Hugur í Í-listafólki

Það var hugur í fólki á opnun kosningaskrifstofu Í-listans í gær á baráttudegi verkalýðsins. Á annað hundrað manns létu sjá sig og þáðu fiskisúpu og nutu ljúfra tóna Villi Valla, Baldurs Geirmunds og Magnúsar Reynis. Í kosningunum í lok mánaðarins býður Í-listinn fram í fjórða sinn, en framboðið er samflot flokka frá miðju og út á vinstri kantinn. Stuttar tölur voru fluttar á opnun kosningaskrifstofunnar. Kynntir voru til leiks nýir frambjóðendur sem sitja ofarlega á listanum, þeir Aron Guðmundsson (2. sæti) og Þórir Guðmundsson (5. sæti).

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar er eins og fyrr bæjarstjórnaefni Í-listans og fór hann lauslega yfir kjörtímabilið, hvað hafi áunnist og hvar þurfi að sækja fram. Nefndi hann sérstaklega að leiksskólamál verði í forgrunni Í-listans á næsta kjörtímabili og að brúa þurfi bilið frá fæðingarorlofi og fram að leikskóla.

Í-listinn býður fram undir slagorðinu Áfram uppbygging og vísar þar í viðsnúning sveitarfélagsins á kjörtímabilinu og aukinn kraft sem svo sannarlega má finna í samfélaginu.

Kosningaskrifstofan, sem er til húsa í Mjallargötu 1 á Ísafirði, verður með fasta opnunartíma frá og með næstu viku og bæjarfulltrúar – núverandi og tilvonandi – verða þar til skrafs og ráðagerða auk annarra viðburða tengda kosningunum.

Margrét Lilja

milla@bb.is