Sóknaráætlun landshluta: minna í atvinnuþróun en meira í menningu

Frá hamingjudögun á Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Framkvæmd sóknaráætlana landshluta hefur almennt tekist vel frá árinu 2015 að því er fram kemur í úttekt sem ráðgjafarfyrirtækið Evris gerði fyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Í úttektinni var lagt mat á það hvort tekist hefði að ná markmiðum samninga um sóknaráætlanir. Þar var jafnframt bent á atriði sem betur mættu fara og lagðar fram tillögur til úrbóta.

Í skýrslu Evris segir :

„Það er almennt mest sátt um að sóknaráætlanir hafi treyst stoðir menningar í
landshlutum. Nokkur einhugur ríkir um að sóknaráætlanir hafi hóflega styrkt
samkeppnishæfni landshlutanna. Það er talsverður munur á afstöðu fólks hvort
sóknaráætlanir hafi tryggt gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna
og fært vald frá ríki til sveitarfélaga.“

Þá segir að samráðsvettvangur sem komið var á fót í öllum
landshlutum til að tryggja lýðræðislega aðkomu að verkefninu hafi ekki gengið sem skyldi og  finna þarf leiðir til að festa í sessi tilvist þeirra.

Stuðningur við menningartengd verkefni úr uppbyggingarsjóðum hefur aukist á
tímabilinu á kostnað styrkja til atvinnuþróunar og nýsköpunar. Styrkir eru almennt styrkir frekar lágir og „má færa rök fyrir því að meiri slagkraftur sé í færri en stærri styrkjum.“

Að mati Evris væri skynsamlegt að búa til hvata í uppbyggingarsjóði, sérstaklega þann hluta sem snýr að atvinnuþróun- og nýsköpun, og nota þannig sóknaráætlanir sem tæki til að styrkja það markmið að auka samkeppnishæfni landshlutanna og landsins í
heild um leið.

Þá segir að úthlutunarnefndir og fagráð séu í flestum tilvikum skipuð
einstaklingum sem búa á viðkomandi svæðum „en skynsamlegt gæti verið að
gera auknar kröfur um að einstaklingar utan svæðis, með sérþekkingu, taki
einnig þátt í fagráðum og úthlutunarnefndum í öllum landshlutum.“

 

DEILA