Minnng: sr. Bernharð Guðmundsson

f. 28. janúar 1937 – d. 1. september 2023.

               Úrför hans fór fram frá Háteigskirkju 15. september 2023.           

Það er með gleði og þökk í huga, sem síra Bernharðar Guðmundssonar er minnst.  Þessi elskulegi og ógleymanlegi kollega, og raunar holli leiðbeinandi, kvaðst gjarnan hafa hlutina á tilfinningunni og hallaði undir flatt til hægri á hraðferð sinni eftir ganginum á Biskupsstofu þegar hún var uppi á 5. hæð hússins nr. 27 við Klapparstíg.  Þá voru starfsmenn tveir auk biskups. Síra Bernhaður var Æskulýðsfultrúi þjóðkirkjunnar, maður nákvæmrar skipulagningar; hafði uppi á vegg hjá sér svonefndan “Sasco Year Planner”, sem var stóreflis dagatal yfirstandandi árs, og mátti skrá þar í rúmgóða reiti þær skyldur,  er framundan voru. 

               Hann var af trúuðu fólki; minntist móðurföður síns,  Bernharðar meðhjálpara á Kirkjubóli í Valþjófsdal,  hvernig hann hefði á hverjum morgni gengið út á hlað, signt sig mót austri og lesið bænavers og Faðirvor.

Þegar  guðfræðingur einn ákvað að vígjast prestur til Bolungarvíkur, sagði síra Bernharður við hann:  “Guð veri með þér, vinur minn, þangað til þú kemur vestur, en þar tekur hann Einar Guðfinnsson við þér.”  

Og þegar menn sögðu, hvað tíðum bar við: “Konan heldur nú, að…” ellegar  “ja, ég var nú að segja við konuna……” þá spurði síra Bernharður, snöggur upp á lagið:  “Heitir hún ekki neitt?” 

Þótt væri í blóma aldurs síns í þennan tíma, hafði síra Bernharður þann sið gamalla manna, að víkja  stöðugt að sama efni, en þó svo sem í framhjáhlaupi.  Á tímabili varð honum þannig af einhverjum ástæðum oftlega minnst á Veðurstofu Íslands, án þess þó að fara nánar út í þá sálma. 

Því heyrðist fleygt, að síra Bernharður hefði notið þess að vera tengdasonur Sigurbjarnar sæla biskups. Sigubjörn nefndi á móti, að tengdasonurinn ætti ekki heldur að gjalda venslanna – og þótti ýmsum laglega svarað.

               Sómaklerkur í Reykjavík lét af störfum fyrir aldurs sakir.  Síra Bernharður hringdi hann upp og sagði honum að taka það ekki nærri sér þótt sími hans þagnaði; nú yrði ekki hringt til hans framar.  Þessu yrði að taka. 

Síra Bernharður tók ungum starfsbræðrum sínum  vara fyrir  prestatóninum, sem hann kallaði svo.   Tæknimenn útvarps og sjónvarps hefðu, sagði hann, orð á því, að klerkar, staddir í hljóðstofu að taka upp vikulega helgistund í sjónvarpi, eða morgun- og kvöldbænir útvarps, kæmu yfirleitt ágætlega fyrir í fyrstunni, virtust þægilegheita menn upp til hópa, áhyggjulausir og spilandi geðþekkir í viðmóti.  En óðara en myndavélinni væri beint að þeim eða þeir byrjuðu að lesa í hljóðnemann, tæki persónan skyndilega algerum og gagntækum breytingum, allt líf hyrfi úr andlistsdráttunum,  framsögnin yrði stirð og uppskrúfuð, undirorpin annarlegum, sönglandi tóni, gjörólíkum venjulegum talanda annarra manna, eða að minnst kosti þeirra, er telja mætti með öllum mjalla.

Vér biðjum Guð um frið yfir legstað þessa góða og skemmtilega drengs, og um blessun yfir endurfundi  hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi.   Vér felum síra Bernharð Guðmundsson orði Guðs náðar.  Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

                                                           Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA