Hafnabótasjóður: 700 milljónir króna til Vestfjarða

Frá Bíludalshöfn.

Í tillögu að fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 24 sem lögð hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að Hafnabótasjóður styrki átta framkvæmdir á Vestfjörðum um 698 milljónir króna. Framkvæmdakostnaðurinn er samtals 1.318 milljónir króna. Hlutur Hafnabótasjóðs er ýmist 60% eða 75% af framkvæmdakostnaði.

Tvær framkvæmdanna eru á Bíldudal.  Tenging stórskipakants og hafskipakants (stálþil 57 m, dýpi 8 m) er á áætlun 2020 og 2021. Kostnaðurinn er 128 milljónir króna og greiðir Hafnabótasjóður 62 milljónir króna. Þegar er byrjað á verkinu og tilfallinn kostnaður er 41 milljón króna sem er til viðbótar.

Annað verk á Bíldudal er  endurbygging hafskipabryggju (stálþil 99 m, 50 m dýpi 5m, 49 m dýpi 8 m). Lokið er framkvæmdum fyrir 126 milljónir króna og unnið verður 92 milljónir króna á næsta ári og á árinu 2021. Þarf af greiðir Hafnabótasjóður 55 milljónir króna.

Þriðja verkið í Vesturbyggð er smábátaaðstaða norðan við höfnina á Brjánslæk, 140 m hafnargarður og færsla flotbryggju. Kostnaður er 64 milljónir króna og áætlað er að vinna verkið á árunum 2022 og 2023. Hlutur Hafnabótasjóðs verður 34 milljónir króna.

Tvö verk eru á Ísafirði.  Sundabakki, nýr kantur (stálþil 150 m, dýpi 10 m) kostar 423 milljónir króna. Unnið verður 2021-23. Hafnabótasjóður greiðir 205 milljónir króna. Hitt verkið á Ísafirði er  Dýpkun (9 m dýpi, 225.000 m³) og kostar 196 milljónir króna. Þar af greiðir Hafnabótasjóður 95 milljónir króna. Verktími er 2021 og 2022.

Á Þingeyri er endurbygging innri hafnagarðs 1. áfangi 115 m, dýpi 5-7 m á dagskrá 2023-24. Kostnaðurinn er 140 milljónir króna og 85 milljónir króna koma frá Hafnabótasjóði.

Í Bolungavík eru tvö verk sem Hafnabótasjóður styrkir. Grundargarður sandfangari og endurbygging (12.500 m3) verður unnið 2021 og kostar 36 milljónir króna. Þar af greiðir Hafnabótasjóður 17 milljónir króna. Endurbygging Lækjarbryggju er framundan. Það er  endurbygging trébryggju 112 m, dýpi 5 m. Kostnaður er áætlaður 239 milljónir króna og styrkur hafnabótasjóðs er 145 milljónir króna.

DEILA