Nýr vefur Veðurstofu Íslands, Loftslagsatlas Íslands er nú aðgengilegur.
Vefurinn veitir innsýn inn í hvernig loftslag á Íslandi getur þróast og breyst til aldamóta og gerir aðgengilegar upplýsingar um þróun loftslagsbreytinga og þýðingu þeirra fyrir nærumhverfi og lífsskilyrði fólks. Það er bæði hluti af því að gæta að aðlögunarhæfni Íslands að loftslagsbreytingum og þáttur í því að efla þekkingu almennings á áhrifum loftslagsbreytinga hér á landi.
Loftslagsatlasinn var ein af fjórum forgangsaðgerðum sem lagðar voru til í skýrslu stýrihóps, loftslagsþolið Ísland, sem fjallaði um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum. Stýrihópurinn taldi Loftslagsatlasinn vera aðgerð sem aukið geti seiglu og samkeppnishæfni Íslands frammi fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Loftslagsatlasinn byggir á sviðsmyndum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda og hafa gögnin sem þar birtast verið endurreiknuð fyrir Ísland og hafið umhverfis það.
Gögnin í Loftslagsatlasinum eru opin og öllum aðgengileg á myndrænu formi í gegnum kortavefsjá, auk þess sem hægt er að hlaða þeim niður á öðrum sniðum. Gögnin er hægt að nýta á ýmsan máta til að meta viðkvæmni samfélaga gagnvart loftslagsbreytingum og mögulegar áhættur sem þeim fylgja. Þar er m.a. hægt að nálgast upplýsingar um hvernig loftslagsbreytingar geti haft áhrif á hitafar, úrkomu og sjávarflóð á Íslandi til loka aldarinnar, miðað við mismunandi sviðsmyndir um hnattræna losun gróðurhúsalofttegunda.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið styrkti gerð atlasins sem er aðgengilegur hér: Loftslagsatlas Veðurstofa Íslands