Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 22

Ríkissaksóknari staðfestir öðru sinni að fella niður mál Arctic Fish

Frá laxeldi í Patreksfirði.

Ríkissaksóknaraembættið hefur með ákvörðun sem tekin var í gær staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 2. janúar 2025 um að fella niður kærumál á hendur Stein Ove Tveiten framkvæmdastjóra Arctic Fish og stjórn fyrirtækisins vegna slysasleppingar á eldislaxi úr eldiskví í Patreksfirði í ágúst 2023. Rannsóknin laut að því hvort forstjórinn og stjórn bæru refsiábyrgð á því að fiskur slapp úr eldiskvínni með því að vanrækja að til staðar væri nauðsynlegur umbúnaður við fiskeldið.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum komst að þeirri niðurstöðu í byrjun ársins, öðru sinni, að fella niður málið með vísan til 145. gr. sakamálalaganna, þ.e. á þeim grunni að ekki væru komnar fram upplýsingar í málinu sem væru nægilegar  eða líklegar til sakfellis.

Eftir slysasleppinguna hóf lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsókn og lauk henni með ákvörðun 19. desember 2023 um að hætta rannsókn málsins. Sú ákvörðun var kærð til Ríkissaksóknaraembættisins. Voru kærendur alls 23, m.a. Matvælastofnun, einstaklingar, veiðifélög og söngkonan Björk Guðmundsdóttir. Í apríl 2024 felldi Ríkissaksóknaraembættið ákvörðun lögreglustjórans úr gildi og fól honum að fullrannsaka málið og taka ákvörðun á grundvelli 145. greinar laganna að henni lokinni.

Þessi seinni ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum var einnig kærð til Ríkissaksóknara. Það voru Matvælastofnun og veiðifélag Blöndu og Svartár sem kærðu. Vildu kærendur að ákvörðun lögreglustjórans yrði felld úr gildi og að öðru embætti eða sérstökum rannsakanda yrði falið að rannsaka málið.

Það er niðurstaða Ríkissaksóknara að fullnægjandi verklagsreglur hafi verið fyrir hendi við afhendingu á eldisfiski í brunnbát og að framkvæmdastjóri og/eða stjórnarmenn hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir þeim verklagsreglum. Var því ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum staðfest.

Auglýsing

Orkan styrkir Aldrei fór ég suður 

Mynd af gámnum staðsett á Sundabakka á Ísafirði, við svæðið þar sem tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fer fram

Hraðhleðslutengjum fyrir rafbíla á Ísafirði fjölgar verulega í vikunni þar sem Orkan hefur sett upp færanlega hleðslustöð í bænum og bætt þjónustu við rafbílaeigendur yfir páskahátíðina. Hleðsluinnviðir fyrir rafbíla á svæðinu hafa því verið styrktir á meðan þúsundir manna sækja bæinn heim um páskana til þess að upplifa hina margfrægu tónlistarhátíð Aldrei fór ég suður. 

Um er að ræða 350kW hleðslustöð sem er sett upp af Orkunni í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Hún er með fjögur stæði, þrjú CCS tengi og eitt CHAdeMO tengi. Stöðin mun standa við Sundabakka á höfninni þar sem hátiðin fer fram og verður þar fram yfir páska. 

Færanlegar hleðslustöðvar voru fyrst teknar í notkun af Orkunni í nóvember 2023 en um er að ræða rafhlöðubanka sem geymir 350 kWh af orku. Með rafhlöðubanka myndast minna álag á raforkukerfið og er því hægt er að tengja lausnina við minni rafmagnstengingu en hefðbundin hleðslustöð en samt sem áður halda fullu afli. Þannig verður orkunýting mun betri. Þar sem hún er færanleg veitir það einnig tækifæri til að nýta stöðina í verkefni líkt og þessi, að styrkja hleðslu innviði þegar álagstími stendur yfir. 

„Við höfum fylgst grannt með akstursumferð hingað vestur síðustu 20 ár og vitum að við eigum von á þúsundum gesta akandi vestur um páskana. Miklu máli skiptir að styrkja þá innviði sem við getum. Orkan var til í að leggja hönd á plóg og setja upp þessar frábæru færanlegu hleðslustöðvar svo fleiri geti hlaðið bílana sína á Ísafirði og haldið uppi stuðinu á Aldrei fór ég suður. Þetta breytir miklu fyrir okkur og frábært að sjá fyrirtæki taka þátt í að gera upplifun gesta sem besta,” segir Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður. 

„Það er okkur ljúft og skylt að taka þátt í að halda uppi stuðinu á Ísafirði um páskana. Við vitum hvað hleðsluinnviðir skipta landsbyggðina máli, sérstaklega þegar mikið er um að vera og fjöldi fólks á svæðinu margfaldast. Orkan tekur virkan þátt i orkuskiptunum og eru þessar færanlegu hraðhleðslustöðvar mikilvægur hluti af þeirri vegferð. Við hlökkum til að fara með stöðina vestur um páskana og jafnvel á fleiri staði úti á landi á næstu mánuðum” segir Auður Daníelsdóttir forstjóri Orkunnar.

Myndband um ferðalag stöðvarinnar vestur sem má sjá hér: https://youtu.be/C1OYIJV3pzI

Auglýsing

Þjóðlendukröfur ríkisins: 96 m.kr kostnaður við eyjar og sker

Kort sem sýnir þjóðlendur í Barðastrandarsýslu eftir úrskurð Óbyggðanefndar.

Áfallinn kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu fyrir óbyggðanefnd í tengslum við kröfulýsingu ríkisins fyrir svæði 12 sem nær til eyja og skerja nemur samtals 96.351.588 kr. og dreifist á þrjú ár þannig að á árinu 2023 var kostnaðurinn 34 m.kr., og 55 m.kr. næsta ár og 7 m.kr. á þessu ári.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra á alþingi við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni alþm. um kostnað við kröfur um þjóðlendur.

Stærstur hluti greiðslna hefur runnið til Juris lögmannsstofu eða sem nemur 91.281.076 kr. Þá hafa 5.070.512 kr. verið greiddar til teiknistofunnar Landforms vegna kortavinnu.
Kostnaður vegna upphaflegrar kröfulýsingar sem skilað var 2. febrúar 2024 til óbyggðanefndar nam 48.047.371 kr.
Eftir að upphaflegum kröfulýsingum var skilað til óbyggðanefndar var af hálfu óbyggðanefndar hafin vinna við að afmarka svæði 12 betur með aðstoð og samstarfi ýmissa aðila sem almennt koma að kortagerð. Afrakstur þeirrar vinnu er kortasjá sem byggist á nokkrum kortagrunnum og loftmyndum, flokkað eftir bestu heimildum á hverjum stað, og sýnir fjörumörk umhverfis landið.
Þegar þeirri vinnu var lokið hófst endurskoðun á þjóðlendukröfum íslenska ríkisins og var endurskoðuð kröfulýsing lögð fram 9. október 2025. Áfallinn kostnaður við þessa vinnu eftir 2. febrúar 2024 nemur 46.551.450 kr. Eftir þann tíma hefur fallið til kostnaður við að fara yfir kröfulýsingar gagnaðila og svara fyrirspurnum óbyggðanefndar, sem nemur 1.752.767 kr. Þar sem málsmeðferðinni fyrir óbyggðanefnd er ekki lokið vegna svæðis 12 má gera ráð fyrir að einhver frekari kostnaður muni falla til þar til óbyggðanefnd hefur lokið sínum störfum fyrir næstu áramót samkvæmt gildandi lögum.

 Þegar svæði 12 var afmarkað og opnað af óbyggðanefnd lágu ekki fyrir upplýsingar um afmörkun stórstraumsfjöruborðs og svæðið var því einungis afmarkað með grófri línu umhverfis meginlandið.


Í einhverjum tilvikum voru talin upp nöfn á svæðum í kröfulýsingu sem síðar reyndust vera innan meginlandsins, flest með landfyllingu eða tengingu við land sem ekki mátti sjá á kortum eða eru hólmar í ósum. Þar sem þessi svæði innan meginlandsins voru utan afmörkunar óbyggðanefndar á svæðinu þá voru þau í reynd undanskilin kröfu íslenska ríkisins. Þess ber þó að geta að í mörgum tilvikum þar sem athugasemdir voru gerðar var um að ræða fleiri en eitt svæði sem báru sama nafn, bæði á meginlandi og í sjó.

Auglýsing

Vesturbyggð: áhyggjur af hækkun veiðigjalda

Frá Patrekshöfn í desember. Mynd: Patrekshöfn.

Í umsögn Vesturbyggðar um fyrirhugaðar breytingar á veiðigjöldum í sjávarútvegi segir að Vesturbyggð geri ekki athugasemdir við sanngjarna gjaldtöku af auðlindum þjóðar, þar á meðal sjávarafurðum.
Vesturbyggð hafi hinsvegar miklar áhyggjur af áhrifum frumvarpsins á minni og meðalstórar útgerðir og fiskvinnslur ásamt þeim sjávarbyggðum þar sem þær starfa. Aukin gjaldtaka geti haft umfangsmikil áhrif á greinina sem leitt geta til aukinnar samþjöppunar með tilheyrandi fækkun starfa.

Í umsögninni segir að stór hluti tekna Vesturbyggðar komi frá útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu. Frumvarpið geti því haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins og burði þess til að viðhalda sterku og lifandi samfélagi.

vilja hækka frítekjumark og stefnu um ráðstöfun gjaldsins


Vesturbyggð skorar á stjórnvöld gera breytingar á frumvarpinu með hækkun á frítekjumarki svo tryggja megi áframhaldandi rekstur minni og meðalstórra útgerða víðsvegar um landið.


Vesturbyggð telur mikilvægt að samhliða framlagningu frumvarpsins verði unnin skýr stefnumörkun um ráðstöfun veiðigjaldsins af hálfu ríkisins.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: aukið fiskeldi þýðir fólksfjölgun

Þingeyri. Í húsnæðisáætluninni segir um Þingeyri: Á Þingeyri aukast umsvif fiskeldis með hverju árinu og fjöldi starfa eru tengd því. T.d. er stórfyrirtækið Arctic Fish með fóðurmiðstöð fyrirtækisins á Þingeyri og helstu eldissvæði Arctic Fish eru í Dýrafirði. Það hefur því orðið viðsnúningur í atvinnuástandi á Þingeyri eftir erfiða tíma og horfur á aukinni eldistengdri starfsemi.

Í húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar kemur fram að aukið fiskeldi og vöxtur í starfsemi Kerecis leiði af sér fólksfjölgun í sveitarfélaginu vegna atvinnuuppbyggingarinnar sem því fylgi. Gerðar eru þrjár spár um mannfjöldaþróun.

Háspá gerir ráð fyrir fólksfjölgun ef væntingar um atvinnuuppbyggingu ganga eftir, þá sér í lagi ef áhrif fiskeldis fer að gæta í ríkari mæli á Flateyri. Er þar horft til skýrslu KPMG “Greining á áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum”, sem unnin var fyrir Vestfjarðarstofu 2021. Miðað er við að í lok spátímans verði alin 30.000 tonn af fiski í sveitarfélaginu.

Miðspá gerir ráð fyrir lítilsháttar fólksfjölgun og að væntingar nái ekki að ganga fram að fullu.

Lágspá gerir ráð fyrir að væntingar um atvinnuuppbyggingu rætist ekki og byggðaþróun verði með sama móti og síðustu ár.

600 manna fjölgun á 10 árum

Gangi háspáin eftir og eldið nái 30 þúsund tonnum eftir 10 ár er því spáð að rúmlega 4.600 manns búi í Ísafjarðarbæ árið 2034 en íbúarnir eru nú nákvæmlega 4.000 samkvæmt nýjustu tölum Þjóðskrár. Það gerir um 15% íbúafjölgun á 10 árum.

Miðað við háspána þarf 2.019 íbúðir í sveitarfélaginu í lok spátímans er þær eru nú 1.773. Það þarf því að fjölga íbúðum um tæplega 250 eða um 25 á ári.

Miðspáin sem gerir ráð fyrir minni aukningu í laxeldinu spáir því að íbúarnir verði 4.400 í lok spátímans og að það þurfi 17 – 20 nýjar íbúðir á ári.

Lágspáin miðar við tæplega 4.200 íbúa eftir 10 ár og að byggja þurfi tæplega 80 íbúðir á tímabilinu.

Skipulags- og mannvirkjanefnd vísaði húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2025 til umræðu í bæjarráði. Bæjarráð samþykkti drög að húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2025 og leggur til við bæjarstjórn að samþykkja áætlunina. Áætlunin er á dagskrá fundar bæjarstjórnar á morgun.

Auglýsing

Íslandssaga: hækkun veiðigjalda þýðir 12% verri afkoma

Fiskvinnslan Íslandssaga hf. nemendur við Grunnskóla Ísafjarðar í heimsókn.

Fyrirhuguð tvöföldun veiðigjalda mun hafa slæm áhrif á afkomu Fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri samkvæmt útreikningum fyrirtækisins.

Afkoma fyrirtækisins á síðasta ári mun verða jákvæð um 173 m.kr. af tveggja milljarða króna tekjum samkvæmt innanhúsuppgjöri. En ef fiskverðið sem Íslandssaga greiðir útgerðarfyrirtækinu Norðureyri væri hækkað um 20% eins og forsendur ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir, og hún kallar leiðréttingu, breytist niðurstaðan verulega og tap verður um 54 m.kr. fyrir afskriftir og fjármagnskostnað. Afkoma vinnslunar mun samkvæmt þessu versna um nærri 230 m.kr. eða um 12% af tekjum fyrirtækisins. Hækkun veiðigjaldanna mun því valda því að fjárfestingargeta vinnslunnar mun að mestu hverfa.

Íslandssaga réðst í kaup á nýrri vinnslulínu í lok ársins og er kostnaðurinn við fjárfestinguna 250 – 300 m.kr.

Útgerðin ber hækkunina

Staða útgerðarfélagins Norðureyrar sem gerir út Einar Guðnason ÍS mun hins vegar batna, þrátt fyrir hækkun veiðigjaldann, sé gert ráð fyrir að fiskverðið muni hækka um 20%. Aflaverðmætið mun hækka úr 611 m.kr. í 735 m.kr. og framlegðin, þ.e. það sem eftir ef að tekjum þegar kostnaður hefur verið greiddur, annar en fjármagnskostnaður og afskriftir, mun hækka úr 157 m.kr. í 221 m.kr.

áhrifin á vinnsluna

Áhrifin af hækkun fiskverðsins og hækkun veiðigjaldanna munu verða mikil á störfin í fiskvinnslunni. Þau er tæplega 50 hjá Íslandssögu og Vestfiski í Súðavík. Störfin við veiðarnar eru hins vegar aðeins 8 – 9.

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Íslandssögu segir að veiðar og vinnsla á sömu hendi hafi verið „eitt af aðalsmerkjum okkar Íslendinga þannig höfum við náð árangri bæði í okkar vinnslu og útgerð, þannig hefur verið hægt að fjárfesta og auka hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi. Mér er til efs að stjórn Fiskvinnslunnar Íslandssögu hefði tekið ákvörðun um um mitt síðasta ár að fara í 250-300 milljóna króna fjárfestingu í nýjum búnaði til fiskvinnslu ef þetta hefði legið fyrir þá.“

Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu.

Auglýsing

Háafell kaupir brunnbát

Fyrr í vetur gekk Háafell frá kaupum á brunnbáti frá Chile. Um er að ræða bát sem getur flutt allt að 20 tonn af seiðum og um 75 tonn af fiski í sláturstærð. Báturinn mun auka afkastagetu Háafells til seiðaflutninga, flutnings á sláturfiski og mögulegra lúsameðhöndlana með ferskvatni. Jafnframt gefast möguleikar á bættum smitvörnum með því að minnka áhættu á því að smit berist inná eldissvæði Háafells þar sem gert er ráð fyrir að brunnbáturinn verði að uppistöðu staðsettur í Ísafjarðardjúpi.

Fyrir á Háafell brunnbátinn Papey sem reynst hefur afburða vel en er orðinn of lítil og ekki með sömu tæknilegu eiginleika og nýji báturinn. Til samanburðar er brunnurinn í Papey 180 m3 en brunnarnir í nýja brunnbátnum 650 m3 auk þess sem hægt er að loka brunnunum og hringrása sjónum með loftun og súrefnisbætingu. Einnig eru fiskteljarar og flokkarar um borð sem og ozonkerfi til sótthreinsunar.

Báturinn er notaður og er keyptur af útgerðarfyrirtækinu Friosur sem íslendingum er góðu kunnugt þar sem Grandi og síðar Brim hafa átt 20% í félaginu um árabil.

Siglingin til Íslands hófst þann sjötta apríl og er reiknað með að hún taki allt að 45 daga. Siglt er upp með vesturströnd suður Ameríku, í gegnum Panama skurðinn og er áætluð koma til Reykjavíkur seinnihluta maí mánaðar. Þar verður honum flaggað á íslenska skipaskrá og kemur vestur í kjölfarið í seiðaflutninga frá Nauteyri.

Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Háafells:

„Við erum statt og stöðugt að efla innviði Háafells. Við höfum verið í miklum framkvæmdum á Nauteyri til þess að vera sjálfbær með seiðaframleiðslu, síðustu ár höfum við byggt upp eigin flota af þjónustubátum og fóðurprömmum og nú fjárfestum við í skipi sem nýtist á þremur stöðum í virðiskeðjunni, allt frá seiðum, í áskorunum við laxalús og uppí sláturfisk. Á sama tíma minkum við áhættu sem skapast við umferð utanaðkomandi brunnbáta inná eldissvæðin okkar. Þetta er því framfaraskref og hlökkum við til að taka á móti nýja skipinu.“

Auglýsing

Brauðpeningur frá Þingeyrarbakaríi

Þessi brauðpeningur var framleiddur fyrir Þingeyrarbakaríið á Þingeyri.

Peningurinn var gjaldgengur í bakaríinu frá árunum 1906-1925.  Peningurinn var jafngildi eins rúgbrauðs.  Bakhlið peningsins er slegin með einu og sama móti og peningar Andreas Frederiksen frá Reykjavík, raunar sama mótinu og bakhlið auglýsingapenings Danska bakaragildisins frá vörusýn­ingunni í Kaupmannahöfn 1888.

Mótið, krýnd brauðkringla með tveimur ljónum og sverðum, var grafið og slegið fyrir Danska bakaragildið hjá L. Chr. Lauer í Nürnberg. Af þessu má ætla að brauðpeningar Þingeyrarbakarís og A. Frederiksens hafi einnig verið slegnir hjá L. Chr. Lauer.

Af vefsíðunni sarpur.is 

Auglýsing

Loftslagsatlas Íslands

Nýr vefur Veðurstofu Íslands, Loftslagsatlas Íslands er nú aðgengilegur.

Vefurinn veitir innsýn inn í hvernig loftslag á Íslandi getur þróast og breyst til aldamóta og gerir aðgengilegar upplýsingar um þróun loftslagsbreytinga og þýðingu þeirra fyrir nærumhverfi og lífsskilyrði fólks. Það er bæði hluti af því að gæta að aðlögunarhæfni Íslands að loftslagsbreytingum og þáttur í því að efla þekkingu almennings á áhrifum loftslagsbreytinga hér á landi.

Loftslagsatlasinn var ein af fjórum forgangsaðgerðum sem lagðar voru til í skýrslu stýrihóps, loftslagsþolið Ísland, sem fjallaði um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum. Stýrihópurinn taldi Loftslagsatlasinn vera aðgerð sem aukið geti seiglu og samkeppnishæfni Íslands frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Loftslagsatlasinn byggir á sviðsmyndum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda og hafa gögnin sem þar birtast verið endurreiknuð fyrir Ísland og hafið umhverfis það.

Gögnin í Loftslagsatlasinum eru opin og öllum aðgengileg á myndrænu formi í gegnum kortavefsjá, auk þess sem hægt er að hlaða þeim niður á öðrum sniðum. Gögnin er hægt að nýta á ýmsan máta til að meta viðkvæmni samfélaga gagnvart loftslagsbreytingum og mögulegar áhættur sem þeim fylgja. Þar er m.a. hægt að nálgast upplýsingar um hvernig loftslagsbreytingar geti haft áhrif á hitafar, úrkomu og sjávarflóð á Íslandi til loka aldarinnar, miðað við mismunandi sviðsmyndir um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkti gerð atlasins sem er aðgengilegur hér: Loftslagsatlas Veðurstofa Íslands

Auglýsing

Lækkanir á heimsmarkaði skila sér að litlu leyti

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, segir að þrátt fyrir að olíuverð hafi lækkað á heimsmarkaði og bandaríkjadalur veikst hefur það ekki skilað sér nema að litlu leyti út í verðlag á bensíni og dísilolíu hér á landi, en það sem af er þessum mánuði hefur heimsmarkaðsverð á olíu farið, umreiknað í íslenskar krónur, niður um 7-8 krónur á lítrann.

Runólfur segir ennfremur að verðið hér á landi hefur ekki lækkað eins og búast hefði mátt við. Á sama tíma hefur verðið Í Danmörku verðið verið að lækka um 5-6 krónur en um hálfa til eina krónu hér á landi.

Olíufélögin skýla sér á bak við einhverja birgðastöðu eins og alltaf er kyrjað um, en málið er að í svona viðskiptum, þegar vara er seld í miklu magni og hefur verið seld hér áratugum saman, er birgða staðan afskrifuð eins og í venjulegum rekstri. Það á að miða við heimsmarkaðsverð,“ segir Runólfur.

Runólfur nefnir að hagfellt sé fyrir neytendur á suðvesturhorninu að Costco virðist fylgja heimsmarkaðsverði á bensíni og olíu, það sé nær heimsmarkaðsverði í þeim vörutegundum en íslensku olíufélögin og álagning þar sé nær því sem þekkist í nágrannalöndunum.

Auglýsing

Nýjustu fréttir