Allar raddir þurfa að heyrast

Steinunn Guðný Einarsdóttir.

Hjartað mitt slær á Flateyri og þar af leiðandi fyrir Ísafjarðarbæ. Ég finn bjartsýni og jákvæðni alls staðar í sveitarfélaginu og það fyllir mann orku og von um bjarta tíma hér. Við búum í sameinuðu sveitarfélagi Ísafjarðar, Hnífsdals, Þingeyrar, Flateyrar og Suðureyrar þar sem við höfum fallega byggðakjarna og sveitir, sem allar hafa sinn sjarma og sína kosti. Raddir allra kjarna þurfa að fá að heyrast og hlusta þarf vel á þær allar, við erum ein heild og þurfum að vinna sem slík.

Fólk spyr mig: „Af hverju viltu búa fyrir vestan?“ Svarið er einfalt. Það er hafið, fjöllin og fólkið, tækifærin og allt þar á milli. Ég vil sjálf búa og ala börnin mín upp þar sem jákvæðni, samstaða og bjartsýnin er alls ráðandi. Fyrir mér eru það forréttindi að búa hér.

Á undanförnum dögum höfum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins heimsótt fyrirtæki á svæðinu og íbúa. Það er frábært að sjá hvað íbúar eru skapandi og öflugir við að koma sínum verkefnum áfram. Það er ekki bara náttúran og umhverfið sem heillar hér heldur allur þessi mannauður sem við eigum. Alls staðar eru tækifæri og íbúar eru duglegir að nýta þau allt frá saltvinnslu, fiskibollum og upp í Lýðháskóla. Oft koma nefninlega bestu hugmyndirnar frá íbúum sem sjá tækifæri á hverju strái, íbúum sem þekkja sitt umhverfi vel. Við þurfum að styðja við bakið á þeim og hvetja íbúa áfram.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, í hvaða mynd sem hún kemur til með að vera, á að hafa það sem aðalmarkmiði að vinna vel fyrir samfélagið sitt. Fólk er ekki alltaf sammála og það er allt í lagi. Við verðum að virða skoðanir hvers annars, hversu ólíkar sem þær kunna að vera en fyrst og fremst þurfum við að hlusta á fólkið, íbúana sem gera samfélagið okkar að því sem það er. Bæjarstjórn er kjörin til að vinna af heilum hug fyrir íbúa sveitarfélagsins og það á alltaf að vera okkur efst í huga. Falleg loforð hljóma vel rétt fyrir kosningar, en það eru verkin sem tala. Bæjarstjórn þarf að hlusta á raddir allra íbúa allt árið.

Ég býð mig fram í 5. sæti fyrir Sjálfstæðisflokkinn því ég vil vinna af heilindum fyrir Ísafjarðarbæ. Ég vil grípa tækifærin, taka þátt í uppbyggingu og gera samfélagið okkar betra.

Steinunn Guðný Einarsdóttir

5. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins

DEILA