Miðvikudagur 21. maí 2025
Heim Blogg Síða 482

Tónlistarfélag Ísafjarðar auglýsir styrki til tónleikahalds í Hömrum

ónlistarfélag Ísafjarðar auglýsir styrki til tónleikahalds í Hömrum veturinn 2023-2024. Veittir verða styrkir til tónlistarmanna og/eða tónlistarhópa. Umsóknarfrestur er til 20. nóvember 2023. Nánari upplýsingar á duik@simnet.is og tonis@tonis.is

Hamrar – tónlistar- og ráðstefnusalur

Salurinn tekur 100-150 manns í sæti. Í honum er svið og góð baksviðsaðstaða. Í Hömrum eru tveir flyglar og fjölmargir tónleikar haldnir, bæði á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar, Tónlistarfélags Ísafjarðar og ýmissa annarra aðila. Þar hafa einnig verið haldnar leiksýningar, afmælis- og brúðkaupsveislur, námskeið, fundir og ráðstefnur af ýmsu tagi. Í salnum er mjög góður hljómburður.

Tónlistarfélag Ísafjarðar

Tónlistarfélagið hefur það að markmiði er að efla tónlistarstarfsemi og tónlistaráhuga í Ísafjarðarbæ og eiga samvinnu við tónlistarfólk.
 Helstu verkefni félagsins eru umfangsmikið tónleikahald og húsnæðismál Tónlistarskólans.
 Haldnir eru fernir áskriftartónleikar á hverju starfsári félagsins, en einnig stendur félagið fyrir ýmsum öðrum tónleikum, oft í samvinnu við aðra. Félagið aðstoðar einnig með ýmsum hætti listamenn sem vilja halda tónleika hér vestra á eigin vegum. 
Stofnfundur Tónlistarfélags Ísafjarðar var haldinn 20. maí 1948 að heimili Jónasar Tómassonar, bóksala, organista og tónskálds.

Tónlistarskóli Ísafjarðar

Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn af elstu tónlistarskólum landsins. Hann var stofnaður árið 1948 að tilhlutan Tónlistarfélags Ísafjarðar og þó einkum fyrir frumkvæði Jónasar Tómassonar, tónskálds, organista og bóksala á Ísafirði. Áður hafði Jónas stofnað tónlistarskóla haustið 1911, sem mun hafa verið fyrsti tónlistarskóli landsins, en sá skóli hætti störfum vorið 1918 eftir frostaveturinn mikla.
Markmið Tónlistarskóla Ísafjarðar er að veita almenna tónlistarfræðslu, einkum í hljóðfæraleik, og vinna að eflingu tónlistarlífs á Ísafirði með ýmsu móti.

Auglýsing

Minnng: sr. Bernharð Guðmundsson

f. 28. janúar 1937 – d. 1. september 2023.

               Úrför hans fór fram frá Háteigskirkju 15. september 2023.           

Það er með gleði og þökk í huga, sem síra Bernharðar Guðmundssonar er minnst.  Þessi elskulegi og ógleymanlegi kollega, og raunar holli leiðbeinandi, kvaðst gjarnan hafa hlutina á tilfinningunni og hallaði undir flatt til hægri á hraðferð sinni eftir ganginum á Biskupsstofu þegar hún var uppi á 5. hæð hússins nr. 27 við Klapparstíg.  Þá voru starfsmenn tveir auk biskups. Síra Bernhaður var Æskulýðsfultrúi þjóðkirkjunnar, maður nákvæmrar skipulagningar; hafði uppi á vegg hjá sér svonefndan “Sasco Year Planner”, sem var stóreflis dagatal yfirstandandi árs, og mátti skrá þar í rúmgóða reiti þær skyldur,  er framundan voru. 

               Hann var af trúuðu fólki; minntist móðurföður síns,  Bernharðar meðhjálpara á Kirkjubóli í Valþjófsdal,  hvernig hann hefði á hverjum morgni gengið út á hlað, signt sig mót austri og lesið bænavers og Faðirvor.

Þegar  guðfræðingur einn ákvað að vígjast prestur til Bolungarvíkur, sagði síra Bernharður við hann:  “Guð veri með þér, vinur minn, þangað til þú kemur vestur, en þar tekur hann Einar Guðfinnsson við þér.”  

Og þegar menn sögðu, hvað tíðum bar við: “Konan heldur nú, að…” ellegar  “ja, ég var nú að segja við konuna……” þá spurði síra Bernharður, snöggur upp á lagið:  “Heitir hún ekki neitt?” 

Þótt væri í blóma aldurs síns í þennan tíma, hafði síra Bernharður þann sið gamalla manna, að víkja  stöðugt að sama efni, en þó svo sem í framhjáhlaupi.  Á tímabili varð honum þannig af einhverjum ástæðum oftlega minnst á Veðurstofu Íslands, án þess þó að fara nánar út í þá sálma. 

Því heyrðist fleygt, að síra Bernharður hefði notið þess að vera tengdasonur Sigurbjarnar sæla biskups. Sigubjörn nefndi á móti, að tengdasonurinn ætti ekki heldur að gjalda venslanna – og þótti ýmsum laglega svarað.

               Sómaklerkur í Reykjavík lét af störfum fyrir aldurs sakir.  Síra Bernharður hringdi hann upp og sagði honum að taka það ekki nærri sér þótt sími hans þagnaði; nú yrði ekki hringt til hans framar.  Þessu yrði að taka. 

Síra Bernharður tók ungum starfsbræðrum sínum  vara fyrir  prestatóninum, sem hann kallaði svo.   Tæknimenn útvarps og sjónvarps hefðu, sagði hann, orð á því, að klerkar, staddir í hljóðstofu að taka upp vikulega helgistund í sjónvarpi, eða morgun- og kvöldbænir útvarps, kæmu yfirleitt ágætlega fyrir í fyrstunni, virtust þægilegheita menn upp til hópa, áhyggjulausir og spilandi geðþekkir í viðmóti.  En óðara en myndavélinni væri beint að þeim eða þeir byrjuðu að lesa í hljóðnemann, tæki persónan skyndilega algerum og gagntækum breytingum, allt líf hyrfi úr andlistsdráttunum,  framsögnin yrði stirð og uppskrúfuð, undirorpin annarlegum, sönglandi tóni, gjörólíkum venjulegum talanda annarra manna, eða að minnst kosti þeirra, er telja mætti með öllum mjalla.

Vér biðjum Guð um frið yfir legstað þessa góða og skemmtilega drengs, og um blessun yfir endurfundi  hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi.   Vér felum síra Bernharð Guðmundsson orði Guðs náðar.  Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

                                                           Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

Auglýsing

Vestri: mætir Fjölni á miðvikudaginn í umspili Lengjudeildarinnar

Karlalið Vestra í knattspyrnu fær á miðvikudaginn Fjölni úr Grafarvoginum í heimsókn á Olísvöllinn á Ísafirði þar sem liðin keppa um sæti í úrslitaleik Lengjudeildarinnar um sæti í Bestu deildinni á næsta ári. Leiknir verða tveir leikir, á Ísafirði og í Grafarvoginum og sigurvegarinn úr viðureigninni mætir annaðhvort Aftureldingu eða Leikni í Breiðholti í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni.

Síðasta umferð Lengjudeildarinnar var leikin á laugardaginn og Vestri fór til Selfoss og lék við heimamenn. Leikið var við erfiðar aðstæður og auk þess voru Selfossmenn að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Engu að síður fór Vestri með sigur af hólmi 2:1 og Selfoss féll niður um deild.

Davíð Smári Lamunde, þjálfari Vestra sagðist í samtali við Bæjarins besta vera sáttur við leik sinna manna, þeir hefði barist vel í leiknum og uppskorið sigur. „Sigurinn er gott vegarnesti fyrir leikinn á miðvikudaginn“ sagði Davíð Smári.

Eftir rólega byrjun á mótinu hefur gengi Vestra stigið eftir því sem liðið hefur á sumarið og liðið endaði í 4. sæti deildarinnar. „Við erum með besta heimavallaárangurinn í deildinni með 7 sigra, tvö jafntefli og tvö töp. Stuðningur bæjarbúa skiptir alveg gríðarlegu máli. Vestfirðingar hafa verið duglegir að mæta á völlinn og hvetja sína menn.“

Davíð Smári segir í raun alveg sama hvaða liði Vestri hefði mætti í umspilinu. Liðinu hafi gengið vel seinni hluta mótsins og væri að spila vel. Vestri gerði jafntefli við Fjölni í Grafarvoginum fyrr í sumar og vann þá nokkuð örugglega á Ísafirði í síðari leik liðanna. Davíð Smári sagðist fullur tilhlökkunar og sagði Vestra tilbúinn að takast á við Fjölnismenn í síðasta heimaleik sumarsins.

Það verður frítt á völlinn á miðvikudaginn á leikinn sem hefst kl 16:30 og nú er það sem aldrei fyrr: áfram Vestri!

Auglýsing

Bætt kennsla – betri árangur og minni kostnaður við sérkennslu 

Kostnaður samfélagsins vegna sérkennslu í grunnskólum er hár á Íslandi og með því að setja fjármuni í slík úrræði viljum við líklega að nemendur nái betri árangri á sinni skólagöngu. En þegar við skoðum árangurinn þá er staðan því miður sú að nemendur á Íslandi skora ekki hátt í samanburði við önnur lönd og ber þar helst að nefna PISA niðurstöður sem hafa farið niður á við allt frá aldamótum í lesskilningi, stærðfræði og náttúrufræði. Einnig hafa tölur úr framhaldsskólakerfinu bent til þess að brottfall nemenda sé æði mikið í samanburði við önnur lönd. Þetta er staða sem við eigum ekki að sætta okkur við sérstaklega í ljósi þess hve miklum fjármunum við eyrnamerkjum skólakerfinu og sérkennslu í grunnskólum landsins.

En skoðum aðeins stöðuna á Íslandi. 16,2% nemenda í grunnskólum á Íslandi eru með greiningar og þurfa því í mörgum tilfellum á sérkennslu að halda. Hlutfall nemenda sem eru í sérkennsluúrræðum er rúmlega 31% og hefur þessi tala hækkað á undanförnum árum. Ef skoðaðar eru kostnaðartölur þá má áætla að kostnaður sveitarfélaganna vegna sérkennslu sé um 12 milljarðar á ári sem er ansi há tala. Bilið milli nemenda með greiningar og allra nemenda sem þurfa sérkennslu er um 15 prósentustig og ætti því að vera tækifæri til að lækka kostnað upp á vel á annan milljarð króna. Ef við berum okkur saman við Noreg þá eru 8% nemenda þar með greiningar og um 8% nemenda eru í sérkennslu.

En hvað er til ráða? Í nýútkominni skýrslu UNESCO (2023) kemur margt fram sem áhugavert er fyrir okkur Íslendinga að tileinka okkur. Mikilvægi beinnar kennslu með áherslu á markvissa þjálfun og eftirfylgni er að mati UNESCO vænleg leið til árangurs í skólastarfi. Stöðumat og mælingar eru mikilvægar til að nemandinn, foreldrar og kennarar séu meðvitaðir um stöðu nemenda hverju sinni sem gefur tækifæri til að veita nemendum það að fá áskoranir sem hæfa færni þeirra. Þetta eru meginatriði í aðferðafræði Kveikjum neistans sem er þróunarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja sem stýrt er af Rannsóknarsetri um menntun og hugarfar. Í skýrslu UNESCO kemur einnig fram mikilvægi þess að við missum ekki sjónar af mikilvægi þess að kennari sé miðpunktur kennslustofunnar með því að vera í mannlegum samskiptum við nemendur í kennslu sinni. Þetta leiðir hugann að spjaldtölvuvæðingunni sem á sér stað í íslenskum grunnskólum um þessar mundir. Spjaldtölvuvæðingin er mikilvæg en við þurfum að passa upp á að hún yfirtaki ekki kennsluaðferðir á kostnað mannlegs hlutverks kennarans. Kennarinn þarf alltaf að vera sá aðili sem leggur inn kennsluna en tölvur og tæki eru mjög góð áhöld til að efla útkomu nemandans.

Með markvissri þjálfun, eftirfylgni og skýru stöðumati á nemendum teljum við að betri árangur náist sem leiðir til þess að kostnaður við sérkennslu ætti að minnka. Í Kveikjum neistann er hver og einn nemandi mældur og þjálfaður í grunnfærni lestrar og stærðfræði til að árangur náist og að fleiri nemendur nái grunnfærni í skóla sem leiðir af sér færri nemendum sem þurfa á sérkennslu að halda. Nálgun Kveikjum neistans gerir ráð fyrir að skólar og sveitarfélög geti lækkað kostnað sinn við sérkennslu um allt að 10% til 30%. Ef tekst að lækka kostnað um 10% þýðir það 1,2 milljarð á ári en 30% lækkun myndi þýða 3,6 milljarða.

Fyrstu niðustöður rannsóknarhóps Kveikjum neistans gefa góða vísbendingu um að með markvissri þjálfun, eftirfylgni og stöðumati sem byggist á traustum vísindum má efla grunnfærni nemenda og þar með minnka þörf á sérkennslu þegar fram líður á skólagöngu nemendanna. Við lok 2. bekkjar voru 83% nemenda Kveikjum neistans læs (gátu lesið og skilið texta) samkvæmt LÆS prófinu sem er góður árangur. Tæplega 500 nemendur úr öðrum skólum tóku einnig LÆS prófið og var niðurstaða þeirra að 52% nemenda voru læs. Þetta er afgerandi niðurstaða.

Það er til mikils að vinna fyrir samfélagið, bæði fjárhagslega og félagslega, að notast við aðferðir sem bera góðan mælanlegan árangur í skólastarfi og byggja á traustum vísindum. Færni nemenda í grunnþáttum skólastarfs þarf að fá meira vægi í skólakerfinu til að þeir geysimiklu fjármunir sem settir eru í grunnskólakerfið nýtist betur. Á sama tíma er möguleiki á að bæta árangur nemenda. Það kallar maður tvöfalda sigurleið!

Hermundur Sigmundsson, prófessor, Norska tækni – og vísindaháskólanum og Háskóla Íslands

Einar Gunnarsson, aðstoðarskólastjóri, Grunnskóli Vestmannaeyja

Auglýsing

Björgunarsveitin Tindar fá 15 talstöðvar að gjöf

Dagný Finnbjörnsdóttir formaður Hvatar afhendir Atla Jakobssyni formanni Tinda talstöðvarnar.

Á laugardaginn færði kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal björgunarsveitinni Tindum 15 nýjar TETRA talstöðvar að gjöf.

„Stöðvarnar eru gríðarlega mikilvægt öryggisatriði fyrir okkar félaga, nýjar stöðvar koma í stað eldri stöðva sem komnar eru til ára sinna, nýjar stöðvar hafa m.a. lengri rafhlöðu endingu, ná betra sambandi og eru léttari.

Við í björgunarsveitinni er virkilega þakklát með þennan stuðning kvenfélagsins, en þetta er einn stærsti staki styrkur sem Hvatarkonur hafa veitt.“ segir í færslu björgunarsveitarinnar á facebooksíðu sveitarinnar og ennfremur að „kvenfélagið Hvöt hefur alla tíð staðið þétt við bakið á okkur og styrkt okkur rausnarlega i gegnum árin.“

Björgunarsveitin Tindar hélt kvenfélagskonum veglegt kaffiboð í þakklætisskyni.

Auglýsing

Nýr Baldur á leiðinni til landsins

Vegagerðin skrifaði undir kaupsamning við Torghatten Nord um kaup á ferjunni Röst í gær föstudaginn 15. september. Síðdegis var lagt af stað áleiðis til Íslands. Áhöfn frá Torghatten Nord mun sigla ferjunni en um borð verða íslenskir skipstjórnarmenn frá Sæferðum sem munu þá um leið kynna sér skipið. Vegagerðin hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt Sæferðum um að Sæferðir annist siglingar á Breiðafirði með Röstinni, unnið er að samningi milli aðila.

Röstin fer í slipp þegar hún kemur til Íslands hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. í Hafnarfirði í breytingar sem þarf að gera til að skipið geti þjónað siglingum á Breiðafirði. Þessar breytingar fela m.a. í sér að koma fyrir nýjum þilfarskrana, landfestuvindum, færa til lyftibjörgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan. Gert er ráð fyrir að hefja reglubundnar siglingar á Breiðafirði seinni hluta október mánaðar.

Kaupin koma í kjölfar útboðs þar sem einungis fékkst eitt tilboð. Upphaflega stóð til að leggja af ferjusiglingar á Breiðafirði við lok samnings við Sæferðir vorið 2023 en ákveðið var breyta þeirri ákvörðun og halda áfram siglingum í ljósi þess að miklar breytingar hafa orðið á atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum bæði hvað varðar uppbyggingu fiskeldis og ferðaþjónustu.

Gerð var krafa um að  skipið væri  búið tveimur aðalvélum og hefði haffærni fyrir C svæði en siglingaleiðin um Breiðafjörð flokkast sem C svæði.

Ferjan Röst er smíðuð 1991, tekur 250 farþega, rúmar fimm stóra flutningabíla. Í útboði Vegagerðarinnar um rekstur Breiðafjarðarferju 2023-2026 er miðað við að Röst sigli sömu áætlun og Baldur á ferjuleiðinni Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur. Vegagerðin hefur boðið út rekstur ferju á Breiðafirði og er það auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Auglýsing

Selárdalur: göngustígur samþykktur

Teiknað er með gulu stígur frá Brautarholti og niður í fjöru.

Bæjarstjón Vesturbyggðar hefur samþykkt óverulega breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar fyrir Selárdal í Arnarfirði, þar sem bætt er við göngustíg frá Brautarholti niður í fjöru. Grenndarkynning hefur farið fram.

Það var félag um listasafn Samúels sem sótti um heimild fyrir breytingunni. Umsögn Minjastofnunar Íslands liggur fyrir sem gerði ekki athugasemdir við breytingartillöguna. Leiðin verður einungi stikuð og ekki farið út í jarðrask við stígagerðina.

Skipulagsbreytingin verður nú send til Skipulagsstofnunar og auglýsing birt i B-deild Stjórnartíðinda.

Auglýsing

Suðureyri: vilja byggja hús fyrir bátasmiðju

Hugmynd að útliti hússins.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjón að útgerðarfélagið Vonin ehf fái úthlutað lóðunum Stefnisgata 8 og Stefnisgata 10 undir atvinnustarfsemi við bátaviðgerðir. Umsækjandi sækir jafnframt um að sameina lóðirnar tvær.

Áformað er að byggja 300 fermetra hús á lóðunum og starfsemin í húsinu verður trefjaplastverksmiðja, bátasmiðja. Umsækjandi segir að nú þegar sé fyrirtækið með húsnæði á leigu og það helst til lítið. Starfsemin undanfarin ár hefur bara verið sú að gera við báta sem hafa þurft á trefjaplastviðgerðum að halda eða annarri líkri vinnu.

Auglýsing

Ísafjörður: kvartað undan skipsflautum

Viking Sky í Sundahöfn í fyrrasumar.

Sveitarfélaginu og starfsfólki sveitarfélagsins hafa borist nokkrar athugasemdir frá íbúum í
sumar vegna komu skemmtiferðaskipa til bæjarins. Athugasemdirnar hafa borist með
tölvupósti og í skilaboðum og athugasemdum á samfélagsmiðlum.

Upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar lagði fram yfirlit yfir athugasemdirnar á fundi hafnarstjónar í vikunni.

Meðal annars hefur verið kvartað undan skipsflautum, sem oft eru þeyttar í kveðjuskyni þegar skip yfirgefa Ísafjarðarhöfn. Er þetta talið óþarfa áreiti og eingöngu ætti að nota skipsflautur þegar nauðsyn krefur.


Einnig hefur verið kvartað undan því að gestir geri þarfir sínar utandyra, en þessar kvartanir bárust áður en salernisgámur var fenginn á Landsbankaplanið.


Þá hafa verið gerðar athugasemdir við mengun frá skipum þegar þau eru í höfn/á akkeri. Mengunarmælar eru staðsettir á tveimur stöðum í Skutulsfirði, í miðbænum og í Holtahverfi.


Svæði meðfram smábátahöfn, frá gatnamótum við Mjósund að Mávagarði, sem sérmerkt var fyrir gangandi var ítrekað notað sem bílastæði, sömu bílar stóðu þar jafnvel dögum saman.

Auglýsing

ÞORSTEINSHÁFUR

Þorsteinsháfur er langvaxinn, grannvaxinn og hálfþrístrendur um bolinn. Hann getur náð 90 cm lengd en heimildir frá Suður – Afríku benda til að allt að 130 cm hámarksstærðar.

Haus er stór og tjóna alllöng, en þó styttri en hálf hauslengdin, flöt og frammjó. Nasir eru mjög framarlega og kjaftvikaskorur eru langar og ná nærri saman fyrir framan kjaftinn. Tennur eru svipaðar og í rauðháfi nema að tennur í efriskolti eru þríyddar. Augu eru í hliðarbrúnum haussins og innstreymisop rétt fyrir aftan þau. Tálknaop eru mjög smá. Bolur er um tvöfalt lengir en hausinn, stirtlan er stutt og sterkleg. Bakuggar eru svipaðir að stærð og lögun. Smár gaddur er upp úr hvorum bakugga. Húðtennur eru skaraðar og þríyddar. Rákin er dauf en óslitin og beygist við sporðinn niður á neðri fön hans.

Þorsteinsháfur er dökk- (rauð) brúnn á lit en uggajaðrar eru hvítbryddir.

Þorsteinsháfur er djúp- og botnfiskur sem veðst hefur á 200-1500 m dýpi. Hér er hann algengastur á 700- 800 m dýpi. Í maílok árið 1999 fengust þrír nýgotnir þorsteinsháfar, 25-27 cm langir, í botnvörpu suðaustur af Kötlugrunni (63°´N, 17°50´V). Hrygnur sem veiðst hafa í byrjun júlí hafa verið með fóstur og ein sem veiddist í febrúar var með þrjú, 6,5-6,7 cm löng, og voru þau með stóran kviðpoka. Í byrjun nóvember árið 2002 veiddist í Skerjadjúpi 83 cm hrygna, alveg komin að goti, með níu unga og var hver 25 cm langur. Þorsteinsháfur gæti því gotið á öllum tímum árs eins og svo margir djúpháfar virðast gera.

Í maga þorsteinsháfs hefur fundist síld, lax, laxsíld, silfurþvari o.fl. fisktegundir en einnig smokkfiskur.

Nytsemi er engin hér en sumstaðar hefur hann verið veiddur í bræðslu.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir