Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2100

Ríflega helmingur snæðir lambakjöt

Af íslensku sauðkindinni fæst úrvalskjöt.

Rúmur helmingur erlendra ferðamanna sem koma til landsins, eða 54 prósent, borðar
íslenskt lambakjöt. Þetta sýnir könnun Gallup fyrir markaðsstofuna Icelandic Lamb.
Helmingur ferðamanna borðar lambakjöt á veitingastöðum en 13 prósent borða lambakjöt sem keypt er í búð. Því er nokkuð ljóst að einhver skörun er á milli þessara hópa. Líkur á að ferðamenn borði íslenskt lambakjöt aukast eftir því sem þeir dvelja lengur á landinu

Auglýsing

Vilja auka eldið um 4.500 tonn

Sjókvíar í Arnarfirði.

Skipulagsstofnun hefur óskað eftir umsögnum um hvort að fyrirhuguð framleiðsluaukning Arnarlax hf. í Arnarfirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Arnarlax áformar frekari uppbyggingu sjókvíaeldis í Arnarfirði með því að auka framleiðslu sínu um 4.500 tonn á ári. Félagið hefur starfs- og rekstrarleyfi fyrir 10.000 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum. Heildarframleiðsla verður því alls 14.500 tonn á ári.

Í ljósi niðurstöðu mats á áhrifum framleiðsluaukningar, samlegðaráhrifa með öðru fiskeldi í Arnarfirði og að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, er það niðurstaða Arnarlax að ekki er líklegt að framleiðsluaukning muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skuli því ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Beiðni Skipulagsstofnunar var tekin fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu, að teknu tilliti til skýrslu Arnarlax og laga um umhverfismat, að framleiðsluaukningin skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti gerir nefndin ekki athugasemdir við áform Arnarlax og bendir á að framleiðsluaukningin er innan viðmiða burðarþolsmats Hafrannsóknastofnunar og í samræmi við nýtingaráætlun Arnarfjarðar.

 

Auglýsing

Litið aftur, og svo fram veginn

Pétur G. Markan.

„Með kjafti og klóm“

Síðasta fjárhagsáætlun sveitarstjórnar þetta kjörtímabilið var afgreidd samhljóða 14. desember 2017. Niðurstaðan sú að fjárhagsleg afkoma sveitarfélagsins heldur áfram að styrkjast umtalsvert, framkvæmdum fjölgar og fleiri viðhaldsverkefnum er sinnt.

Það er sérstök tilfinning að klára þennan krefjandi áfanga ársins, stefna og markmið sveitarfélagsins klár fyrir árið 2018. Það er eins og andrúmsloftið hafi fengið syndaaflausn þegar maður andar að sér umhverfinu eftir þennan síðasta sveitarstjórnarfund ársins.

Að auki eru þetta fyrstu merki þess að kjörtímabilinu fari að ljúka. Næst verður kosið í maí 2018, nýjar sveitarstjórnir munu í kjölfarið líta dagsins ljós. Kannski með klofin skjöld eftir átök kosningabaráttunnar – kannski með fulla tösku af sól og bjartsýni. Skiptir engu, framundan eru krefjandi verkefni, fyrir óhræddar hendur. Þannig, og bara þannig, gerum við betur í dag en í gær.

Óhrædd.

Eitt kjörtímabil dregur fram alla kosti og ókosti í einum sveitarstjórnarmanni. Sum mál sýna þínar bestu hliðar, „þvílíkur mannkostur“ er hrópað. Önnur draga fram breyska eiginleika, mann sem tók ekki rétta ákvörðun, „þvílíkur siðleysingi“ er kallað. Eitt er sameiginlegt báðum málum; á bakvið er einlægur vilji til að gera vel.

Á milli sigla stóru verkefnin, þessi sem geyma mótun og framtíð samfélagsins í DNA þráðum sínum. Stundum hef ég það á tilfinningunni að stórum málunum hljóti að líða eins og Van Gogh, áður en heimurinn kveikti á þessum áhrifamanni listasögunnar. Áhrifamikil, afskipt, stundum örvingla af áheyrnarleysi.

Samanlagt gefur þetta mynd af manni – okkur. Við erum gott fólk sem vill vel. Við viljum stækka og þroskast, og glímum stöðugt við brestina í sjálfum okkur.

Litið til baka…

Fjárhagsleg styrking sveitarfélagsins

Sé horft aftur yfir kjörtímabilið sést árangur og framþróun, þegar kemur að stórum málum er varða tilvist og framtíð sveitarfélagsins. Fjárhagsleg afkoma sveitarfélagsins hefur styrkst mjög, svo eftir er tekið. Sjálfstæði sveitarfélaga felst ekki í sögu og tilfinningum, ekki í rómantík og sérstöðu einstaklinga, verkefna eða ættbálka. Sjálfstæði sveitarfélaga er bundið í fjárhagslegan styrk. Síðan má svitna yfir andleysi þessarar staðhæfingar – það breytir hins vegar ekki niðurstöðunni, og um einbeittan vilja hins opinbera að fækka minni sveitarfélögum.

Samhent sveitarstjórn

Þegar horft er yfir kjörtímabilið sést samheldin sveitarstjórn sem glímdi sameiginlega við verkefni dagsins. Upptaktur síðustu kosninga gaf ekki vísbendingu um slíkt. Hvergi hefur komið fram ágreiningur sem ekki var hægt að leysa, nema í sátt og samtóna niðurstöðu. Í litlu samfélagi þarf

klefinn að vera í lagi, annars vinnst ekki nokkur leikur. Klefinn, í þessu samhengi, er sveitarstjórn Súðavíkurhrepps, samlyndi og samvinna hennar er svar við spurningunni hvers vegna gangi svo vel í sveitarfélaginu.

Atvinnumál á skriði

Þegar horft er yfir kjörtímabilið sést glögglega áhersla sveitarstjórnar á uppbyggingu atvinnumála. Í upphafi kjörtímabilsins var tekin ákvörðun um að ganga til samstarfs við Marigot, móðurfélag Íslenska Kalkþörungafélagsins, um uppbyggingu á starfsemi félagsins í Súðavík. Þessi vinna hefur gengið vel, og stefnt er að framkvæmdum á næsta ári, gangi skipulagsbreytingar eftir. Í skýrslu KPMG, sem sveitarstjórn lét vinna fyrir sig á árinu kemur glögglega fram hvaða ávinningur hlýst af verkefninu. Í samantekt á KPMG kemur eftirfarandi fram:

•Fjöldi beinna nýrra starfa nær hámarki í um 30 manns, sjö árum eftir að útflutningur hefst.

•Fjöldi afleiddra starfa, sem verða til á svæðinu, verði um 12 á sama tíma.

•Íbúar með afkomu vegna kalkþörungaverksmiðju verði um 90 á sama tíma.

•Árlegar greiðslur til ríkissjóðs geta numið um 65 m.kr. og um 89 m.kr. til sveitarfélagsins þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.

•Árlegar greiðslur til lífeyrissjóða nema um 36 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.

•Árlegar greiðslur til sveitarfélagsins á atvinnusvæðinu geta numið um 89 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.

•Árlegar greiðslur til Súðavíkurhrepps vegna hafnargjalda og annarra gjalda geta numið um 56 m.kr. þegar útflutningur er í hámarki og flest bein störf verða til.

Að undaskyldum laxeldisáformum í Ísafjarðardjúpi er því um að ræða stærsta einstaka atvinnuþróunarverkefni við Ísafjarðardjúp, sem lítið en metnaðarfullt sveitarfélag á Vestfjörðum heldur utan um. Verkefni sem geymir þann styrk í sér að geta breytt þróun byggðar í Súðavík, og verið öflugur samverkandi í viðsnúning Ísafjarðardjúpsins. Auðvitað er verkefni af þessari stærðargráðu ekki óumdeilt. Af þeirri ástæðu hefur sveitarstjórn Súðavíkurhrepps kappkostað að halda sem flesta opna fundi um verkefnið á tímabilinu. Nú þegar hafa þrír fundir verið haldnir. Sá síðasti var haldin í Samkomuhúsinu í október, þar sem drög að umhverfismati voru kynnt. Íbúar þannig upplýstir um innihald skýrslunnar og gátu komið með fyrirspurnir. Í kjölfarið var hægt að senda inn umsagnir, ábendingar og gagnrýni.

Sveitarfélagið bindur miklar vonir við uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp. Á kjörtímabilinu hafa fulltrúar sveitarfélagsins staðið í framvarðarsveit Vestfirðinga sem talað hafa, og barist, fyrir máli og réttlæti og skynsemi þessara atvinnuuppbyggingar. Uppbygging laxeldis á Vestfjörðum er ekki bara stærsta atvinnuþróunarmál fjórðungsins, heldur einnig réttlætismál fólksins sem byggir svæðið, ræktar land og líf og lifir fyrir vestfirska framtíð.

Ferðaþjónusta á Vestfjörðum er í stöðugum vexti og verður ein af kjölfestu-atvinnugreinum Vestfjarða um ókomna tíð. Á kjörtímabilinu beitti sveitarstjórn sér fyrir stofnun ferðaþjónustusamtaka Súðavíkurhrepps. Samtökunum er ætlað að gæta hagsmuna atvinnugreinarinnar innan sveitarfélagsins. Þá hafa framkvæmdarverkefni sveitarfélagsins verið mikilvægur stuðningur við atvinnugreinina. Þar má helst nefna framkvæmdir við Hvítanes, við helsta selalátur Vestfjarða, og síðan stærsta verkefni sveitarstjórnar þetta kjörtímailið, ljósleiðararvæðing Inndjúpsins.

Heildarendurskoðun aðalskipulags

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps ákvað á kjörtímabilinu að ráðast í heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagins. Fyrra skipulag hafði gildistíma til 2018. Sveitarstjórn var einhuga um að tvínóna ekki við hlutina og hefja strax vinnu við heildarendurskoðun. Slíkt er ekki sjálfsagt, mörg minni sveitarfélög eiga í miklum erfiðleikum með slíkar ákvarðanir, enda afar kostnaðarsamt ferli.

Verkefnið er risavaxið, og mun hafa grundvallandi áhrif á alla stefnumótun og þróun Súðavíkurhrepps næsta áratug. Verkefninu vindur vel áfram og vonir standa til um að skipulagsvinnan geti klárast á vor/sumarmánuðum og farið þá í umsagnar- og staðfestingarferli.

Íbúalýðræði

Eitt af áhersluverkefnum sveitarstjórnar hefur verið að efla íbúalýðræði og þátttöku. Af þessu tilefni hafa verið haldnir sex íbúafundir á kjörtímabilinu, og tveir íbúafundir vegna aðalskipulagsvinnu. Þá fór fram vel heppnað íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, í nóvember þar sem hugmyndum og sýn íbúa var safnað saman í skýrslu sem gefin verður út í upphafi nýs árs. Þessi skýrsla verður leiðarljós sveitarstjórnar fram í maí, og síðan næstu sveitarstjórnar sem tekur við í kjölfarið. Aukinheldur verður afurð þingins hluti af nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem er stefnumörkun sveitarfélagsins til næstu 20 ára.

Kaupfélagið

Í upphafi kjörtímabilsins stóð sveitarfélagið frammi fyrir því að þorpið var kaupfélagslaust. Slík staða er bæði áhugaverð og krefjandi fyrir samfélag eins og Súðavík. Súðavík er jaðarsamfélag í landfræðilegum skilningi. Fámennt landsbyggðarsamfélag sem einangrast tíðum yfir vetrartímann, vegna snjóflóða. Í þessum aðstæðum er matvöruverslun grunnþjónusta. Hins vegar er það alls ekki skilgreint hlutverk sveitarstjórna að hlutast til um rekstur matvöruverslunar, jafnvel þótt algjör markaðsbrestur blasi við og allar leiðir til að laða að rekstraraðila hafi verið reyndar.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps tók ákvörðun á vordögum 2015, eftir íbúafund, að stofna til reksturs matvöruverslunar í gegnum félag í fullri eigu Súðavíkurhrepps, Matvöruverslun Súðavíkurhrepps ehf. Ákvörðun sveitarstjórnar grundvallaðist á þremur þáttum, færa þessa þjónustu til íbúa sveitarfélagsins, reka hana ekki með tapi og vera áfram með Kaupfélagið í söluferli.

Strax var farið í breytingar á versluninni til að laga reksturinn að hlutverki og þörfum eigandans. Í upphafi sumarins 2015 opnaði síðan lítil bókasafnsmatvöruverslunarkaffihúsaupplýsingamiðstöð sem fékk nafnið Kaupfélagið.

Verkefnið gekk ekki átakalaust, sé syndlaust, en niðurstaðan óumdeild fyrir almenning. Kaupfélagið færði meiri lífsgæði, öryggi og þjónustu til íbúa sveitarfélagsins og rak sig réttu megin við núllið.

Matvöruverslun Súðavíkurhrepps ehf. var síðan seld á haustdögum til nýrra rekstraraðila. Sveitarfélagið er því ekki lengur eigandi Kaupfélagsins, engu að síður er tryggt að sama þjónusta, og enn betri, verður starfrækt í Álftaveri næstu árin. Mikil gleðitíðindi fyrir sveitarstjórn, íbúa og gesti Súðavíkurhrepps.

Markmiðum sveitarstjórnar var því að fullu náð með stofnun, rekstri og sölu Matvöruverslunar Súðavíkurhrepps ehf.

Samvinna vestfirskra sveitarfélaga.

Það ætti að vera forgangsmál hjá vestfirskum sveitarfélögum að finna samvinnu og samtakamátt í öllum verkefnum. Þannig eflist hin sameiginlega hagsmunabarátta og þjónusta við íbúa, lífsgæði aukast og Vestfirðir eygja þannig meiri möguleika á að ná vopnum sínum á ný.

Það er því veruleg ánægja sem fylgir því að klára stofnun Vestfjarðastofu og sannfæring, með vísan í ofansagt, að með henni eflist vestfirsk framtíð. Súðavíkurhreppur hefur gegnt lykilhlutverki í þessari vinnu og baráttu, með því að fara með formennsku í stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða og síðan formennsku í stjórn Vestfjarðastofu. Vestfjarðastofa verður vettvangur fyrir vestfirskt sveitarstjórnarlíf, sem og vestfirskt atvinnu- og menningarlíf, til að sameina krafta sína og hugmyndir til eflingar lífs og framtíðar.

Það sem sameinar sveitarfélög á Vestfjörðum, öðru fremur, er að þau eru öll lítil. Það er ekki til stórt sveitarfélag í fjórðungnum. Slíkt er kostur – þannig eigum við að geta sýnt hvoru öðru skilning í stað yfirgangs. Allar ákvarðanir sem miða að því að færa vestfirsk sveitarfélög fjær hvort öðru í samvinnu og trausti eru rangar ákvarðanir og færa Vestfirðinga fjær því takmarki að ná upp krafti og seiglu fyrri tíma. Þetta er regla.

Mögulega sameinast einhver sveitarfélög í fjórðungnum í ókominni framtíð, rétt eins og annarsstaðar á landinu. Hitt er víst, slíkt mun aldrei gerast nema með þessum forleik; meiri samvinnu og trausti milli sveitarfélaga. Vestfjarðastofa er gott dæmi um slíkt.

…svo framveginn

Markmið og verkefni ársins 2018 eru margvísleg, upptalningin er ekki tæmandi.

Framkvæmdir

Stærsta framkvæmdaverkefni sveitarfélagsins á árinu 2017, var ljósleiðaravæðing Inndjúpsins. Haldið verður áfram með verkefnið á árinu 2018, og vonast er til að það geti klárast árið 2019 með heimtengingu allra bæja, fyrirtækja og þeirra frístundahúsa sem kjósa að vera með. Þetta verkefni sýnir glögglega hver forgangsröðun sveitarstjórnar er. Inndjúpið stendur höllum fæti og eðlilegt er að sveitarfélagið fjárfesti í innviðauppbyggingu til að gera svæðið samkeppnishæft og fýsilegan kost – atvinnu, og byggðarfært. Samvinna sveitarfélagsins við Orkubú Vestfjarða hefur verið til fyrirmyndar í þessu verkefni og sveitarfélagið bindur miklar vonir við framhaldið.

Þá er ráðgert að klára framkvæmdir á Hvítanesi, þar sem myndarleg aðstaða fyrir ferðamenn er að rísa við selalátrið yst á nesinu.

Viðhaldsmál

Helstu viðhaldverkefnin verða við Súðavíkurskóla og síðan verða íbúðarhúsin í Arnarflötinni tekin í gegn að utan og máluð. Sveitarfélagið eignaðist í desember 2017 Arnarflöt 5, rauða húsið, og er því eigandi að þremur húsum í götunni. Það hefur legið á málningarviðhaldi og verður það mikil prýði að hafa þennan Arnarflatar-regnboga, eitt af fallegum einkennum þorpsins, skínandi eftir sumarið.

Hafnarmál

Hafist verður handa við lengingu flotbryggju Súðavíkurhafnar á nýju ári. Bryggjan er alfarið í notkun Iceland Seaangling. Með flutningi, þess hluta, fyrirtækisins til Súðavíkur, sem áður hafði starfstöð á Tálknafirði, er nauðsynlegt að lengja bryggjuna um eitt bil. Ráðgert er að skipta um dekk á Miðgarði og Suðurgarði, auk þess sem Miðgarður verður ástandsskoðaður á árinu. Þá verður sett upp árekstrarvörn/steinhleðsla, hafnarmegin, meðfram akveginum að Suðurgarði. Í athugun er að setja ferskvatnsslöngu á flotbryggjuna á Suðurgarði.

Formleg vinna við hönnun hafnarmannvirkja, vegna kalkþörungavinnslu innan við Langeyri hefst á nýju ári. Framkvæmdin verður langstærsta framkvæmdaverkefni sveitarfélagins í lengri tíma og mun hafa geysileg áhrif á þróun sveitarfélagsins.

Landbúnaðarmál

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er veitt meira fé í veiðar á mink og ref. Þá samþykkti sveitarstjórn að veita styrk til kaupa á dróna, sem nýta á við haustleitir. Spennandi verkefni sem vonandi á eftir að auðvelda smalamennsku, sem getur verið erfið og langdregin í víðfeðmu sveitarfélagi.

Umhverfis og menningarmál

Sett verða upp steinker í vor, á valda staði í Súðavík, með sumarblómum, sem verður hluti af umhverfis- og fegrunarátaki þorpsins. Ráðgert er að klára hönnun og hefja framkvæmdir við göngustígaátak í Súðavík. Eftir framkvæmdir verður samfelldur göngustígur í kringum tjörnina, að tjaldstæðinu í Sumarþorpinu.

Margræddu hvalsporða/hvalveiðisöguverkefni verður lokið með uppsetningu á hvalsporðum umhverfis tjörnina, verður verkefnið samstíga göngustígaframkvæmdum. Þá er hönnun á Torglundi, við hliðina á leikskólanum á samþykktri fjárhagsáætlun.

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er 2 millj. styrkur til sögusýningar sem stefnt er á að setja upp í Súðavík fyrir næsta sumar. Verkefnið verður kynnt frekar í upphafi nýs árs á opnum fundi.

Skipulagsmál

Ráðgert er að klára heildarendurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins á árinu, eins og áður hefur verið minnst á. Með nýju aðalskipulagi verður sveitarfélagið komið með gífurlega vandað og efnismikið stefnumótunarplagg til næstu ára.

Lýðheilsumál.

Verkefnið Heilsueflandi samfélag verður áfram keyrt í sveitarfélaginu. Frítt verður fyrir íbúa sveitarfélagsins í líkamsrækt á Langeyri.

Frístundastyrkir verða greiddir vegna þátttöku barna og unglinga í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Fjárhagsleg afkoma 2018

Gert er ráð fyrir að afkoma samstæðunnar, A og B hluti reksturs Súðavíkurhrepps ,verði jákvæð um 39 milljónir. Þá hækkar handbært fé frá rekstri um 18 milljónir á árinu, gangi áætlun eftir.

Skuldahlutfall samstæðunnar verður 28% og hefur farið lækkandi.

Með kjafti og klóm

Lítil sveitarfélög róa lífróður fyrir tilverurétti sínum þessi misserin. Fjárhagsleg staða þeirra er æði misjöfn, og ljóst er að þau sveitarfélög sem ekki búa við öruggan rekstur eiga erfiða baráttu fyrir höndum, sé vilji til að vernda sjálfstæði sveitarfélagsins.

Fjöregg sveitarfélagsins er í höndum sveitarstjórnar. Séu ekki skýr skilaboð um annað er það meginhlutverk sveitarstjórnar að verja tilverurétt sveitarfélagsins, efla framtíð þess og fjórðungsins og verja velferð íbúa, með kjafti og klóm.

Niðurstaða fjárhagsáætlunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps fyrir árið 2018, atvinnustefna sveitarfélagins, forgangsröðun skólamála, sem og öll önnur verk og vinna kjörtímabilsins, skal lesa með þeirri sannfæringu og einbeitta vilja; með kjafti og klóm!

Staða Súðavíkurhrepps hefur styrkst umtalsvert á kjörtímabilinu, hvort sem það er núverandi staða eða framtíðarmöguleikar. Hins vegar eru krefjandi verkefni framundan, og ekkert í hendi. Það tekur skamma stund að snúa jákvæðri þróun til fyrri vega.

Einn knattspyrnuþálfari orðaði þetta svona; „fyrst þarftu gott líkamlegt form til að eygja möguleika á tímabilinu. Það kostar vinnu. Svo þarftu stórt hjarta og beittan huga til sigra tímabilið. Það kostar vinnu“.

Tímabilið er framundan.

Lifi Súðavíkurhreppur, eflist Vestfirðir, Íslandi allt!

Skrifað í Súðavík, 2. janúar 2018

Pétur G. Markan

Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

Auglýsing

Andri Rúnar í byrjunarliðinu

Andri Rúnar fagnar marki með stæl en hann jafnaði markamet í efstu deild í sumar. Mynd: Fótbolti.net.

Heimir Hallgrímsson hefur tilkynnt byrjunarliðið sitt á móti Indónesíu en leikurinn fer fram á Mandala Krida vellinum í Yogyakarta í dag. Heimir er með þrjá nýliða í byrjunarliði sínu en það eru miðjumennirnir Mikael Neville Anderson, Samúel Kári Friðjónsson og síðast en ekki síst bolvíski  framherjinn Andri Rúnar Bjarnason.

Leikurinn hefst 11.30 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Undirbúningur liðsins fyrir leikinn hefur gengið vel, en liðið kom til Indónesíu á sunnudaginn. Leikmenn eru að venjast tímamismuninum, en hitinn er mikill og því mikið drukkið af vatni. ,,Þetta eru búnar að vera fínar æfingar, allir hafa verið með og enginn er meiddur. Menn hafa náð að sofa ágætlega, en það er náttúrulega erfitt þegar tímamismunurinn er svona mikill og lítill tími til að jafna sig á honum. Við þjálfararnir erum ánægðir með strákana og hvernig þeir hafa svarað þessum fyrstu tveimur æfingum,“ sagði Heimir Hallgrímsson í gær á vef KSÍ.

 

Byrjunarlið Íslands:

 

Markvörður:

Frederik Schram

Vörn:

Viðar Ari Jónsson

Hjörtur Hermannsson

Hólmar Örn Eyjólfsson

Böðvar Böðvarsson

Miðja:

Mikael Neville Anderson

Ólafur Ingi Skúlason (fyrirliði)

Samúel Kári Friðjónsson

Arnór Ingvi Traustason

Sókn:

Albert Guðmundsson

Andri Rúnar Bjarnason

Auglýsing

Nauðsynlegt að bæta raforkuöryggi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Þór­dís Kol­brún Reykfjörð Gylfa­dótt­ir, ferða-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, fagnar nýútkominni skýrslu um raforkuöryggi á Vestfjörðum sem Landvernd lét vinna. Land­vernd leitaði til kanadíska ráðgjafa­fyr­ir­tæk­is­ins METSCO Energy Soluti­ons um vinnslu skýrsl­unn­ar, sem er á ensku. Á meðal niðurstaðna skýrslu­höf­unda er það að tí­falda megiraf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum með því að setja hluta Vest­ur­línu og fleiri lín­ur á sunn­an­verðum Vest­fjörðum í jörð. Hins veg­ar ger­i virkj­un Hvalár lítið til að bæta raf­orku­ör­yggið þar að mati skýrsluhöfunda.

„Ég al­mennt fagna því að fá fram upp­lýs­ing­ar. Skýrslu­gerð og al­menn upp­lýs­inga­öfl­un og -vinna og þegar sér­fræðing­ar kafa ofan í mál hlýt­ur al­mennt að vera af hinu góða. Ég mun bara fara yfir þessa skýrslu og kynna mér efni henn­ar,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún í samtali við blaðamann mbl.is.

Ráðherr­ann seg­ir að þessa dag­ana séu mál­efni fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar ekki á sínu borði. „Hún er auðvitað mikið í umræðunni en málið er áfram bara í ferli. Sveit­ar­fé­lög­in eru að vinna það og þá eru auðvitað eft­ir fleiri leyfi og annað slíkt, en það er ekk­ert sem snýr að þessu ráðuneyti hvað það varðar,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún.

Hún bæt­ir því við að henni þyki sjálfsagt að fólk ræði um kosti og galla allra fram­kvæmda, en Hvalár­virkj­un sé í nýt­ing­ar­flokki rammáætl­un­ar, öðrum áfanga, sem af­greidd­ur hef­ur verið af þing­inu.

Ráðherra segir nauðsynlegt að bæta raf­orku­ör­yggi á Vest­fjörðum til að tryggja sam­keppn­is­hæfni fjórðungs­ins.

„Ég hef verið mjög skýr með það að það er ekki hægt að segja við landsvæði að við vilj­um jöfn tæki­færi fyr­ir alla og að við vilj­um byggð úti um allt land þegar að innviðir, eins og raf­orku­ör­yggi, sam­göng­ur og annað, eru jafn­vel ára­tug­um á eft­ir á ákveðnum svæðum,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún.

Auglýsing

Grænlenskar tónlistarvinnustofur í Vísindaporti

Tasiilaq.

Vísindaport Háskólasetursin hefur göngu sína á nýjan leik á morgun eftir jólafrí.Gestur þessa fyrsta Vísindaports ársins er Jón Gunnar Biering Margeirsson tónlistarmaður og kennari við Tónlistarskólann á Ísafirði. Í erindi sínu kynnir hann meistaraverkefni sitt í tónlist sem fólst í því að nokkrir tónlistarmenn og kennari ferðuðust til Tasiilaq í Grænlandi og buðu upp á tónlistarvinnustofu fyrir unglinga í samstarfi við grunnskólann í Tasiilaq ásamt því að halda tónleika á staðnum.

Jón Gunnar útskrifaðist með B.Mus. í klassískum gítarleik vorið 2009 og MA gráðu í Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (Joint Music Master for New Audiences and Innovative Practise (NAIP) frá Listaháskóla Íslands 2011. Hefur hann verið frumkvöðull í þróun og kennslu skapandi tónlistaráfanga sem nú eru kenndir á háskólastigi. Jón Gunnar hefur áður kennt skapandi tónlistarmiðlun við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og verið bæði stundakennari og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskólans.

Auglýsing

Hvessir í kvöld

Veðurstofan spáir fremur hægri suðlægri átt á Vestfjörðum í dag. Úrkomulítið og hiti nálægt frostmarki. Vaxandi suðaustanátt seinnipartinn með rigningu eða slyddu.

Í hugleiðingum veðurfræðings er varað við vaxandi lægð suðvestur í hafi sem nálgast langið óðfluga og það hvessir af hennar völdum þegar kemur fram á daginn.
Það gengur í suðaustan storm seinnipartinn á Suður- og Vesturlandi. Dregur hratt úr vindi suðvestantil í kvöld, en þá hvessir norðan- og austanlands. Lægðin ber með sér hlýtt loft þannig að úrkoman sem henni fylgir verður á formi rigningar á láglendi. Á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum er spáð mikilli rigningu í kvöld og verður væntanlega úrhelli á þeim slóðum alveg þangað til annað kvöld og því eru líkur á vatnsflóðum á svæðinu.

„Ef við reynum að finna eitthvað jákvætt við veðurspá dagsins, þá má nefna að hlýindin í dag og á morgun ættu víða að vinna bug á hálkunni,“ segir veðurfræðingur Veðurstofunnar.

Auglýsing

Umhverfisráðherra vísiterar Vestfirði

Umhverfisráðherra (t.v.) og Kristian B. Matthíasson bera saman bækur sínar á Bíldudal í gær.

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra hóf í dag þriggja daga ferð um Vest­f­irði þar sem hann mun meðal ann­ars hitta full­trúa sveit­ar­stjórna, at­vinnu­lífs, um­hverf­is­vernd­ar­sam­taka, starfs­menn stofn­ana og heima­fólk sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu.

„Ráðherra vill með heim­sókn­inni kynna sér þau mál sem eru í deigl­unni á lands­svæðinu er tengj­ast mál­efna­sviðum um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is. Má þar nefna skipu­lags­mál, raf­orku­ör­ygg­is­mál, nátt­úru­vernd, sam­göngu­mál, fisk­eldi og fleira,“ seg­ir enn frem­ur.

Ferðin hófst á Bíldu­dal þar sem hann kynnti sér fisk­eld­is­mál áður en hann fundaði á Pat­reks­firði með sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­um frá Vest­ur­byggð og Tálknafirði. Ráðherr­ann mun einnig heim­sækja Reyk­hóla­sveit, Ísa­fjörð og Bol­ung­ar­vík þar sem hann mun funda með fólki víðar af Vest­fjörðum. Þá mun hann eiga fjar­fund með sveit­ar­stjórn­ar­fólki í Árnes­hreppi.

Auglýsing

Stefnt að útboði fyrir páska

Búið er að teikna húsið og svona lítur það út.

Ef áætlanir ganga eftir verður bygging fjölbýlishúss við Sindragötu á Ísafirði boðin út fyrir páska. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að nú sé unnið við að finna út besta eignarhaldsform á húsinu. „Það er óljóst hvort það henti okkur að gera þetta í húsnæðissjálfseignarstofnun og þess vegna erum við í viðræðum við Bjarg hvort þau vilji koma að þessu með okkur,“ segir Gísli.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af ASÍ og BSRB.   Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd.

Alls verða 13 íbúðir í húsinu sem á að byggja á Ísafirði. Tvær íbúðir verða seldar á frjálsum markaði. Ísafjarðarbær fékk samþykkta umsókn um svokallað stofnframlag ríkisins. Markmið með veitingu þeirra er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.

Stofnframlag ríkisins er vegna 11 leiguíbúða í húsinu. Þar af verða fimm sem ætlaðar eru fötluðu fólki og sex sem ætlaðar eru fólki undir tekju- og eignamörkum. Stofnframlagið skiptist í þrennt, 18% er grunnframlag ríkisins, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrests á svæðinu og 4% vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru fötluðum. Alls er stofnframlagið metið á 57 milljónir króna.

Á reitnum sem húsið verður byggt eru tvær lóðir undir fjölbýlishús. Að sögn Gísla Halldórs er draumurinn að verktakinn sem hreppir verkið sjá sér í hag í að reisa aðra blokk á næstu lóð til sölu á frjálsum markaði.

Auglýsing

Baldur er öryggismál

Bæjarráð Vesturbyggðar bendir á að ferðir Breiðafjarðarferjunnar Baldurs er öryggismál yfir háveturinn fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem enn eru ekki öruggar og tryggar samgöngur um Vestfjarðaveg 60. Baldur hefur verið bilaður í hartnær tvo mánuði. Í bókun bæjarráðs segir að ítrekuð röskun á áætlanaferðum skipsins veldur bæði tjóni fyrir fyrirtæki og óöryggi fyrir íbúa sem treysta á reglubundnar ferðir þegar veður eru válynd og greiðar vegasamgöngur óvissar. Jafnframt veldur þessi röskun allmiklum tekjumissi fyrir hafnarsjóð Vesturbyggðar, ferðaþjónustu, fiskvinnslu og atvinnulífið almennt á svæðinu.

Bæjarráð Vesturbyggðar krefst þess að nú þegar verði fundin varanleg lausn með því að ný ferja leysir núverandi skip af hólmi sem engan veginn uppfyllir nútímakröfur um flutninga fólks og vörur á hagkvæman, þægilegan og fljótan hátt.

Auglýsing

Nýjustu fréttir