Reykhólahreppur: fundur eftir tæpan mánuð

Ingimar Ingimarsson, oddviti.

Leitað hefur verið eftir viðbrögðum Reykhólahrepps við skýrslu Vegagerðar ríkisins um vegagerð frá Melanesi til Berufjarðarbotns. Þau eru nokkuð misvísandi.

Vegagerðin bar saman þrjá kosti, A3 leið sem er aðeins breytt útfærsla af R leið norsku verkfræðistofnunnar Multiconsult, Þ-H leið og breytt jarðgangaleið í gegnum Hjallaháls, svokallaða D2 útfærslu þar sem farið er með jarðgöngin upp í hálsinn til þess að stytta þau. Álit Vegagerðarinnar er afgerandi og telur stofnunin að Þ-H leiðin sé best, öruggust og ódýrust.  Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti 8. mars á þessu ári að fara Þ-H leiðina en frestaði svo málinu eftir fjárframlög frá stjórnarformanni IKEA og fékk Multiconsult til þess að gera úttekt. Norðmennirnir bentu á tvær leiðir R leiðina og D2. Báðar þessar leiðir fá afleita einkunn í skýrslu Vegagerðarinnar.

Rýna skýrsluna í einhverja daga

Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri segir í svari við fyrirspurn bb.is að það þurfi „að rýna skýrsluna betur áður en við hröpum að niðurstöðu. Það mun taka einhverja daga með hinum ýmsu sérfræðingum.“

Fundur eftir mánuð

Ingimar Ingimarsson, oddviti segir hins vegar í Morgunblaðinu í dag að málið verði ekki tekið fyrir formlega í sveitarstjórn fyrr en eftir tæpan mánuð. Í millitíðinni segist hann vonast til að Vegagerðin kynni skýrslu sína og að efnt verði til íbúafundar. Ennfremur kemur fram að sveitarstjórnin muni óformlega hittast í dag og að ætlunin sé að fá sérfræðinga til skrafs og ráðagerða. Haft er eftir Ingimar í Morgunblaðinu að Vegagerðin vilji Þ-H leiðina og því hafi niðurstaða þeirra nú verið viðbúin. Sjálfur hafi hann talað fyrir R leiðinni.

 

Ummæli oddvita við þingmenn

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. segir í svari sínu til bb.is að oddvitinn Ingimar Ingimarsson hafi sagt „að ef Vegagerðin kæmist að þeirri niðurstöðu að hún (R leiðin) væri miklu dýrari og óraunhæfari kostur þá myndi þeir halda áfram með Þ-H leiðina.“ Samkvæmt þessu  virðist sem þingmenn hafi fengið skýr svör frá oddvita Reykhólahrepps við því hvert yrði framhald málsins eftir að skýrsla Vegagerðarinnar liggur fyrir.

DEILA