Manstu Sumargleðina?

Toppurinn á sumartilveru æsku minnar á Bíldudal var einkum tvennt. Fótbolti og Sumargleðin. Um leið og skóla sleppti tóku við knattleikir við nágrannaþorpin. Stundum var farið svo langt sem til Bolungarvíkur og einu sinni alla leið í höfuðborgina. Margir voru knattleikirnir en það var bara ein Sumargleði og hún kom bara einu sinni á sumri í æskuþorpið. Sem betur fer hitti það aldrei á knattleik okkar. Svo skemmtilega vill til að Sumargleðin var einmitt stofnuð árið sem ég fæddist, 1971. Reyndar man ég ósköp lítið eftir því svo ég vitna bara í frænda minn Ragga Bjarna sem var einmitt stofnandi og aðalsprauta Sumargleðinnar: „Upphaflega komu skemmtanirnar þannig til að ég var að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn á svokölluðum héraðsmótum með Svavari Gests. Þar skemmtum við á milli ræða og lékum svo fyrir dansleik á eftir og gafst þetta vel. Þegar Svavar hætti, tók ég við hljómsveitinni og þegar héraðsmótin voru aflögð ákvað ég að halda áfram með skemmtanir í þessum dúr.“ Þannig rifjaði Raggi þetta upp í viðtali við Moggann árið 1994 þegar Sumargleðin kom saman að nýju og þá á Hótel Íslandi.

Frá 1971 og allt til 1986 fór Sumargleðin um landsbyggðina og skemmti landanum. Ekki bara þeim fullorðnu heldur ekki síður börnum, því þau tóku daginn í þetta. Skemmtu púkunum á daginn og þeim eldri á kveldin og svo var haldið áfram inní rauða nóttina með ósviknu sveitaballi. Dansað uppá borðum og allt. Án efa hefur þá hinn eini sanni Ómar Ragnarsson, er starfaði í Sumargleðinni öll árin utan eins, tekið slagarann Sveitaball með bravúr og tjúttað á sviði, gólfi og endað uppá borði. Ómar er ör og átti stóran þátt í Sumargleðinni, var í raun hægri hönd Ragga. Þá meina ég ekki þeirri hangandi enda gerir Ómar ekkert með hangandi hendi. Svona rifjaði Raggi þetta upp í áðurnefndu Moggaspjalli.

„Það var mikill söngur í þessu og við vorum með allt efni frumsamið. Ómar bjó t.d. til mikið af textum. Ég bjó til grind af dagskránni og svo unnum við þetta í sameiningu. Við spiluðum bingó þar sem bíll var í verðlaun, vorum með alls konar uppákomur, getraunir, skemmtiþætti, grínþætti, söng og músík og svo var gífurlegt fjör á ballinu. Við vorum með eftirhermur, notuðum nöfn á fólki úr plássunum og fengum fólkið til að hjálpa okkur en það hafði mjög gaman af því. Við vorum með barnaskemmtanir á sunnudögum og laugardögum og létum krakkana taka mikinn þátt í þeim.“

Sumargleðin var fljótlega svo stór partur af sumri landsbyggðafólks að það stýrði sumarfríum sínum eftir komu þessara fjörkálfa. Auk áðurnefndra má nefna listafólkið Carl Möller, Rúnar Georgsson, Þuríði Sigurðardóttur, Prins póló nei fyrirgefið snöggt Magnús Ólafsson, Hemma Gunn, Erlu Traustadótur og Bessa Bjarnason svo aðeins nokkrir séu nefndir. Það er nú ekkert skrítið að þetta hafi verið gaman og ábyggilega ekki síður gaman hjá listafólkinu sjálfu og er það ekki einmitt lykillinn að gamninu. Þau tóku sig heldur ekkert of alvarlega voru ekki popparar heldur kannski frekar flipparar. Eða með orðum Ragga. „Svo skipti líka miklu máli hvað við höfðum rosalega gaman af þessu sjálfir. Við hlóum mikið og tókum þetta aldrei neitt voðalega alvarlega.“  Enda gekk sú saga í bransanum að það væri nú fátt gert á þessum Sumargleðisæfingum nema hlæja.

Vel man ég þegar Sumargleðin kom á Bíldudal. Rosalega höfðum við krakkarnir gaman og víst fengum við að taka virkan þátt í skemmtuninni. Það var alltaf stappfullt félagsheimili og orkan í salnum áður en tjaldið var dregið frá einsog í alvöru kabojamynd. Þakið var nærri farið af kofanum. En um leið og ljósin voru dempuð í leikhúsinu á Bíldudal varð þögnin í áhorfendasalnum líkt og hjá látbragðsleikara. Samt var engin af okkur púkunum á rídalíni. Svo byrjaði fjörið. Bessi, uppáhaldsleikarinn minn, kom inn í sjálfan áhorfendasalinn klæddur í búðarslopp einsog var móðins á kjöbúðaárunum, vopnaður brúnum sópi. Þögnin breyttist í hlátur, skellihlátur. Samt gerði hann eiginlega ekkert. Jú, reyndar setti hann upp þennan fyndna Bessa munnsvip, einhverskonar stút. Sem er þó alveg vonlaust að herma eftir, meira að segja munnleikarinn Jim Carey gæti ekki sett upp Bessa stútinn. Næst setti Bessi aðra höndina á aðra mjöðmina og þá veltumst við um af hlátri. Og svo þegar hann loks byrjaði að sópa gólfið þá grétum við að hlátri. Ekki minkaði það þegar hann fékk Atla Kristbergs leikfélaga minn með í leikinn. Það var einsog þeir höfðu æft þetta atriði í langan tíma því Atli var bara ógeðslega fyndin þarna á staðnum. Gott ef hann gaf okkur púkunum ekki eiginhandaráritun að skemmtun lokinni, allavega mér. Ég verð að viðurkenna að þetta sóparaatriði Bessa er samt eina atriðið sem ég man eftir hjá Sumargleðinni af öllum þeim nærri tíu skemmtunum á jafnmörgum sumrum á Bíldudal.

Það er gott að muna þá gömlu góðu daga þegar Sumargleðin fór um land. Það er nefnilega svo holt að brosa hvað þá að hlæja.

Elfar Logi Hannesson

Stuðmyndband með Sumargleðinni

https://www.youtube.com/watch?v=I99Gyy0jbjg