Stefnt að útboði fyrir páska

Búið er að teikna húsið og svona lítur það út.

Ef áætlanir ganga eftir verður bygging fjölbýlishúss við Sindragötu á Ísafirði boðin út fyrir páska. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að nú sé unnið við að finna út besta eignarhaldsform á húsinu. „Það er óljóst hvort það henti okkur að gera þetta í húsnæðissjálfseignarstofnun og þess vegna erum við í viðræðum við Bjarg hvort þau vilji koma að þessu með okkur,“ segir Gísli.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af ASÍ og BSRB.   Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að danskri fyrirmynd.

Alls verða 13 íbúðir í húsinu sem á að byggja á Ísafirði. Tvær íbúðir verða seldar á frjálsum markaði. Ísafjarðarbær fékk samþykkta umsókn um svokallað stofnframlag ríkisins. Markmið með veitingu þeirra er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu.

Stofnframlag ríkisins er vegna 11 leiguíbúða í húsinu. Þar af verða fimm sem ætlaðar eru fötluðu fólki og sex sem ætlaðar eru fólki undir tekju- og eignamörkum. Stofnframlagið skiptist í þrennt, 18% er grunnframlag ríkisins, 6% viðbótarframlag vegna markaðsbrests á svæðinu og 4% vegna þeirra íbúða sem ætlaðar eru fötluðum. Alls er stofnframlagið metið á 57 milljónir króna.

Á reitnum sem húsið verður byggt eru tvær lóðir undir fjölbýlishús. Að sögn Gísla Halldórs er draumurinn að verktakinn sem hreppir verkið sjá sér í hag í að reisa aðra blokk á næstu lóð til sölu á frjálsum markaði.

DEILA