Teitur Björn: skoðum fyrst öryggi íbúanna

Teitur Björn Einarsson, formaður starfshóps þriggja ráðherra segir að fyrst verði skoðuð atriði sem lúta að öryggi íbúanna, svo sem snjóflóðavarnir og aðrir slíkir þættir.

Í gær var skýrt frá því að forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefðu skipað starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar snjóflóðsins þann 14. janúar sl. Verkefni starfshópsins er að kanna leiðir til að byggja upp traust íbúa Flateyrar á samfélagslegum innviðum og gera tillögur um aðgerðir sem treyst geta stoðir byggðarinnar.

Starfshópurinn er þannig skipaður:
Teitur Björn Einarsson, lögmaður, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðherra, formaður
Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra
Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Steinunn Guðný Einarsdóttir, varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum fyrir 1. mars 2020.

Teitur Björn sagði að starfshópurinn hefði þegar hafið störf í gær. Sem fyrr sagði eru öryggisatriði það fyrsta sem nefndin skoðar. Næst verður litið til atvinnumála. „Höfnin varð fyrir miklu tjóni og atvinnulífið varð fyrir gríðarlegum skakkaföllum. Það verður horft til þess að endurreisa það sem varð fyrir tjóni“ sagði Teitur Björn Einarsson í samtali við Bæjarins besta.  Hann bætti því við að fleiri stoðir voæru undir atvinnulífinu og nefndi ar til m.a. Lýðskólann og ferðaþjónustu.

Í þriðja lagi verður að sögn Teits Björns horft til samfélagslegra innviða. Hann segir að það hafi breyst forsendur  fyrir varnarmannvirkjunum og að bregðast þurfi við því.