarasamningagerðinni til Ríkissáttasemjara. Miðað við yfirlýsingar forystumanna þeirra félaga er tilgangurinn að færast nær verkfallsvopninu.
Finnbogi segir að það sé markmið þeirra sem eftir eru í samflotinu að gera kjarasamning, en ekki að fara í verkfall. Slíkar ákvarðanir sé ekki tímabært að taka og til verkfallsvopnsins er ekki gripið fyrr en í lengstu lög. „Við áttum síðast í gær góðan fund með Samtökum atvinnulífsins og nú verður gert hlé á fundum fram yfir áramót. Næsti fundur verður 4. janúar. Við höfum hafnað kröfum SA um breytingu á vinnutíma, en höldum áfram að ræða saman og reyna að ná niðurstöðu.“ segir Finnbogi Sveinbjörnsson. Fram kom hjá Finnboga að meðan deilunni er ekki vísað til Ríkissáttasemjara geta aðilar ræðst við hvenær sem er, telji þeir það rétt, en eftir að Ríkissáttasemjar hefur fengið deiluna til sín ræður hann öllum fundahöldum, sem eru formleg og bókuð.