Teigsskógur: ákvörðun liggi fyrir þann 8. mars

Strandlína Teigsskógs.

Reykhólahreppur hefur frá því um mitt síðasta ár unnið að breytingu á aðalskipulagi hreppsins sem gerir ráð fyrir nýrri veglínu í Gufudalssveit. Sveitarstjórn Reykhólahrepps er með tvær veglínur til skoðunar, Þ-H leið um Teigsskóg sem þverar Djúpafjörð og Gufufjörð, og leið D2 sem fer í jarðgöngum undir Hjallaháls.

Í desember kynnti Reykhólahreppur vinnslutillögðu aðalskipulagsins með báðum veglínum, en hin endanlega tillaga mun innihalda eina veglínu og bíða Vestfirðingar sem og aðrir landsmenn spenntir eftir niðurstöðu hreppsins.

Upphaflega átti ákvörðun hreppsins að liggja fyrir í byrjun ársins en Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að ákvörðunartöku hafi verið frestað þar til á fundi sveitarstjórnar þann 8. mars. „Við ákváðum að hitta nokkra aðila áður en við myndum taka lokahnykkinn á skipulagstillögu sem inniheldur eina leið,“ segir Ingibjörg Birna. Fyrir helgi fundaði Reykhólahreppur með samgönguráðherra og í vikunni er fundur með Vegagerðinni.

DEILA