ÞORSTEINSHÁFUR

Þorsteinsháfur er langvaxinn, grannvaxinn og hálfþrístrendur um bolinn. Hann getur náð 90 cm lengd en heimildir frá Suður – Afríku benda til að allt að 130 cm hámarksstærðar.

Haus er stór og tjóna alllöng, en þó styttri en hálf hauslengdin, flöt og frammjó. Nasir eru mjög framarlega og kjaftvikaskorur eru langar og ná nærri saman fyrir framan kjaftinn. Tennur eru svipaðar og í rauðháfi nema að tennur í efriskolti eru þríyddar. Augu eru í hliðarbrúnum haussins og innstreymisop rétt fyrir aftan þau. Tálknaop eru mjög smá. Bolur er um tvöfalt lengir en hausinn, stirtlan er stutt og sterkleg. Bakuggar eru svipaðir að stærð og lögun. Smár gaddur er upp úr hvorum bakugga. Húðtennur eru skaraðar og þríyddar. Rákin er dauf en óslitin og beygist við sporðinn niður á neðri fön hans.

Þorsteinsháfur er dökk- (rauð) brúnn á lit en uggajaðrar eru hvítbryddir.

Þorsteinsháfur er djúp- og botnfiskur sem veðst hefur á 200-1500 m dýpi. Hér er hann algengastur á 700- 800 m dýpi. Í maílok árið 1999 fengust þrír nýgotnir þorsteinsháfar, 25-27 cm langir, í botnvörpu suðaustur af Kötlugrunni (63°´N, 17°50´V). Hrygnur sem veiðst hafa í byrjun júlí hafa verið með fóstur og ein sem veiddist í febrúar var með þrjú, 6,5-6,7 cm löng, og voru þau með stóran kviðpoka. Í byrjun nóvember árið 2002 veiddist í Skerjadjúpi 83 cm hrygna, alveg komin að goti, með níu unga og var hver 25 cm langur. Þorsteinsháfur gæti því gotið á öllum tímum árs eins og svo margir djúpháfar virðast gera.

Í maga þorsteinsháfs hefur fundist síld, lax, laxsíld, silfurþvari o.fl. fisktegundir en einnig smokkfiskur.

Nytsemi er engin hér en sumstaðar hefur hann verið veiddur í bræðslu.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

DEILA