Hvessir í kvöld

Veðurstofan spáir fremur hægri suðlægri átt á Vestfjörðum í dag. Úrkomulítið og hiti nálægt frostmarki. Vaxandi suðaustanátt seinnipartinn með rigningu eða slyddu.

Í hugleiðingum veðurfræðings er varað við vaxandi lægð suðvestur í hafi sem nálgast langið óðfluga og það hvessir af hennar völdum þegar kemur fram á daginn.
Það gengur í suðaustan storm seinnipartinn á Suður- og Vesturlandi. Dregur hratt úr vindi suðvestantil í kvöld, en þá hvessir norðan- og austanlands. Lægðin ber með sér hlýtt loft þannig að úrkoman sem henni fylgir verður á formi rigningar á láglendi. Á Suðausturlandi og sunnanverðum Austfjörðum er spáð mikilli rigningu í kvöld og verður væntanlega úrhelli á þeim slóðum alveg þangað til annað kvöld og því eru líkur á vatnsflóðum á svæðinu.

„Ef við reynum að finna eitthvað jákvætt við veðurspá dagsins, þá má nefna að hlýindin í dag og á morgun ættu víða að vinna bug á hálkunni,“ segir veðurfræðingur Veðurstofunnar.

DEILA