Tálknafjörður: deilt um 12 íbúðir fyrir aldraða

Séð yfir Tálknafjörð.

Meirihluti sveitarstjórnar er ákveðinn í því að reisa 12 öryggisíbúðir fyrir aldraða. Þetta kemur fram í samþykkt í hreppsnefndinni á síðasta fundi. Þar segir að sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkir að hreppurinn leggi fram 16% stofnframlag til byggingar íbúðanna á móti 24% framlagi ríkissjóðs. Framlag hreppsins verður 36,9 milljónir króna.  Miðað við þessar tölur virðist gert ráð fyrir að kostnaðurinn við íbúðirnar 12 verði um 230 milljónir króna.

í samþykktinni kemur ennfremur fram að „stofnframlag Tálknafjarðarhrepps greiðist með peningum, eftir því sem verkinu miðar og í samræmi við nánara samkomulag við Landsbankann um brúarlán á meðan á framkvæmdum stendur. “

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri segir að sótt hafi verið um til Íbúðalánasjóðs um stofnframlag frá ríkinu 24% af kostnaði. Erindið hefur ekki verið afgreitt og ekki er vitað hvort framlag ríkisins verði samþykkt. Án þess verður ekkert af framkvæmdum að sögn Bryndísar.

Gert er ráð fyrir að um leiguíbúðir verði að ræða þar sem verði öryggisþjónusta, en ekki hjúkrunarrými eða þjónustuíbúðir.

Lilja Magnúsdóttir, E-lista er á móti áformunum og segir í bókun að ekki hefur verið sýnt fram á þörf íbúa fyrir þessar íbúðir og  ekki heldur hvernig tryggja eigi rekstur þeirra til frambúðar.

Lilja Magnúsdóttir sagði í samtali við Bæjarins besta að sveitarfélagið hefði ekkert bolmagn til þess að ráðast í þessa framkvæmd og væri hún þess vegna á móti. Hún spyr líka hvernig eigi að fjármagna 60% sem eru umfram stofnframlögin.

Vítaverð ráðstöfun fjár

Í bókunin sinni segir Lilja að „ráðstöfun fjármuna sveitarfélagsins er vítaverð af hálfu meirihluta sveitarstjórnar þegar stór hluti þorpsins býr við óviðunandi ástand í neysluvatnsmálum og jafnframt algjört neyðarástand með tilliti til brunavarna vegna vatnsskorts, götur sveitarfélagsins eru illa farnar vegna skorts á viðhaldi og fráveita sveitarfélagsins er í algjörum ólestri.“

E listinn vildi að haldin yrði íbúafundur um málið sem allra fyrst en meirihlutinn vildi frekar efna til slíks fundar í byrjun september í haust.

DEILA