Nýr Baldur á leiðinni til landsins

Vegagerðin skrifaði undir kaupsamning við Torghatten Nord um kaup á ferjunni Röst í gær föstudaginn 15. september. Síðdegis var lagt af stað áleiðis til Íslands. Áhöfn frá Torghatten Nord mun sigla ferjunni en um borð verða íslenskir skipstjórnarmenn frá Sæferðum sem munu þá um leið kynna sér skipið. Vegagerðin hefur undirritað viljayfirlýsingu ásamt Sæferðum um að Sæferðir annist siglingar á Breiðafirði með Röstinni, unnið er að samningi milli aðila.

Röstin fer í slipp þegar hún kemur til Íslands hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. í Hafnarfirði í breytingar sem þarf að gera til að skipið geti þjónað siglingum á Breiðafirði. Þessar breytingar fela m.a. í sér að koma fyrir nýjum þilfarskrana, landfestuvindum, færa til lyftibjörgunarbáta, útbúa geymslusvæði á þilfari og mála skipið að utan. Gert er ráð fyrir að hefja reglubundnar siglingar á Breiðafirði seinni hluta október mánaðar.

Kaupin koma í kjölfar útboðs þar sem einungis fékkst eitt tilboð. Upphaflega stóð til að leggja af ferjusiglingar á Breiðafirði við lok samnings við Sæferðir vorið 2023 en ákveðið var breyta þeirri ákvörðun og halda áfram siglingum í ljósi þess að miklar breytingar hafa orðið á atvinnustarfsemi á sunnanverðum Vestfjörðum bæði hvað varðar uppbyggingu fiskeldis og ferðaþjónustu.

Gerð var krafa um að  skipið væri  búið tveimur aðalvélum og hefði haffærni fyrir C svæði en siglingaleiðin um Breiðafjörð flokkast sem C svæði.

Ferjan Röst er smíðuð 1991, tekur 250 farþega, rúmar fimm stóra flutningabíla. Í útboði Vegagerðarinnar um rekstur Breiðafjarðarferju 2023-2026 er miðað við að Röst sigli sömu áætlun og Baldur á ferjuleiðinni Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur – Flatey – Stykkishólmur. Vegagerðin hefur boðið út rekstur ferju á Breiðafirði og er það auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

DEILA