Auðshaugur: skil ekki hvernig ríkinu dettur þetta í hug

Auðshaugur.

Valgerður Ingvadóttir segist ekki skilja hvernig ríkinu dettur í hug að setja fram kröfu um eignarhald á stórum hluta jarðarinnar Auðshaugs í Barðastrandarsýslu.  En kröfulýsing efnahags- og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins  fyrir Barðastrandarsýslu liggur fyrir og hafa landeigendur frest til 16. ágúst 2019 til þess að bregðast við kröfum ríkisins. Að þeim fresti loknum verður málið tekið fyrir í Óbyggðanefnd, sem mun svo úrskurða um kröfuna. Úrskurði nefndarinnar má skjóta til dómstóla.

„Áður fyrr var til jörðin Auðnir, sem var úr Auðshaugi, en 1888 voru jarðirnar sameinaðar aftur.  Í þá daga bjó sýslumaður á Auðshaugi. Krafa ríksins er um það land Auðshaugs sem var innan til við Auðnir. Hér er fimmti ættliðurinn í röð sem býr á Auðshaugi“ segir Valgerður.

Hún segir að eigendur að Auðshaugi séu komnir með lögfræðing sem muni halda á málinu gagnvart Óbyggðanefnd. Valgerður segir að til séu nokkur gömul skjöl með greinargóðum landamerkjalýsingum jarðarinnar Auðshaugs og telur að þeim hafi öllum verið þinglýst.

Aðspurð um hvað geti skýrt kröfu ríkisins segir Valgerður að það verði að geta sér til um það, en henni sýnist að vatnsréttindin sem fylgja Kjálkafjarðará og vötnunum þar fyrir ofan verða líklegust til að skýra hana. Valgerði finnst það sérstakt að aðeins er gerð krafa í land úr jörðinni Auðhaugi en engar aðrar jarðir í nágrenninu.

 

DEILA