Guðbrandur Baldursson frá Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi hefur tekið saman nokkrar vísur. Vonast hann til þess að slíkt megi verða til auðgunar íslensks máls og meðferðar í rituðu máli og einkum gamans aflestrar þeirra er leggja slíkt sér til.
Guðbrandur hefur þann formála að tilurð og „ástæður/vísna eru mismunandi eins og efni gefa til og oft er gott að rifja upp ástæður/aðstæður við birtingu, að mínu viti gefur það meiri sjarma og lyftingu svona eins og skrautborði í blómasal minninga og mannlegrar sögu.“
Hér kemur seinni hlutinn af vísnabréfi hans:
Ótal vísur á ég í gestabókum hér og þar og viðskilnaður oft með þeim hætti að niðurskrif voru með bágbornari hætti og verður því minnið að duga.
Hringhendur eru vísur mið innrími eða miðrími og eru nokkrar slíkar til.
Birtingarleyfi fær þessi :
Að vori einu hafði andinn lítt sótt mig heim um veturinn og varð þessi þá til.
Sólin getur sigrað hyl
sálartetur glæðist
af er vetur um það bil
ekkert letur frá mér læðist.
Birtingarleyfi fær þessi :
Stoltastur er ég þó af þessari sem hugsuð var til húsmæðra þessa lands og er hún tileinkuð þeim öllum. Þó einkum móður minnar Ólafíu Salvarsdóttur frá Reykjarfirði.
Ræktað hefur rætur garðs
úr rótum lífsins spunnið
Nýtur þessa nytjaarðs
nú sem til er unnið.
Birtingarleyfi fá þessar :
Þorvaldur Baldursson frá Vatnsfirði bróðir höfundar lést 4 janúar 2022 úr Covid sýkingu og er hann lá banalegu sína á Landsspítala er tók um 6 vikur tengdur öndunarvél komu þessar til mín skömmu fyrir andlát og náði hann því aldrei að lesa þessa brottfarargjöf. Áður birtar á samfélagsmiðli.
Biðin lamar hug og hönd
hægt þá tíminn líður
Kraftaverka bið um bönd
bærist andinn þíður.
Bróðir knár þú stríðin strjál
staðið hefur af þér
Hefur ætíð heimsins prjál
haldið burtu frá þér.
Sendum bænir bróður til
er berst nú fyrir lífi
Megi englar Guðs nú þekja þil
þrótt og styrk upp hífi.
Læt ég nú staðar numið í bili og legg ég þetta í þínar hendur. Gef ég þér leyfi til að koma með inngang og umorðun ef þurfa þykir ekki síst prófarkalestur. Meira er til í skríni mínu en það bíður betri tíma þetta er þó eitthvað til að vinna úr.
Auglýsing