Mánudagur 19. maí 2025
Heim Blogg Síða 2086

Suðlægar áttir og éljagangur í dag

Suðvestan 10-18 með éljum um landið vestanvert. Suðaustan 13-20 m/s og víða rigning eða slydda á láglendi austantil og snjókoma fyrir norðan fram yfir hádegi, en léttir síðan til á NA- og A-landi og kólnar aftur. Heldur hægari á morgun, einkum annað kvöld. Víða vægt frost.

Útlit er fyrir lægðagang um helgina, en hvar lægðin kemur upp að landinu er ennþá óvíst og minniháttar breytingar geta gefið miklar breytingar í veðurspá og í hugleiðingum veðurfræðings er fólk hvatt til að fylgjast vel með spám er nær dregur helgi.

Færð á vegum

Flestir fjallvegir á Vestfjörðum eru ófærir eða þungfærir en alls staðar er unnið að mokstri. Þungfært er á Barðaströnd og þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi.

Veðurhorfur næstu daga

Á fimmtudag:
Suðvestan 8-15 m/s og éljagangur, en bjartviðri eystra. Frost 0 til 10 stig, minnst með S- og A-ströndinni.

Á föstudag:
Suðvestlæg átt, allhvöss syðst, en annars hægari. Víða él, einkum V-til, en snýst í vaxandi austanátt S-lands um kvöldið og fer að snjóa þar. Frost um land allt.

Á laugardag:
Gengur líklega í allhvassa eða hvassa norðaustlæga átt með snjókomu eða éjagangi, einkum við N-ströndina. Dregur úr frosti í bili.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Útlit fyrir órólegt og kalt veður með úrkomu í öllum landshlutum.

Auglýsing

Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur

Ísófónía Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Ífebrúar ár hvert er Dagur tónlistarskólanna haldinn hátíðlegur víða um land. Hjá Tónlistarskóla Ísafjarðar verður þessum degi fagnað á laugardaginn með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju kl. 14. Þessi hátíð er árviss viðburður hjá skólanum og jafnan beðið með mikilli eftirvæntingu hjá nemendum, kennurum og forráðamönnum.

Dagskráin er fjölbreytt og skemmtileg og koma þar fram stærri samspils og sönghópar skólans. Að þessu sinni gegna lúðrasveitir og kórar skólans stóru hlutverki á tónleikunum. Unglingasöngdeildin syngur 2 lög ásamt þeim Kötlu Vigdísi og Ásrósu í Between Mountains, annað lagið er sérstaklega samið af þessu tilefni og því frumflutningur. Nemendur frá útibúi skólans Þingeyri koma fram í rytmísku samspili.

Hápunktur tónleikanna er Ísófónían sem leikur og syngur tvö lög undir stjórn Madis Mäekalle. Í Ísófóníunni leiða saman hesta sína stór hluti nemenda frá öllum starfstöðvum Tónlistarskóla Ísafjarðar (Ísafirði, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri) svo úr verður mikil hljómkviða flutt af gleði og ánægju.

Á Íslandi eru starfrækti um 90 tónlistarskólar. Hjá þeim starfa um 900 kennarar og nemendur eru um 15.000 talsins. Fyrstu lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla voru sett 1963 og er nú kennt eftir samræmdum námsskrám sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út. Í skólunum eiga nemendur kost á fjölbreyttu tónlistarnámi og gegna skólarnir mikilvægu hlutverki í menningarlífi hvers byggðarlags.

Tónlistarskóli Ísafjarðar er einn af elstu skólum landsins. Nemendur hans og kennarar koma fram við ótal mörg tækifæri og setja svo sannarlega svip sinn á menningarlíf í Ísafjarðarbæ. Skólinn hefur ávallt notið velvilja bæjarbúa og bæjaryfirvalda og býður alla hjartanlega velkomna á tónleikana nú sem fyrr.

Aðgangseyrir að tónleikunum er 500 krónur og rennur hann óskiptur til hljóðfærakaupa. Frítt fyrir börn undir 18 ára og ellilífeyrisþega.

Auglýsing

Bjartsýnn á lausn málsins

Eggert að stjórna brekkusöng á varðeldi á Bláberjadögum í Súðavík, bæjarhátíðinni þar sem hann hefur staðið í stafni.

Stefán Árni Auðólfsson lögmaður Eggerts Einers Nielson er bjartsýnn að Eggert fái íslenskan ríkisborgararétt. BB.is greindi fyrr í dag frá synjun Alþingis á beiðni Eggerts um ríkisborgarétt. Mál Eggerts er sérstakt fyrir þær sakir að Eggert er fæddur á Íslandi og móðir hans var íslenskur ríkisborgari og fyrstu sjö ár ævinnar bjó hann á Íslandi.

Í fyrstu grein laga um ríkisborgararétt segir að barn öðlast ríkisborgararétt við fæðingu ef móðir eða faðir er íslenskur ríkisborgari. En núgildandi lög voru ekki í gildi árið 1957 þegar Eggert fæddist á Landspítalanum í Reykjavík. Í því samfélagi þótti sjálfsagt að ríkisborgararétturinn fylgdi föðurnum, en ekki móður. Faðir Eggerts var danskur. Ekki fékk hann þó danskan ríkisborgararétt því eftir sjö ára búsetu í Reykjavík fluttist fjölskyldan til Bandaríkjanna þar sem Eggert fékk þarlendan ríkisborgararétt.

Á samfélagsmiðlum hafa samborgarar Eggerts á Ísafirði og í Súðavík sem og víðar tekið undir vonbrigði hans með málalyktir Alþingis og lýsa flestir yfir furðu sinni og einörðum stuðningi við Eggert.

Á vef DV er rætt við Stefán Árna lögmann Eggerts og hann segir að nú sé verið að vinna í þvði að endurnýja dvalarleyfið og hann telur möguleika á að hann fái ríkisborgararétt á þessu ári.

Hann á ekki von á því að Eggerti og fjölskyldu hans verði vísað úr landi en þau gætu lent í erfiðleikum ef þau færu erlendis í frí og reyndu að komast aftur inn í landið. „Brottvísun er alltaf yfirvofandi fyrir fólk eins og hann, hann er ekki fullgildur ef eitthvað kemur upp á. Þetta er erfið staða en vonandi þá bjargast þetta allt. Það er erfiðara með konuna hans og soninn, það vantaði meira af upplýsingum og gögnum og það hefur tafist,“ segir Stefán Árni.

Auglýsing

Syngjandi skemmtilegt ævintýraferðalag

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en í ellefu sumur hefur hópurinn ferðast með útileiksýningar út um allt land. Á hverju ári setur hópurinn upp nýjar sýningar, sýningar sem allar hafa slegið í gegn og eru enn spilaðar af geislaplötum á fjöldamörgum heimilum.

Núna hefur Lottan ákveðið að dusta rykið af þessum gömlu sýningum og endurvekja þær, 10 árum síðar og nú innandyra og förinni verður meðal annars haldið vestur á firði.
Byrjað verður á byrjuninni, á Galdrakarlinum í Oz sem er fyrsta verkið sem sérstaklega var skrifað fyrir Lottu. Leikhópurinn Lotta sýnir Galdrakarlinn i Oz í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á laugardaginn kl. 15.

Flestir þekkja söguna af ævintýralegu ferðalagi Kansasstúlkunnar Dórótheu og Tótó, hundinum hennar, til ævintýralandsins Oz. Þar kynnist hún heilalausu Fuglahræðunni, hjartalausa Pjáturkarlinum og huglausa Ljóninu auk þess sem hún lendir í klóm vondu Vestannornarinnar. Dóróthea og vinir hennar lenda í allskyns hremmingum og þurfa að leita á náðir Galdrakarlsins ógurlega í Oz. Spurningin er núna hvort Galdrakarlinn getur hjálpað Dórótheu að komast aftur heim til sín og vinum hennar að fá það sem þá svo sárlega vantar.

Auglýsing

Aldrei fór ég suður og Skjaldborg tilnefndar til Eyrarrósarinnar

Rokkhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði og heimildamyndahátíðin Skjaldborg á Patreksfirði eru tilnefndar til Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, nánar tiltekið á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005. Auk viðurkenningarinnar sem felst í Eyrarrósinni fylgja henni peningaverðlaun.

Aldrei fór ég suður hlaut Eyrarrósina árið 2008. Verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú.

Á Eyr­ar­rós­arlist­an­um í ár eru:

  • Aldrei fór ég suður, Ísaf­irði
  • Alþjóðlega kvik­mynda­hátíðin Norðan­átt­in (Not­hern Wave), Snæ­fells­bæ
  • Fersk­ir vind­ar – alþjóðleg lista­hátíð í Garði
  • LungA skól­inn, Seyðis­firði
  • Rúllandi snjó­bolti, Djúpa­vogi
  • Skjald­borg, hátíð ís­lenskra heim­ilda­mynda, Pat­reks­firði

 

Auglýsing

„Ég er Íslendingur af holdi og blóði“

Eggert að stjórna brekkusöng á varðeldi á Bláberjadögum í Súðavík, bæjarhátíðinni þar sem hann hefur staðið í stafni.

Eggert Einer Nielson hefur sett svip sinn á mannlífið í Súðavík og á Ísafirði frá því hann flutti til landsins fyrir sjö árum. Eggert er Íslendingur, um það þarf ekki að efast þrátt fyrir að þunglamaleg stjórnsýslan segi annað og Alþingi hafi synjað honum um ríkissborgararétt. Í kjölfar synjunar Alþingis hefur hann ákveðið að yfirgefa landið.

Eggert fæddist á Íslandi, móðir hans íslensk og faðirinn danskur. „Ég er fæddur á Landspítalanum í Reykjavík árið 1957 og bjó á Íslandi þangað til ég var sjö ára þegar við fluttumst til Bandaríkjanna eftir að pabba bauðst vinna þar,“ segir Eggert. Hann á stóran frændgarð á Íslandi og eftir tvítugsaldurinn kom hann á hverju ári til Íslands. „Ég kom alltaf í nóvember á afmæli ömmu minnar og var í sirka viku. Svo fyrir ellefu árum keyptum við Michelle okkur hús á Íslandi og fyrir sjö árum stigum við skrefið til fulls og fluttumst til Íslands. Fyrst bjuggum við í Súðavík og fluttumst síðar til Ísafjarðar eftir að við keyptum Gúttó.“

Sonur þeirra, Eggert, gekk í efstu bekki grunnskólans á Íslandi og síðar í Menntaskólann á Ísafirði. Eggert og Michelle hafa verið áberandi í bæjarbragnum, bæði á Ísafirði og í Súðavík. Eggert hefur mest starfað fyrir Súðavíkurhrepp, sinnt skólaakstri, tónlistarkennslu og smíðakennslu. Einnig hefur hann starfað fyrir FabLab á Ísafirði. Eggert og Michelle eru tónlistarfólk fram í fingurgóma og hafa verið prímusmótorar Bláberjadaga, bæjarhátíð Súðavíkur, ásamt því að koma fram og spila á fjölda viðburða, bæði stórra og smárra.

Eggert, Eggert yngri og Michelle.

Það er ekki svo að honum hafi verið vísað úr landi þegar honum var synjað um ríkisborgararétt. „En ég get ekki annað en hugsað að ég er ekki velkominn hér. Útlendingastofnun lætur mig fara í gegnum sama stappið ár eftir ár. Ég fæ landvistar- og atvinnuleyfi til eins árs. Í júlí hvert ár þarf ég að sækja um atvinnuleyfi og þarf að skila inn alls konar gögnum. Þá liggur oft ekki fyrir hversu mikið ég verð að vinna í skólanum, það kemst stundum ekki á hreint fyrr en í september.“

Eggert taldi alltaf að það væri ekkert mál fyrir sig að sækja um ríkisborgararétt, þar sem hann fæddist á Íslandi og móðirin íslensk. „Mér er tjáð að ríkisborgararétturinn hafi í þá daga fylgt föðurnum. Þetta breyttist árið 1960 en ég er fæddur 1957. Þar sem pabbi var danskur var mér bent á að sækja um danskan ríkisborgararétt og ég kannaði það en ég hefði þurft að gera það áður en ég varð 22 ára. En málið er fyrst og fremst að ég er ekki Dani, ég er Íslendingur.“

Eggert verður mjög leiður þegar hann ræðir þetta. Honum finnst að Ísland – hans ættjörð – sé að hafna honum og vilji helst losna við hann. „Þeir geta kannski synjað mér um ríkisborgararétt en ég verð alltaf Íslendingur. Ég er Íslendingur af holdi og blóði, ég heiti íslensku nafni og hér er mín fjölskylda. Þeir geta ekki tekið það frá mér,“ segir Eggert Einer Nielson.

SaveSave

Auglýsing

Fróðleg erindi á Bókaspjalli

Safnahúsið á Ísafirði.

Fyrsta Bókaspjall ársins verður á laugardaginn í Bókasafninu á Ísafirði. Tvö erindi verða á dagskrá. Helgi Hjálmtýsson, markaðs- og kynningarfulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar spjallar um bækur sem hafa skipt hann máli. Arnhildur Lilý Karlsdóttir, bókmenntafræðingur og starfsmaður Blábankans á Þingeyri, fjallar um nýju kómedíuna í Grikklandi til forna og áhrif hennar á þróun skáldskapar. Á 6. öld fyrir Krist urðu gríðarlegar samfélagslegar breytingar í Grikklandi til forna. Gamanleikjaformið tók í kjölfarið skörpum breytingum sem síðar átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á skáldsagnaformið.

Bókaspjallið hefst kl. 14.

Auglýsing

Teigsskógur: ákvörðun liggi fyrir þann 8. mars

Strandlína Teigsskógs.

Reykhólahreppur hefur frá því um mitt síðasta ár unnið að breytingu á aðalskipulagi hreppsins sem gerir ráð fyrir nýrri veglínu í Gufudalssveit. Sveitarstjórn Reykhólahrepps er með tvær veglínur til skoðunar, Þ-H leið um Teigsskóg sem þverar Djúpafjörð og Gufufjörð, og leið D2 sem fer í jarðgöngum undir Hjallaháls.

Í desember kynnti Reykhólahreppur vinnslutillögðu aðalskipulagsins með báðum veglínum, en hin endanlega tillaga mun innihalda eina veglínu og bíða Vestfirðingar sem og aðrir landsmenn spenntir eftir niðurstöðu hreppsins.

Upphaflega átti ákvörðun hreppsins að liggja fyrir í byrjun ársins en Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að ákvörðunartöku hafi verið frestað þar til á fundi sveitarstjórnar þann 8. mars. „Við ákváðum að hitta nokkra aðila áður en við myndum taka lokahnykkinn á skipulagstillögu sem inniheldur eina leið,“ segir Ingibjörg Birna. Fyrir helgi fundaði Reykhólahreppur með samgönguráðherra og í vikunni er fundur með Vegagerðinni.

Auglýsing

Dregur úr vindi í dag

Það verður hæglætisveður í dag en tekur að hvessa seint í kvöld og nótt.

Nokkuð hefur snjóað vestra frá því í gær. Veðurstofan spáir áframhaldandi vestlægu áttum fram eftir degi, en nokkkuð dregur úr vindi og úrkomu. Vaxandi suðaustanátt í kvöld, 13-18 m/s og fer að snjóa. Frost 1-6 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að seint í nótt snúist hann aftur í suðvestanátt og verður hún viðloðandi fram eftir föstudegi, en á laugardag er von á næstu lægð.

Færð á vegum

Hálka er á láglendisvegum á Vestfjörðum og snjóþekja á fjallvegum.

Auglýsing

Eykur gagnsæi og þátttöku almennings

Frá opnun samráðsgáttarinnar.

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra, og Sig­ríður Á. And­er­sen, dóms­málaráðherra, opnuðu í gær nýja sam­ráðsgátt stjórn­valda á vef­slóðinni samrads­gatt.is­land.is. Mark­mið sam­ráðsgátt­ar­inn­ar er að auka gagn­sæi og mögu­leika al­menn­ings og hags­munaaðila á þátt­töku í stefnu­mót­un, reglu­setn­ingu og ákv­arðana­töku op­in­berra aðila.

Þar er á ein­um stað hægt að finna mál ráðuneyta sem birt hafa verið til sam­ráðs við al­menn­ing, svo sem drög að laga­frum­vörp­um.
Í til­kynn­ingu á vef stjórn­ar­ráðsins kem­ur fram að öll­um sé frjálst að senda inn um­sögn eða ábend­ingu og jafn­framt er mögu­legt að ger­ast áskrif­andi að sjálf­virkri vökt­un upp­lýs­inga, hvort held­ur er eft­ir mál­efna­sviði, stofn­un eða til­teknu máli. Að sam­ráðstíma­bili loknu er gerð grein fyr­ir úr­vinnslu at­huga­semda og niður­stöðu máls. Lögð er áhersla á skýra fram­setn­ingu og auðvelda notk­un.

Sam­ráðsg­átt­in er ætluð bæði al­menn­ingi og hags­munaaðilum, svo sem í at­vinnu­lífi, fé­laga­sam­tök­um og fræðasam­fé­lagi. Fyrst um sinn munu ein­ung­is ráðuneyti setja inn mál til sam­ráðs en lík­legt er að rík­is­stofn­an­ir og e.t.v. fleiri aðilar muni bæt­ast við síðar.

Auglýsing

Nýjustu fréttir