Fimmtudagur 15. maí 2025
Heim Blogg Síða 2099

Metár í orkuframleiðslu Orkubúsins

Mjólkárvirkjun

Vatnsaflsvirkjanir Orkubúsins framleiddu á árinu 2017 rúmlega 95 GWst, sem er met í 40 ára sögu fyrirtækisins. Síðasta ár var samt ekki afgerandi gott vatnsár, heldur er þetta vegna meiri aflgetu, sem felst í nýjum túrbínum. Þetta kemur fram í pistli Sölva Sólbergssonar, framkvæmdastjóra orkusviðs Orkubúsins á vef OV. Sölvi nefnir til dæmis að fyrir rúmu ári lauk uppsetningu á nýrri vél í Mjólká I haustið 2016.

Nú er endurnýjun gömlu vélanna lokið í Mjólká. Mjólká II var endurnýjuð 2011 og Mjólká III, sem var ný virkjun frá grunni, byggð 2010. Meðaltal síðustu 10 ára fyrir 2011 í Mjólká var 61 GWst, en 2017 var framleiðsla virkjunarinnar 73 GWst. Aflið er nú 11,2 MW en var 8,1 MW. Samanburður á framleiðslu fyrri ára segir því ekki alla söguna.

Fossárvirkjun er annað dæmi um vélaendurnýjun. Nýrri vél var komið fyrir í nýju stöðvarhúsi haustið 2015 og framleiðslan var 5,7 GWst 2016 og 5 GWst 2017. Afl vélarinnar nú 1.200 kW í stað 600 kW áður. Vatnsbúskapurinn, sem er innrennslið í Fossavatn, gaf ekki tilefni til að tvöfalda vélastærðina, en lónið er það stórt að í bilanatilvikum í raforkukerfinu nýttist þetta aukna afl sem varaafl. Þannig gagnast vélin vel til að spara olíu í eldsneytisstöðvum á svæðinu. Meðaltal gömlu vélarinnar á árunum fyrir 2015 var tæpar 4 GWst/ári.

Auglýsing

Segja fullyrðingu Landverndar ranga

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Í yf­ir­lýs­ingu Vest­ur­Verks seg­ir að auk­in orku­fram­leiðsla á svæðinu sé for­senda fyr­ir auknu raf­orku­ör­yggi í fjórðungn­um og að und­ir það taki Landsnet, Orku­bú Vest­fjarða og Fjórðungs­sam­band Vest­f­irðinga fyr­ir hönd vest­firskra sveit­ar­fé­laga. „Því nær sem orkuuppsprettan er notandanum því öruggari er tengingin til notandans vegna styttri flutningsleiða,“ segir í í yfirlýsingu Vesturverks.

Um skýrsluna segir í yfirlýsingu Vesturverks:

„Í skýrslunni er einvörðungu lagt mat á raforkuöryggi út frá tveimur ólíkum kostum í flutningi á raforku – með loftlínum eða með jarðstrengjum. Ekkert mat er lagt á virkjanakosti á Vestfjörðum eða fyrirætlanir VesturVerks um flutning raforku frá Hvalárvirkjun. Hvergi er minnst á með hvaða hætti Hvalárvirkjun mun tengjast flutningskerfi Landsnets. Skýrsluhöfundur nefnir Hvalárvirkjun einungis í einni málsgrein í inngangi skýrslunnar og setur þar fram þá skoðun sína að með loftlínum muni Hvalárvirkjun litlu bæta við raforkuöryggi svæðisins. Þessi skoðun er ekki frekar rökstudd og ekkert efnislegt mat lagt á getu Hvalárvirkjunar til að tryggja raforku til Vestfirðinga.“

Hvalárvirkjun verður tengd með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði yfir í tengimannvirki við Ísafjarðardjúp. Meðal valkosta er að flytja orkuna þaðan með sæstreng yfir Ísafjarðardjúp og leggur Fjórðungssamband Vestfirðinga áherslu á þá leið. Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gert þá kröfu að Vestfirðir verði hringtengdir í gegnum nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi með tengingu til Kollafjarðar og til Ísafjarðar.  „Sú sviðsmynd er ekki skoðuð í skýrslunni,“ segir í yfirlýsingu Vesturverks.

Kostnaður við lagningu tæplega 200 km rafstrengs í jörðu er í skýrslunni áætlaður um 20 milljarðar íslenskra króna. Engar nýjar tekjur munu hljótast af því einu og sér að leggja raflagnir Landsnets og Orkubús Vestfjarða í jörðu og að mati Vesturverks er vandséð að sá kostnaður verði greiddur af öðrum en hinu opinbera.

Auglýsing

Æfir með unglingalandsliðinu

Guðmundur Arnar Svavarsson, leikmaður 3. flokks Vestra, hefur verið kallaður til æfinga með úrtakshópi U-16 liðs Íslands dagana 19.-21. janúar. Guðmundur Arnar hefur ekki náð að festa sig í sessi í lokahópnum en nú gefst tækifærið til að sýna hvað í honum býr og tryggja það að Vestri eigi tvo fulltrúa í landsliðum í langfjölmennustu íþrótt landsins, en Þórður Gunnar Hafþórsson hefur æft með U-17 landsliðinu síðasta misserið.

Um 400 strákar fæddir 2002 eru að æfa fótbolta á landsvísu og er Guðmundur Arnar valinn úr þeim hópi. Því er þetta frábær árangur, enda samkeppnin mikil.

Auglýsing

Orkubúið auglýsir samfélagsstyrkina

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Orkubú Vestfjarða auglýsir eftir umsóknum um samfélagsstyrki 2018, en úthlutun samfélagsstyrkja er orðinn árlegur viðburður hjá fyrirtækinu. Orkubúið vill með styrkjunum sýna stuðning í verki við þá aðila og félög sem sinna ýmsum samfélagsmálum á Vestfjörðum. Þar getur verið um að ræða ýmiskonar starfsemi eða félagasamtök, s.s. björgunarsveitir, íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarfsemi og listir eða einhver önnur áhugaverð verkefni sem skipta máli fyrir vestfirskt samfélag.

Rétt er að minna á að leitast verður við að styrkja verkefni vítt og breitt um Vestfirði. Verkefnin þurfa að uppfylla þau skilyrði að þau séu til eflingar vestfirsku samfélagi, en að öðru leyti er umsækjendum gefnar nokkuð frjálsar hendur varðandi verkefni. Miðað er við að einstakar styrkveitingar geti verið á bilinu 50 til 500 þúsund krónur.

Umsóknarfrestur er til og með 21. janúar 2018

Auglýsing

„Maður er náttúrlega vanur mýrarboltanum“

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

„Það var draumi líkast að ná að skora í fyrsta landsleiknum, það var líka mikill léttir eftir að hafa klúðrað vítaspyrnunni. Að ná að koma til baka og skora,“ sagði bolvíski fótboltamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason eftir landsleikinn við Indónesíu í gær. Andri Rúnar lék sinn fyrsta landsleik og skoraði opnunarmark Íslands í 6-0 sigri. Fótbolti.net ræddi við hann að loknum leik.

Ausandi rigning var í Yogakarta í gær og erfiðar aðstæður og dómarinn stöðvaði leikinn um tíma vegna vatnselgsins og í seinni hálfleik var völlurinn orðinn einn stór vatnspollur. Andri Rúnar lék ekki í síðari hálfleik og var með svar á reiðum höndum þegar blaðamaður fótbolta.net spyr hvort hann hafi ekki verið hálf feginn að sleppa við að spila seinni hálfleikinn í ljósi ástands vallarins. „Maður er náttúrulega vanur mýrarboltanum á Ísafirði og það hefði verið fínt að taka þátt! En já þetta voru erfiðar aðstæður, pollar um allt, en við gerðum virkilega vel í seinni hálfleik. Við skoruðum fimm mörk í þessum aðstæðum sem er virkilega vel gert.“

Auglýsing

Hvessir á ný seinnipartinn

Veðurstofan spáir suðaustanátt á Vestfjörðum framan af degi, 10-15 m/s. Hiti 2 til 7 stig og suðvestan 13-20 m/s seinnipartinn í dag og heldur svalara og slydduél.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun er útlit fyrir suðvestan strekking eða allhvassan vind og með fylgja él eða skúrir. Það léttir til um landið norðaustanvert. Hitinn þokast niðurávið og verður ekki mikið yfir frostmarki. Annað kvöld verður úrkoman orðin samfelldari, það bætir í vindinn og fer að kólna meira. Aðfaranótt sunnudags og á sunnudaginn mun því snjóa nokkuð víða um land samfara stífum vindi.

Langtímaspár gera síðan ráð fyrir að norðanátt ráði ríkjum í næstu viku með frosti á öllu landinu og ofankomu norðanlands.

Auglýsing

Fjalla um aukna greiðsluþátttöku ríkisins

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp til að fjalla um aukna greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum lífeyrisþega. Hálfur milljarður króna er til ráðstöfunar í þessu skyni samkvæmt fjárlögum 2018.

Samkvæmt reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði við tannlækningar ætti greiðsluþátttaka ríkisins í kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar að nema 75% að jafnaði og vera einstaklingum á hjúkrunarheimilum að kostnaðarlausu.

Greiðsluhlutfallið sem kveðið er á um í reglugerðinni tekur mið af gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga lífeyrisþega sem hefur verið óbreytt frá árinu 2004. Hún endurspeglar því engan veginn raunverulegan tannlækniskostnað lífeyrisþega sem greiða samkvæmt gjaldskrá starfandi tannlækna. Í raun nema því greiðslur ríkisins að jafnaði um fjórðungi af þeim kostnaði sem lífeyrisþegar greiða fyrir tannlækningar.

Starfshópurinn sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að skipa mun fá það hlutverk að móta tillögur um hvernig tryggja megi að fjárframlög vegna kostnaðar aldraðra og öryrkja við tannlæknaþjónustu nýtist sem best, svo tryggja megi að þörfum lífeyrisþega fyrir tannlæknaþjónusta verði sinnt.

Fyrsta skref í lækkun tannlæknakostnaðar lífeyrisþega verður stigið eftir mitt þetta ár en með fjárlögum 2018 var ákveðið að auka framlög til þessa verkefnis um hálfan milljarð króna.

Auglýsing

Segja skýrslu Landverndar óraunhæfa og villandi

Landsnet fagnar umræðu um bætt afhendingaröryggi og uppbyggingu á raforkukerfinu á Vestfjörðum. Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Metsco vann fyrir  Landvernd  um raforkukerfið á Vestfjörðum er fjallað um áreiðanleika flutningskerfisins á svæðinu. Í tilkynningu frá Landsneti segir að tillögur sem koma fram í skýrslunni um að leggja stóran hluta kerfisins í jörðu séu óraunhæfar og villandi.

Tæknilegar hindranir koma í veg fyrir að hægt sé að leggja allar línur í jörð, að sögn Landsnets og er ólíkur styrkur kerfisins milli landsvæða  meginástæða þess að svigrúm til jarðstrengslagna er mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt er meira rými til þess heldur en þar sem styrkurinn er lítill.

„Á Vestfjörðum er kerfið hvað veikast á landinu. Vesturlínan er um 160 km, frá Hrútatungu að Mjólká og áætlað er að hægt sé að leggja um 15 – 20 km af henni í jörðu.  Fyrir nokkrum árum var lagður 12 km langur jarðstrengur í Bolungarvíkurgöng. Við rekstur á jarðstrengnum hefur reynt á þolmörk kerfisins og því hefur Landsnet góðar upplýsingar um styrk kerfisins á svæðinu,“ segir í tilkynningunni og að í skýrslunni sem Metsco gerði fyrir Landvernd sé ekki fjallað um þessa takmörkun á lengd jarðstrengja heldur gert ráð fyrir að hægt sé að leggja jarðstrengi á alla Vestfirði sem er óraunhæft.  „Staðreyndin er að einungis er hægt að leggja hluta kerfisins í jörð og því fullyrðingar um að hægt sé að tífalda afhendingaröryggi á Vestfjörðum með jarðstrengjum villandi.“

Á það er bent að Landsnet hafi verið unnið að styrkingu á flutningskerfinu á Vestfjörðum undanfarin ár, til dæmis með byggingu varaaflsstöðvar í Bolungarvík og lagningu jarðstrengs í Bolungarvíkurgöng.  Að auki er  unnið að undirbúningi hringtengingar á milli norður – og suðurfjarðanna, meðal annars með sæstreng yfir Arnarfjörð og lagningu á jarðstreng í gegnum Dýrafjarðargöng. Í hringtengingunni er lögð áhersla á að nota jarðstrengi eins mikið og kostur er vegna aðstæðna.

Auglýsing

Ilmol­í­ur eru hættu­leg­ar fyr­ir gæludýrdýr

Ilmol­í­ur á heim­il­um geta verið skaðleg­ar gælu­dýr­um einkum kött­um. Mik­il­vægt er að gælu­dýra­eig­end­ur tak­marki notk­un á skaðleg­um ilmol­í­um og aðgang gælu­dýra að þeim.

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Mat­væla­stofn­un sem jafn­framt vara gælu­dýra­eig­end­ur við mik­illi notk­un þar sem gælu­dýr eru hald­in og ráðlegg­ur þeim að skoða vel hvort þær teg­und­ir af ol­í­um sem er verið að nota gætu verið skaðleg­ar fyr­ir gælu­dýr­in.

Vin­sælt er að nota alls kyns ilmol­í­ur á heim­il­um. Þar finn­ast þær ým­ist í opn­um flösk­um, raka­tækj­um, ilm­kert­um eða er úðað út í and­rúms­loftið.

Auglýsing

Skoraði í sínum fyrsta landsleik

Andri Rúnar skoraði með bakfallsspyrnu eftir hræðileg mistök indónesíska markvarðarins.

Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason skoraði í sínum fyrsta landsleik þegar íslenska karlalandsliðið vann stórsigur á Indónesíu í æfingarleik dag. Leiknum lauk með 6-0 sigri.  Andri Rúnar kom Íslandi yfir á 30. mínútu og var staðan í hálfleik 1-0 fyrir Ísland. Andri Rúnar gat komið Íslandi yfir á 13. mínútu úr vítaspyrnu en markvörður Indónesíu varði frá honum.

Srax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Kristján Flóki Finnbogason gott skallamark eftir aukaspyrnu frá Alberti Guðmundssyni. Á 55. mínútu þurfti dómari leiksins að stöðva leikinn vegna þrumuveðurs sem skyndilega skall á en leikurinn hélt áfram um stundarfjórðungi síðar.

Óttar Magnús Karlsson var svo einn þeirra sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í dag en hann kom Íslandi í 3-0 á 65. mínútu. Þá fóru mörkin að hrannast inn en þremur mínútum síðar komst Tryggvi Hrafn Haraldsson á blað þegar hann kom Íslandi í 4-0.

Miðvernirnir tveir, Hjörtur Hermannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson, bættu svo við mörkum fyrir Ísland og lokatölur í Indónesíu 6-0. Hjörtur og Hólmar með sín fyrstu mörk fyrir A-landsliðið.

Auglýsing

Nýjustu fréttir