Mánudagur 19. maí 2025
Heim Blogg Síða 2087

Fróðleg erindi á Bókaspjalli

Safnahúsið á Ísafirði.

Fyrsta Bókaspjall ársins verður á laugardaginn í Bókasafninu á Ísafirði. Tvö erindi verða á dagskrá. Helgi Hjálmtýsson, markaðs- og kynningarfulltrúi Bolungarvíkurkaupstaðar spjallar um bækur sem hafa skipt hann máli. Arnhildur Lilý Karlsdóttir, bókmenntafræðingur og starfsmaður Blábankans á Þingeyri, fjallar um nýju kómedíuna í Grikklandi til forna og áhrif hennar á þróun skáldskapar. Á 6. öld fyrir Krist urðu gríðarlegar samfélagslegar breytingar í Grikklandi til forna. Gamanleikjaformið tók í kjölfarið skörpum breytingum sem síðar átti eftir að hafa djúpstæð áhrif á skáldsagnaformið.

Bókaspjallið hefst kl. 14.

Auglýsing

Teigsskógur: ákvörðun liggi fyrir þann 8. mars

Strandlína Teigsskógs.

Reykhólahreppur hefur frá því um mitt síðasta ár unnið að breytingu á aðalskipulagi hreppsins sem gerir ráð fyrir nýrri veglínu í Gufudalssveit. Sveitarstjórn Reykhólahrepps er með tvær veglínur til skoðunar, Þ-H leið um Teigsskóg sem þverar Djúpafjörð og Gufufjörð, og leið D2 sem fer í jarðgöngum undir Hjallaháls.

Í desember kynnti Reykhólahreppur vinnslutillögðu aðalskipulagsins með báðum veglínum, en hin endanlega tillaga mun innihalda eina veglínu og bíða Vestfirðingar sem og aðrir landsmenn spenntir eftir niðurstöðu hreppsins.

Upphaflega átti ákvörðun hreppsins að liggja fyrir í byrjun ársins en Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að ákvörðunartöku hafi verið frestað þar til á fundi sveitarstjórnar þann 8. mars. „Við ákváðum að hitta nokkra aðila áður en við myndum taka lokahnykkinn á skipulagstillögu sem inniheldur eina leið,“ segir Ingibjörg Birna. Fyrir helgi fundaði Reykhólahreppur með samgönguráðherra og í vikunni er fundur með Vegagerðinni.

Auglýsing

Dregur úr vindi í dag

Það verður hæglætisveður í dag en tekur að hvessa seint í kvöld og nótt.

Nokkuð hefur snjóað vestra frá því í gær. Veðurstofan spáir áframhaldandi vestlægu áttum fram eftir degi, en nokkkuð dregur úr vindi og úrkomu. Vaxandi suðaustanátt í kvöld, 13-18 m/s og fer að snjóa. Frost 1-6 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að seint í nótt snúist hann aftur í suðvestanátt og verður hún viðloðandi fram eftir föstudegi, en á laugardag er von á næstu lægð.

Færð á vegum

Hálka er á láglendisvegum á Vestfjörðum og snjóþekja á fjallvegum.

Auglýsing

Eykur gagnsæi og þátttöku almennings

Frá opnun samráðsgáttarinnar.

Katrín Jak­obs­dótt­ir, for­sæt­is­ráðherra, og Sig­ríður Á. And­er­sen, dóms­málaráðherra, opnuðu í gær nýja sam­ráðsgátt stjórn­valda á vef­slóðinni samrads­gatt.is­land.is. Mark­mið sam­ráðsgátt­ar­inn­ar er að auka gagn­sæi og mögu­leika al­menn­ings og hags­munaaðila á þátt­töku í stefnu­mót­un, reglu­setn­ingu og ákv­arðana­töku op­in­berra aðila.

Þar er á ein­um stað hægt að finna mál ráðuneyta sem birt hafa verið til sam­ráðs við al­menn­ing, svo sem drög að laga­frum­vörp­um.
Í til­kynn­ingu á vef stjórn­ar­ráðsins kem­ur fram að öll­um sé frjálst að senda inn um­sögn eða ábend­ingu og jafn­framt er mögu­legt að ger­ast áskrif­andi að sjálf­virkri vökt­un upp­lýs­inga, hvort held­ur er eft­ir mál­efna­sviði, stofn­un eða til­teknu máli. Að sam­ráðstíma­bili loknu er gerð grein fyr­ir úr­vinnslu at­huga­semda og niður­stöðu máls. Lögð er áhersla á skýra fram­setn­ingu og auðvelda notk­un.

Sam­ráðsg­átt­in er ætluð bæði al­menn­ingi og hags­munaaðilum, svo sem í at­vinnu­lífi, fé­laga­sam­tök­um og fræðasam­fé­lagi. Fyrst um sinn munu ein­ung­is ráðuneyti setja inn mál til sam­ráðs en lík­legt er að rík­is­stofn­an­ir og e.t.v. fleiri aðilar muni bæt­ast við síðar.

Auglýsing

Grófu 67 metra í síðustu viku

Í síðustu viku voru grafnir 67 metrar í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 5 var 1.113 metrar, sem er 21 prósent af heildarlengd ganganna.

Grafið var í gegnum 9 metra breiðan berggang sem lá nokkuð þvert á göngin. Beggja vegna við bergganginn var nokkuð brotið basalt og vottur af karga í þekju. Sem fyrr var nokkuð af vatni að leka í göngin.

Lítill hluti efnis úr göngunum var notaður í vegfyllingar en mest var haugsett til síðari nota. Haldið var áfram með vegfyllingar í suður þar sem nýi vegurinn fer neðan við núverandi veg sem er í námunda við Borg og styttist í að vegagerð hefjist neðan við hús Mjólkárvirkjunar.

Á myndinni er verið að grauta bergbolta og má sjá vatn leka úr drenholum.

Auglýsing

„Þokumst nær endamarkinu“

Páll Pálsson ÍS 102.

Áhugamenn um vestfirskan sjávarútveg fylgjast flestir ef ekki allir með Facebook-síðu nýja Páls Pálssonar ÍS sem er í smíðum í Kína. Um helgina var greint frá á síðunni að nú sé farið að styttast í afhendingu á togaranum. „Þetta er að styttast og við erum að þokast nær endamarkinu,“ segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. Hann segir ekki tímabært að nefna dagsetningu á afhendingu. „Þegar maður hefur ekki fulla stjórn á atburðarásinni er betra að vera ekki með stórar yfirlýsingar. En þetta er að styttast og það er ágætis gangur í þessu núna hjá Kínverjunum,“ segir hann.

Þann 16. febrúar eru áramót í Kína og ár hanans kveður og ár hundsins tekur við. Kínverjar taka áramótin mjög alvarlega og dagana fyrir og eftir áramótin eru mikil hátíðarhöld. „Efnahagslífið í Kína fer í hægagang í kringum áramótin og það gæti haft einhver áhrif á afhendinguna,“ segir Einar Valur.

Bæði Páll og systurskipið Breki VE fóru í þurrkví í skipasmíðastöðinni fyrir nokkrum dögum. Er verið að þrífa þá og botnhreinsa til að togararnir verði klárir til afhendingar.

Þegar Páll kemur til Ísafjarðar, með hækkandi sól eins og Einar Valur orðar það, tekur við vinna á millidekki og í lest. „Það var gengið frá því snemma í ferlinu að búnaðurinn kæmi frá 3X og þeir eru byrjaðir að smíða búnaðinn hér heima og setja hann svo upp þegar skipið kemur heim,“ segir Einar Valur.

Auglýsing

Kaldur janúar

Kaldara var á landinu að meðaltali í janúar en allan síðasta áratug. Þó var umhleypingasamt. Mesta frost í mánuðinum mældist 25,6 stig, en hæst fór hitinn hins vegar í 12,5 stig. Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofunnar um tíðarfarið í janúar. Í Bolungarvík var meðalhitinn 0,0 gráður en í Reykjavík -0,2 gráður. Hitinn í veðurstöðinni í Bolungarvík var 0,6 gráðum undir meðallagi síðustu tíu ára og 1,1 gráðu yfir meðalhita áranna 1961-1990.

Mesta frost í mánuðinum var 25,6 stig, í Svartárkoti og við Mývatn, en mesti hitinn 12,5 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Af öllum veðurstöðvum var meðalhitinn hæstur í Surtsey, 2,8 stig, en lægstur á Sandbúðum -6,9 stig, talsverður munur þar á milli.

Auglýsing

Umtalsvert dýrara að byggja við íþróttahúsið

Teikning af knattspyrnuhúsi á Torfnesi úr skýrslu Vestra um knattspyrnuhús á Ísafirði.

Ljóst er að umtalsvert dýrara er að reisa knattspyrnuhús við hlið íþróttahússins á Torfnesi en að reisa það á gervigrasvellinum. Þetta kemur fram í fundargerð starfshóps um byggingu knattspyrnuhúss á Ísafirði. Í starfshópnum sitja bæði fulltrúar íþróttahreyfingarinnar og bæjarfulltrúar.

Ef húsið væri reist þétt við íþróttahúsið þyrfti að færa aðalvöllinn til suðurs. Það sem veldur auknum kostnaði eru breytingar á áhorfendastúku sem þyrfti að ráðast í ef aðalvöllurinn yrði færður. Þá þyrfti að breyta aðkomu í brekku við Vallarhús og einnig er ljóst að jarðvegsskipti yrðu dýrari þar sem svæðið er á gömlum sorphaugum.

Nefndin er einróma um að færsla aðalvallar sé með öllu óásættanleg leið og áfram skuli stefnt að því að reisa knattspyrnuhús við Vallarhúsið á Torfnesi.

Auglýsing

Þröng staða að keppa við stóru fyrirtækin

Áform fyrirtækja um fiskeldi í Seyðisfirði, Mjóafirði, Norðfjarðarflóa, Önundarfirði, Jökulfjörðum og Eyjafirði lenda líklega á byrjunarreit ef frumvarpsdrög um útboðskerfi á fiskeldissvæðum verða samþykkt óbreytt. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, formaður Landssambands fiskeldisstöðva, í samtali við fréttastofu RÚV.

Drög að umfangsmiklum breytingum á lögum fiskeldi voru kynnt í síðustu viku. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að útboðskerfi fiskeldisleyfa verði komið á. Útboðskerfið myndi hins vegar ekki gilda um fjölda umsókna sem þegar eru komnar til Matvælastofnunar. Ef firðirnir hafa verið burðarþolsmetnir halda umsóknirnar velli, annars ekki.

Einar nefnir sem dæmi að fyrirtækið ÍS-47 er með leyfi fyrir eldi á og regnbogasilungi í Önundarfirði. „Ef þeir vildu skipta yfir í laxeldisleyfi sem er ekkert ólíklegt, þá þyrftu þeir væntanlega að fara í þessi útboð. Það er alveg ljóst að fyrir lítil fyrirtæki þá er það þröng staða að keppa við kannski öflugri fyrirtæki sem vildu hasla sér völl í laxeldi á þessum firði ef til kæmi. Við viljum auðvitað stuðla að því að það verði ekki þetta kapphlaup um leyfin sem geti gefið ýkta mynd um raunveruleg áform en ég tel það að minnsta kosti skynsamlegt að menn skoða aðstæðurnar á hverju svæði fyrir sig og taki þá ákvarðanir á grundvelli þess,“ segir Einar.

Arnarlax hf. á Bíldudal hefur tilkynnt um eldisáform og unnið að gerð matsáætlunar á tveimur svæðum sem ekki hafa verið burðarþolsmetin, í Jökulfjörðum og í Eyjafirði. Einar segir segir ljóst að þau eldissvæði fari í útboð verði lögin samþykkt og áform fyrirtækisins því á byrjunarreit.

Auglýsing

Minningarathöfn í Óðni

Landhelgisgæsla Íslands og skipverjar á Óðni fengu í október 1968 afhentar orður úr hendi breska sendiherrans á Íslandi fyrir þátt þeirra í björgun áhafnarinnar á Notts County. Pálmi Hlöðversson stýrimaður á Óðni tekur við gullorðu, The Sea Gallantry Medal úr hendi A. S. Halford-MacLeod sendiherra Breta á Íslandi. Á milli þeirra er Sigurður Árnason skipherra. Mynd: Bragi Guðmundsson / Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Fimm­tíu ár verða brátt liðin frá sjó­slys­un­um miklu í Ísa­fjarðar­djúpi í byrj­un fe­brú­ar 1968, en þá fór­ust 26 sjó­menn af tveim­ur bresk­um tog­ur­um og ein­um ís­lensk­um vél­báti. Af þessu til­efni verður hald­in at­höfn um borð í varðskip­inu Óðni til minn­ing­ar um þá sem týndu lífi þenn­an ör­laga­ríka sól­ar­hring og jafn­framt til að minn­ast þess björg­un­ar­a­freks sem áhöfn­in á Óðni vann. At­höfn­in hefst klukk­an 16 í dag. Óðinn ligg­ur við fest­ar við Sjó­minja­safnið í Reykja­vík, við Grandag­arð 8.

Sex manna áhöfn Heiðrún­ar II frá Bol­ung­ar­vík var á meðal þeirra sem fór­ust, auk 19 manna áhafn­ar breska tog­ar­ans Ross Cleve­land, en einn skip­verja tog­ar­ans, Harry Eddom, bjargaðist við ill­an leik. Sama dag strandaði breski tog­ar­inn Notts County á Snæfjalla­strönd, en áhöfn Óðins vann hetju­dáð þegar hún bjargaði skip­verj­um hans. Einn þeirra var þegar lát­inn er Óðinn komst á slysstað.

Minn­ing­ar­at­höfn­in fer fram í þyrlu­skýli Óðins og mun sr. Hjálm­ar Jóns­son fara með minn­ing­ar­orð og Michael Nevin, sendi­herra Breta á Íslandi, mun jafn­framt ávarpa sam­kom­una.
Í kjöl­farið verður boðið upp á kaffi­veit­ing­ar í messa skips­ins, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sjó­minja­safn­inu. Þar mun Gylfi Geirs­son, formaður öld­ungaráðs Land­helg­is­gæsl­unn­ar og fyrr­ver­andi starfsmaður henn­ar, fjalla um björg­un­ar­a­frekið sem áhöfn Óðins vann.

Þegar 30 ár voru frá mannskaðaveðrinu í Ísafjarðardjúpi birtist viðtal í Morgunblaðinu við Sigurð Þ. Árnason sem var skipherra á Óðni:



„Við höfðum legið við akkeri skamma stund innan við Flateyri þegar barst kall frá breska togaranum Wyre Mariner sem óskaði eftir aðstoð. Hann var staddur í mynni Ísafjarðardjúps en þar var komið norðaustan rok og leki kominn að vélarrúminu,“ segir Sigurður. Var þetta laugardaginn 3. febrúar 1968.

Tilkynnt var að varðskipið héldi þegar í átt að togaranum og þegar komið var út úr firðinum var komin norðaustan átt með átta vindstigum og samsvarandi sjó. Óðinn var kominn inn í Ísafjarðardjúp klukkan 23.49 en þá var ljóst að Wyre Mariner kæmist hjálparlaust til Ísafjarðar.

„Þá leituðum við vars undir Grænuhlíð þar sem einnig voru í vari 22 breskir togarar vegna veðurs. Þar var lónað aðfaranótt sunnudagsins 4. febrúar en þá var vindhraðinn 5-12 vindstig.“

Fyrri hluta næsta dags geisaði norðaustan ofsaveður á þessum slóðum og hlóðst ísing á ratsjárloftnet skipanna svo þau sem voru við hlið Óðins sáust mjög illa í ratsjá. Því fór varðskipið inn í Jökulfirði vegna árekstrarhættu til þess að lóna þar einskipa.

Klukkan 12.20 tilkynnti Ísafjarðarradíó að Heiðrún II væri í Djúpinu með bilaðan dýptarmæli og bilaða ratsjá. „Reyndar hafði þurft að færa hana frá bryggjunni í Bolungarvík vegna brims en hún slitnaði áður en skipstjórinn komst um borð svo vélstjórinn fór með hana úr höfninni. Hann ætlaði með hana inn á Ísafjörð,“ segir Sigurður.

Klukkan 21.55 óskaði Heiðrún eftir því að Óðinn staðsetti sig og segir Sigurður að mjög illa hafi gengið að hafa samband við bátinn þar sem hann andæfði við ljósdufl undir Bjarnarnúp. „Við fundum hana 1-2 mílur undan landi en veðrið hafði hert mjög svo ekki varð við neitt ráðið,“ segir hann. Töldu varðskipsmenn sig vera við hlið Heiðrúnar og tilkynntu henni staðsetningu en skömmu áður en komið var til bátsins skall á ofsaveður svo ratsjár urðu óvirkar. Afréð skipherrann því að lóna undir Grænuhlíð til þess að freista þess að hreinsa loftnet og voru allir togararnir á svæðinu í sömu vandræðum með ratsjár, að hans sögn.

Ross Cleveland bilaður og Notts County strandar

Um klukkan 22.57 tilkynnti Ísafjarðarradíó að breski togarinn Ross Cleveland væri 3 sjómílur frá Arnarnesi með bilaða ratsjá og að hinir togararnir næðu honum ekki inn á sínar ratsjár. Um klukkan 23.30 tilkynnti Ísafjarðarradíó að breski togarinn Notts County væri strandaður.

„Á leiðinni að hinu strandaða skipi töldum við okkur sjá í ratsjánni skip sem gæti verið Heiðrún en þá var sambandið við bátinn rofið og heyrðist ekkert í honum eftir það. Við hættum að heyra frá henni aðfaranótt mánudags,“ segir hann.

Klukkan 01.35 tilkynnti breskur togari að togarinn Ross Cleveland hefði sokkið klukkan 23.40 og að enginn hefði komist af.

Klukkan 02.00 var ljóst að ekkert væri hægt að aðhafast á strandstað Notts County og því lónað vestur fyrir Bjarnarnúp til þess að svipast um eftir Heiðrúnu og því haldið áfram til 07.00 án árangurs. „Þeir kvörtuðu mikið á Notts County um vosbúð og við reyndum að stappa í þá stálinu meðan beðið var betra veðurs,“ segir Sigurður.

Klukkan 05.50 tilkynnti Ísafjarðarradíó að heyrst hefði neyðarkall frá Notts County. Um klukkan 08.00 var aftur komið á strandstað þar sem þá voru 8 vindstig af norðaustan. Nokkru síðar náðist slitrótt samband við togarann sem tilkynnti að mennirnir væru enn um borð en að líðan þeirra væri mjög slæm. „Klukkan 09.13 tilkynnti Notts County síðan að botninn væri að brotna undan skipinu og að þeir væru að fara á flot um borð. Voru fyrirmæli send til skipshafnar að fara ekki frá borði heldur bíða þess að veður batnaði.“ Segir hann hafa verið erfitt að bíða undir þessum kringumstæðum en að ekki hafi verið viðlit að bjarga þeim fyrr.

Sigurður segir að Notts County hafi fyrst sést með berum augum klukkan 12 en þá var vitað að 18 menn væru á lífi, einn látinn og fjórir með kalsár. „Varðskipið lónaði upp undir togarann og þegar 0,1 sjómíla var milli skipanna fór gúmbátur með utanborðsmótor yfir í togarann með tvo óútblásna 10 manna gúmbáta. Í bátnum voru þeir Sigurjón Hannesson 1. stýrimaður og Pálmi Hlöðversson 2. stýrimaður sem báðir buðust til þess að fara þessa ferð. Ferðin gekk vel en hægt vegna þess hversu hvasst var. Greiðlega gekk að ná mönnunum úr björgunarbátunum og um borð í varðskipið. Björgunaraðgerðum var lokið um klukkan 14.30, á um það bil klukkutíma. Þá var farið með skipbrotsmenn inn til Ísafjarðar og til læknis“ segir Sigurður loks.

Daginn eftir, hinn 6. febrúar, var haldið á strandstað til þess að sækja lík skipverjans sem lést og það flutt til Ísafjarðar. Síðan hélt varðskipið frá Ísafirði til þess að leita að Heiðrúnu í Jökulfjörðum. Sú leit bar engan árangur.

Auglýsing

Nýjustu fréttir