Ungar konur ráða byggð

Ungar konur eru lykillinn að blómlegri byggð, það er náttúrulögmál. Þar sem ungar konur velja sér að búa og eiga börnin sín, þar dafnar lífið, svo einfalt er það. Því ætti að vera kappsmál að hvetja ungar konur til þess að gefa sig að stefnumótun vítt og breitt í samfélaginu. Enda vita ungar konur manna best hvað þarf til að skapa frjósaman jarðveg fyrir ungt fólk og skapandi framtíð á landinu okkar góða.

Grunnþarfirnar

Frumskilyrði á borð við mæðravernd, fæðingarhjálp og umönnun barna er augljós byrjun. Í því felst grundvallaröryggi og þó svo foreldrar í dag hjálpist að heima fyrir og vinni báðir úti, þá munu konur alltaf leita þangað sem þær finna til öryggis með eigið líf og barna sinna.

Fjölbreytt framboð starfa til að afla sér lífsviðurværis og um leið njóta starfsævinnar á eigin forsendum og í takt við eigin löngun og áhuga, er annað meginverkefni. Hér þarf að gera meira en bara „skaffa kvennastörf“, enda afleitt að framtíðaruppbygging atvinnulífs sé gerð á forsendum kynjaskipts vinnumarkaðar. Konur eru duglegar við að afla sér menntunar og verðmætasköpun framtíðarinnar mun í síauknum mæli byggja á sterkum innviðum til að styðja við eigið frumkvæði. Framtíðin mun síður þurfa að reiða sig á staðbundin náttúrugæði, en þeim mun frekar á góðar tengingar við umheiminn. Hugvit er nefnilega hreyfanleg auðlind sem nýta má hvar og hvenær sem er og ólíkt öðrum náttúruauðlindum þá vex það þegar af er tekið. Aðstæður til að nýta eigin þekkingu og hugvit eru þannig leiðin að skapandi framtíð.

Búsetukostir

Húsnæði er frumþörf sem þarf að vera til staðar til að ungt fólk sjái sér framtíð í að stofna heimili. Við ættum að horfa til nágrannalandanna, t.d. Noregs, varðandi húsnæðisuppbyggingu í vaxandi byggðum. Það er vissulega gott að ríki og sveitarfélög skuli nú leggja til stofnframlög til nýbygginga og uppbyggingar á leiguhúsnæði, en því miður skilar það sér ekki með nógu öflugum hætti út fyrir höfuðborgarsvæðið. Nægir þar að nefna að Bjarg íbúðafélag ASÍ kemur ekki að verkefnum á landsbyggðinni. Bein ívilnun þolinmóðra fjárfesta til svæða sem þurfa mjög á húsnæði að halda til að styðja við atvinnuuppbyggingu ætti að vera algjört forgangsmál. Það húsnæði má ekki kalla á þunga fjárfestingu af hálfu unga fólksins, eða langtímabindingu á formi húsnæðiseignar, enda getur söluvænleiki húseigna sett stórt strik í reikninginn þegar ungt fólk veltir því fyrir sér að freista gæfunnar úti á landi. Hér þarf sértæka nálgun sem byggir undir vöxt bæjarfélaga og uppbyggingu sem helst í hendur við breytingar í atvinnulífinu.

Ungar konur eiga og þurfa að koma að ákvarðanatöku á öllum stigum þjóðlífsins. Þær eru lykillinn að framtíð lands og bæja. Hlustum á þær og kjósum þær á þing, við munum ekki sjá eftir því.

Höfundar skipa 3 efstu sæti Bjartrar framtíðar í Norðvesturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2017

Guðlaug Kristjánsdóttir, Kristín Sigurgeirsdóttir, Elín Matthildur Kristinsdóttir

DEILA