Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 23

Loftslagsatlas Íslands

Nýr vefur Veðurstofu Íslands, Loftslagsatlas Íslands er nú aðgengilegur.

Vefurinn veitir innsýn inn í hvernig loftslag á Íslandi getur þróast og breyst til aldamóta og gerir aðgengilegar upplýsingar um þróun loftslagsbreytinga og þýðingu þeirra fyrir nærumhverfi og lífsskilyrði fólks. Það er bæði hluti af því að gæta að aðlögunarhæfni Íslands að loftslagsbreytingum og þáttur í því að efla þekkingu almennings á áhrifum loftslagsbreytinga hér á landi.

Loftslagsatlasinn var ein af fjórum forgangsaðgerðum sem lagðar voru til í skýrslu stýrihóps, loftslagsþolið Ísland, sem fjallaði um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum. Stýrihópurinn taldi Loftslagsatlasinn vera aðgerð sem aukið geti seiglu og samkeppnishæfni Íslands frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Loftslagsatlasinn byggir á sviðsmyndum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda og hafa gögnin sem þar birtast verið endurreiknuð fyrir Ísland og hafið umhverfis það.

Gögnin í Loftslagsatlasinum eru opin og öllum aðgengileg á myndrænu formi í gegnum kortavefsjá, auk þess sem hægt er að hlaða þeim niður á öðrum sniðum. Gögnin er hægt að nýta á ýmsan máta til að meta viðkvæmni samfélaga gagnvart loftslagsbreytingum og mögulegar áhættur sem þeim fylgja. Þar er m.a. hægt að nálgast upplýsingar um hvernig loftslagsbreytingar geti haft áhrif á hitafar, úrkomu og sjávarflóð á Íslandi til loka aldarinnar, miðað við mismunandi sviðsmyndir um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkti gerð atlasins sem er aðgengilegur hér: Loftslagsatlas Veðurstofa Íslands

Auglýsing

Lækkanir á heimsmarkaði skila sér að litlu leyti

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að þrátt fyrir að olíuverð hafi lækkað á heimsmarkaði og bandaríkjadalur veikst hefur það ekki skilað sér nema að litlu leyti út í verðlag á bensíni og dísilolíu hér á landi, en það sem af er þessum mánuði hefur heimsmarkaðsverð á olíu farið, umreiknað í íslenskar krónur, niður um 7-8 krónur á lítrann.

Runólfur segir ennfremur að verðið hér á landi hefur ekki lækkað eins og búast hefði mátt við. Á sama tíma hefur verðið Í Danmörku verðið verið að lækka um 5-6 krónur en um hálfa til eina krónu hér á landi.

Olíufélögin skýla sér á bak við einhverja birgðastöðu eins og alltaf er kyrjað um, en málið er að í svona viðskiptum, þegar vara er seld í miklu magni og hefur verið seld hér áratugum saman, er birgða staðan afskrifuð eins og í venjulegum rekstri. Það á að miða við heimsmarkaðsverð,“ segir Runólfur.

Runólfur nefnir að hagfellt sé fyrir neytendur á suðvesturhorninu að Costco virðist fylgja heimsmarkaðsverði á bensíni og olíu, það sé nær heimsmarkaðsverði í þeim vörutegundum en íslensku olíufélögin og álagning þar sé nær því sem þekkist í nágrannalöndunum.

Auglýsing

Galleri úthverfa: sýningin A. Object

Joe Keys.

19.4 – 8.6 2025

   Linus Lohmann

   Hekla Guðrúnardóttir Kollmar

   Sigurður Atli Sigurðsson

   Ásta Fanney Sigurðardóttir

   Hildigunnur Birgisdóttir

   Emmet Williams

   Ian Hamilton Finlay

   Jonathan Monk

   Magnús Pálsson

   Una Björg Magnúsdóttir

  Sýningarstjóri / Curated by Joe Keys

Laugardaginn 19. apríl næstkomandi kl. 16 opnar sýningin A. Object í Gallerí Úthverfu að viðstöddum sýningarstjóra og nokkrum af listafólkinu sem eiga verk á sýningunni. Í ár eru 40 ár liðin frá því fyrst var opnuð sýning á samtímalist í rýminu við Aðalstræti 22 á Ísafirði. Boðið verður uppá léttar veitingar og spjall.

„Þessi sýning snýst um skáldlega hlutinn og áþreifanlega ljóðið og ferðalagið þar á milli. Pappír kemur mikið við sögu á þessari sýningu, þar sem hann er sérlega hentugt miðlunartæki fyrir ljóðræna framsetningu. Upphafsneistinn að gerð sýningarinnar fólst í að kynna bækur og margfeldi, og það hefur ekki breyst, þó að lúmsk rannsókn á hlutkennd og ljóðrænu hafi síðar tekið yfir þennan upphaflega neista.“ — Joe Keys

Joe Keys (f. 1995, Newcastle, Bretlandi) útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2021. Hann hneigist til að vinna með teikningu, skúlptúr, ljóð og tengsl þeirra á miðla. Teikningarnar  bera oft með sér skúlptúrrými og skúlptúrarnir eru settir upp eins og teikningar. Hann vinnur aðallega með fundið efni og afgangsefni. Síðan hann flutti til Íslands hefur Joe fundið fyrir miklum áhuga á prentuðu efni, listamannabókum og sögu þeirra hér á landi og víðar. Þetta hefur leitt hann útí að standa fyrir sýningum og útbúa fjölda rita um viðburði og uppákomur, svo sem Stations of the Cross, ELSE, George and Tammy, Explanation Park og margt fleira. Joe hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og einkasýninga á Íslandi, Bretlandi, Grikklandi og Finnlandi svo eitthvað sé nefnt.

Sýningin er hluti af dagskrá þar sem haldið verður uppá 40 ár af samtímalist í Gallerí Úthverfu sem áður hýsti Slunkaríki. Aðrar sýningar á árinu eru m.a. sýning finnsku listamannanna Karoliina Hellberg og Josefina Nelimarkka sem opnar 17. júní í tengslum við tónlistarhátíðina ,,Við Djúpið“ og sumarsýning Roni Horn sem opnar 18. júlí. Á sama tíma verður einnig skipulögð sýning Unu B Magnúsdóttur og Loga Gunnarssonar í sal Myndlistarfélagsins á Ísafirði, Slunkaríki, sem nú er hluti af Edinborg menningarmiðstöð.

Afmælisdagskrá ársins lýkur með útgáfu bókar/bæklings þar sem starfsemi Úthverfu og Slunkaríkis undanfarna áratugi verður gerð skil í máli og myndum.

Ian Hamilton Finlay: Sail

Auglýsing

Súðavík: dvalið í húsum á snjóflóðahættusvæði

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að við eftirlit lögreglu i gærkvöldi hafi vaknað grunur um mögulega dvöl fólks í íbúðarhúsum í eldri byggð Súðavíkur, þar sem dvöl er óheimil frá 1. nóvember til og með 30. apríl ár hvert.

Lögregla kannaði málið og fékkst staðfest að fólk héldi til í nokkrum húsanna, sumt með vitneskju um kvöð þá sem bannið byggir á.

Lögreglan segir slíkt verði að teljast ansi bagalegt, ekki síst þar sem ekki er alltaf öruggt að tíðin sé jafn góð og hún hefur verið síðustu vikur. Minnir lögreglan á að slíkar kvaðir eru til staðar víðar á Vestfjörðum en þær eru einmitt settar í þeim tilgangi að tryggja öryggi og auðvelda viðbragð almannavarna.

Bæjarins besta innti lögregluna eftir því hvort hún gæti ekki rýmt viðkomandi íbúðar og fékk þau svör að því miður eru þessar kvaðir sem settar voru á þessi hús, sem keypt voru upp, þannig úr garði gerðar að „við getum ekki beitt valdi eða viðurlögum við að rýma húsin, nema það hafi verið sett á hættu- eða neyðarstig almannavarna. Dagsetningarnar sem fram koma í kvöðunum, um að óheimilt sé að dvelja í þeim, frá 1. nóv. til 1. maí, duga ekki til þess.“

Helgi Jensson, lögreglustjóri segir í svarinu að „Við höfum reynt að ræða við þá sem þarna virðast dvelja, en sumir þeirra hafa áttað sig á stöðunni og vilja ekkert við okkur tala. Engin vöktun veðurstofunnar á svæðinu, vegna þess að þar er óheimilt að vera og þar á enginn að vera og því er hæpið að það verði almennt gefið út almannavarnarstig, vegna svæðisins.

Það er mjög bagalegt fyrir lögregluna að þurfa að eyða tíma sínum á hættutímum í að hafa áhyggjur af þessu svæði, þegar nóg annað er að gera. Siðferðislega, m.t.t. þess sem þarna gerðist og vegna þess að húsin hafa verið bætt, finnst mér þetta líka algerlega óforsvaranlegt.

Við höfum bent á þetta innan stjórnsýslunnar, til að þrýsta á um lagabreytingar, til þess að við getum framfylgt þessum kvöðum, en það gengur hægt.“

Auglýsing

Vestfirðir: vegir færir en stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði

Vegir á Vestfjörðum eru almennt færir en hálka er í Djúpinu. Mjög hvasst er á Steingrímsfjarðarheiði en þar er 18 – 22 m/sek og stórhríð. Mun hægari vindur er á Dynjandisheiði eða um 8 m/sek. Lokað er úr Bjarnarfirði norður í Árneshrepp.

Spáð er að vind lægi með kvöldinu.

Auglýsing

Hvalárvirkjun: ný málaferli

Hvalá. Mynd: Vesturverk.

Fjármálaráðherra f.h. ríkisins hefur höfðað mál fyrir héraðsdómi Vestfjarða og stefnir eiganda jarðarinnar Engjanes í Árneshreppi fyrir réttinn og krefst þess að vatnsréttindi jarðarinnar verði dæmt til ríksins.

Eigandi Engjaness er Felix Von-Longo Liebenstein baron á Ítalíu og Vesturverk hf samdi við hann fyrir nokkrum árum um afnot af vatnsréttindum jarðarinnar vegna Hvalárvirkjunar.

hefur ekki áhrif á Hvalárvirkjun

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindarsviðs hjá HS Orku sagði í samtali við Bæjarins besta að komið hafi í ljós ný skjöl við málarekstur nokkurra eigenda Drangavíkur gegn eiganda Engjaness að þegar ríkið seldi jörðina um miðja síðustu öld hafi það haldið eftir vatnsréttindum. Þeim var hins vegar ekki þinglýst og því virðist ekki hafa verið getið um þetta í síðari samningum um jörðina.

Ásbjörn sagði að þegar þetta hefði komið í ljós hefði verið haft samband við ráðuneytið og fyrir liggur yfirlýsing frá fjármálaráðuneytinu að það muni ganga inn í fyrirliggjandi samning um vatnsréttindin ef ríkinu verða þau dæmd. Dómsmálin muni því ekki hafa áhrif á virkjunaráformin heldur aðeins hver fær greiðslurnar fyrir réttindin.

Auglýsing

Vesturbyggð: bæjarráð fagnar auknu laxeldi og dregur í land með nýtt umhverfismat

Bæjarráð Vesturbyggðar segir í umsögn sinni, sem gerð var í síðustu viku, um 4.500 tonna aukningu laxeldis Arnarlax í Arnarfirði, að það fagni áformum um aukin umsvif sjókvíaeldis í sveitarfélaginu enda sé breytingin innan marka burðarþolsmats Arnarfjarðar og áhættumats erfðablöndunar. Að mati bæjarráðs mun breytingin hafa í för með sér jákvæð áhrif á samfélag og atvinnulíf á svæðinu.
Bæjarráð tekur undir bókun umhverfis og loftlagsráðs en leggur ekki mat á það hvort breytingin kalli á nýtt umhverfismat.

Umhverfis- og loftslagsráð Vesturbyggðar gekk mun lengra í sinni umsögn og sagði að gera þurfi nýtt umhverfismat fyrir aukninguna. Bæjarráðið tekur ekki undir það.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur einnig tekið umsókn Arnarlax fyrir og segir í umsögn nefndarinnar að Ísafjarðarbær geri ekki efnislegar athugasemdir við umhverfismatsskýrsluna að svo stöddu.

Auglýsing

Skotís: Íslandsmeistaratitill í bogfimi

Julia Galinska í Skotíþróttafélagi Ísafjarðar vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í íþróttinni í berboga U16 kvenna á Íslandsmeistaramóti U16 á laugardaginn í Reykjavík.

Julia var í þriðja sæti í undankeppni Íslandsmótsins og mætti því liðsfélaga sínum frá Ísafirði Auði Ölmu Viktorsdóttur í undanúrslitum. Auður var með aðeins hærra skor í undankeppni mótsins en mjög jafnt var á milli þeirra. Julia náði sigrinum í leiknum 7-1 og hélt því áfram í gull úrslitaleikinn. Auður tók á endanum bronsið í flokknum.

Gull úrslitaleikurinn hennar Julia var gegn Eygló Midgley úr BFHH Hafnarfirði. Eygló var með hærra skor í undankeppni mótsins og var talin sigurstranglegri í leiknum, en Julia skaut þrjár ótrúlega góðar lotur og tók sigurinn óvænt en af miklu öryggi 6-0, og með því Íslandsmeistaratitil berboga U16 kvenna og sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil.

Auglýsing

Besta deildin: Vestri byrjar vel

Daði Berg gerir mark Vestra í leiknum. Skjáskot /RUV.

Vestri byrja leiktíðina vel í Bestu deildinni í knattspyrnu karla. Í fyrstu umferð gerði liðið jafntefli við Val á heimavelli þeirra, Hlíðarenda, sem var þvert á spár. Í gær kom FH frá Hafnarfirði í heimsókn á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði og máttu reyna það að komast ekkert áleiðis gegn velskipulögðu liði heimamanna.

Vestri fór með sigur af hólmi með góðu marki Daða Bergs Jónssonar í fyrri hálfleik. FH reyndi að jafna leikinn í seinni hálfleik en þeim gekk illa að skapa sér færi og ógnuðu varla marki heimamanna. Varnarleikur Vestra var öflugur og sigurinn verður að teljast sanngjarn.

Eftir tvær umferðir af 22 er Vestri með fjögur stig og meðal efstu liða í deildinni. Byrjunin á mótinu lofar góðu fyrir Vestra og enn sem komið er gefur hún hrakspám sérfræðinga um fall úr deildinni í mótslok langt nef.

Auglýsing

Óstjórn eða skipulögð óreiða ?

Ekkert lát er á hryllingnum á Gasa og þjóðarleiðtogar heims kreista bara aftur augun og vona að brjálæðið taki senn enda – þögn þeirra er ærandi og aðgerðarleysi þeirra hin mesta smán.

Hér er um skipulagða útrýmingu að ræða – ískalt miskunarleysi sem varla hefur sést síðan indíánum var slátrað á bernskudögum Bandaríkjanna eða þegar Nasistar voru að samla saman „óæskilegu“ fólki í gasklefana.

Á Rússland voru settar hömlur eftir innrás þeirra í Úkraínu eins og viðskiptaþvingannir og þeim meinuð þátttaka í alþjóðlegum viðburðum á sviði íþrótta og lista. Allt annað er upp á teningnum hvað varðar Ísrael þó helst virðist sem þeirri þjóð sé stjórnað af öllum árum andskotans sem gert hafa konur og börn að sínum helstu skotmörkum. Hræsnin og tvískinnungurinn er æpandi – það er greinilega ekki sama hverjir úthella blóðinu.

Aðeins ein þjóð hefur stigið fram opinberlega og óskað eftir samtali um þátttöku Ísrael í Evrópusöngvakeppninni – það er Spánn – sannarlega lofsvert – húrra fyrir Spáni !

Heimurinn virðist stjórnlaus – einn valdamesti maður heims er risastórt egó með rörsýn og í kringum hann tipla svo þjóðarleiðtogar vesturlanda á tánum af ótta við að styggja hann – enda hans helstu stjórntæki valdníðsla og kúgun.

Ameríka will be great again er slagorð Bandaríkjaforseta – sem segir okkur að það sé nú stórveldi á fallandi fæti – stórveldi sem vart hefði staðið af sér álíka viðskiptaþvinganir og Rússland hefur búið við síðustu misseri. Við getum því gengið út frá því sem vísu að frjálshyggjan er ekki töfralausnin sem framtíðin skal byggð á.

Frjálshyggjan gengur út á frelsi fárra til athafna á kostnað hinna – hún grefur undan velferðarkerfum samfélaga og þá um leið öryggi þeirra sem þau byggja – hún skerðir frelsi manna og réttindi en upphefur forréttindahópa yfir þá siðferðisramma sem öðrum er gert að halda sig innan. Frjálshyggjan miðar allt við auðvaldið efst í píramídanum sem þýðir að þyngri byrðar leggjast í vaxandi mæli á þá sem neðar eru – það getur bara endað á einn veg – með hruni – þá eru skuldir auðvaldsins færðar yfir á almenning.

Auðvaldið einkavæðir gróðann og kemur honum fyrir á öruggum stað – arfleiðir almenning og ríkissjóði af tapinu og svo byrjar það upp á nýtt – það kemur eins og frelsandi engill inn í samfélög í sárum með nýþvegna peninga úr skattaskjólum – kannski sem „erlendir fjárfestar“ til að lyfta upp atvinnulífinu með sínum skilyrðum – í framhaldinu yfirtekur það réttkjörin völd – kannski með „gjöfum“ í einhverjum tilfellum og þá komið með fullt frelsi til athafna – með klækjabrögðum og blekkingum gerir það sig svo ómissandi.

Það er ekki nema lítill hluti jarðarbúa sem eru hlynntir nýfrjálshyggjunni – langflestir vilja feta hinn gullna meðalveg hófhyggju – kjósa virkt lýðræði sem tryggir réttindi og frelsi almennings og kjör fyrir alla sem bjóða upp á mannsæmandi líf – en við vitum að þannig er hlutunum ekki háttað í dag því þjóðkjörnir fulltrúar lýðræðisríkja hafa ekki staðið sína plikt – það hefur alls staðar fjara undan lýðræðinu í takt við vaxandi íhlutun auðvaldsins í pólutíkinni.

Misskiptingin í heiminum er mikil og vaxandi og bilið milli auðs og örbirgðar breikkar stöðugt – milljónir manna um heim allan eru heimilislausir á hrakningi undan stríðsátökum og eða pólutískum ofsóknum og heilu þjóðirnar á vonarvöl sökum hungurs og vosbúðar. Við erum að mestu hætt að fá fréttir af þessari skelfilegu eymd  – kannski vegna þess að ástandið er orðið gjörsamlega óviðráðanlegt og beinlínis vitnisburður um vanæfni og ráðaleysi þjóðarleiðtoga um heim allan.

Svona ætti þetta ekki að þurfa ef vera ef þeir óseðjandi myndu sætta sig við eitthvað minna. Það er til nóg handa öllum – en málið er að víða í heiminum er miklu magni af ferskmeti keyrt beint á haugana – þannig er búin til skortur sem eykur eftirspurn – eftirspurnin hækkar verð og miðlarar fá þá meira fyrir minna og spara að auki flutningskostnað. Þarna er auðvaldið að vinna eftir frumskógarlögmálinu – það er ekkert að gera sér neinar rellur út af sveltandi fólki. Þetta er bara lítið dæmi sem veitir innsýn í hugsunarhátt þeirra sem sjá ekkert athugavert við að gera sér mat úr eymd annarra. Það virðast ekki vera til nein lög sem ná yfir svona framferði.

Þetta er bara lenskan segja sumir – vissulega eru óvönduð vinnubrögð lenska hjá ákveðnum hópi fólks – en það á ekki að komast upp með að normalísera óheiðarleikann.

Auglýsingarnar frá SFS sem um þessar mundir rúlla á RUV eru gott dæmi um blekkingar þar sem verið er að spila á þekkingarleysi.

Það myndi varpa nýju ljósi á málið sem um ræðir ef til dæmis bæjarfulltrúar á Ísafirði myndu taka að sér að rölta um bæinn sinn í viðlíka auglýsingu og kynna fyrir landsmönnum veruleikann fyrr og nú. Þegar búið væri að upplýsa um staðreyndir þá væri hægt að taka samtalið og rökræða – ákveða svo í framhaldi hvað myndi best þjóna hagsmunum þjóðarinnar í heild sinni – með heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi.

Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur hins vegar opinberlega tekið afstöðu með stórútgerðinni – það gerði bæjarstjórn Ísafjarðar einnig þegar Guðbjörginni var siglt til Akureyrar forðum daga.

Það gerist allt oft á Íslandi að hagsmunum heildarinnar er fórnað fyrir hagsmuni fárra – slík tækifærismennska getur aðeins skrifast á kjörna fulltrúa bæjar og sveitarstjórna sem og Alþingis – sem virðast seint ætla að skilja þá ábyrgð sem felst í því að vera í forsvari þjóðarhagsmuna. Það hefur alla tíð verið vandamál hér á landi hversu fúsir embættis og ráðamenn eru til að halla sér að höfðingjunum – tryggja þannig sjálfum sér lygnan sjó að sigla á inn í framtíðina – án þess að láta samviskuna trufla sig á nokkurn hátt.

Við lifum nú á tímum óvissu og glundroða sem má rekja til langtíma blekkingastjórnunar – á slíkri tækifærismennsku verður aldrei hægt að tryggja stöðuleika og festu því í heimi blekkinga er „sannleikurinn“ svo breytilegur frá degi til dags. Íslendingar þekkja vel óstöðuleikann og sveiflurnar í hagkerfinu – þess vegna er nánast ómögulegt fyrir þá að gera framtíðarplön – þeir treysta bara á að hlutirnir reddist einhvern vegin. En óvissan grefur um sig í sálinni – hún er eins og boðflenna – gleði og friðarspillir.

Það hefur tekið áratugi að afla þeirra réttinda sem þykja sjálfsögð í dag – réttindinda sem eiga að standa vörð um hagsmuni almennings og minnihlutahópa. Það mun taka öllu styttri tíma að afnema þessi réttindi – Bandaríkjaforseti minnti okkur óþægilega á það á dögunum með tilraunum sínum til að hafa áhrif á réttindamál hér á landi.

Bernie Sanders segir að ólígarkar muni ráðast gegn verkalýðnum og helst að skilja að hann óttist uppreisn sem þá hæglega gæti þróast út í borgarastyrjöld – Trump hefur líka verið duglegur við að sá fræjum sem fallið hafa í grýttann jarðveg heima fyrir og að heiman.

Peningar eru vissulega sterkt afl en reiði getur sameinað ekki síður en sundrað.

Það fer ekkert á milli mála með hvaða „stétt“ einn valdamesti maður heims stendur svo það er full ástæða til að óttast alræði auðvaldsins á heimsvísu – faraldurinn blés því byr í seglin – það gera yfirstandandi stríðsátök einnig – upplausn og glundroði eru ær og kýr auðvaldsins – þess vegna er svo erfitt að koma á varanlegum friði.

Það stoðar víst ekki að einblína alltaf á það versta mögulega – það er líka nauðsynlegt að grípa gleðigæsina þegar hún gefst og það er sannarlega von mín að sem flestum takist að fanga hana um páskana. Þegar fjölskyldur og vinir koma saman þá gefst tækifæri til að veita og þiggja á markaðstogri kærleikans – gæskan og kærleikurinn gefa gott í hjartað – í félagi leggja þau svo alltaf eitthvað til á vogaskálar réttlætis og friðar – það er nærandi fyrir sálina.

Þegar ferðast er til fagnaðar skal aðgát höfð – það er gott að hafa í huga á ferðalögum ekki síst þegar enn er allra veðra von á fjallvegum landsins.

Sjálfsagt eru þeir sem hyggja á lengri ferðir enn á nagladekkjum þó lögbundinn tími þeirra sé um það bil að renna út – það verðu að líkindum horft fram hjá því á landsbyggðinni fram yfir páska – en vissara að huga að skiptum fljótlega eftir það því sektin var fyrir tveimur árum 18.000 kr á dekk – ég veit allt um það. Ég fór því og ræddi við lögregluna áður en ég pantaði tíma í umfelgun því ég ákvað fyrir nokkrum dögum að vera forsjál og láta skipta um tímareim í bílnum þó ekkert væri sem benti til að hún væri að gefa sig – það var því óvíst að ég fengi tíma strax – sem varð raunin því ég fékk ekki tíma fyrr en 5. maí – svo nú er bara að krossa fingur og vona að ég sleppi við sekt því ég þarf að punga út 140.000 kr fyrir tímareimaskipti og umfelgun þó ég eigi fyrir dekkjaganginn. Við hljótum öll að vera þakklát fyrir að bílar skuli ekki settir saman á íslenskum bifreiðaverkstæðum – því mér skilst að klukkutíminn kosti þar nálægt 20.000 kr.

Gleðilega páska og njótið samveru í faðmi fjölskyldu og vina þið sem eigið þess kost.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Lífsreyndur eldri borgari.

Auglýsing

Nýjustu fréttir