Fram kemur í endurskoðunarskýrslu KPMG fyrir Vesturbyggð fyrir árið 2018 sem og í stjórnsýsluskoðunum frá árinu 2015 að KPMG hefur ítrekað bent á það að ekki hafi verið gætt að ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um gerð viðauka við fjárhagsáætlun, áður en stofnað er til útgjalda eða skuldbindinga sem ekki er heimild fyrir í fjárhagsáætlun.
Greinilegt er á því sem fram kemur hjá KPMG að sveitarfélagið hafi ekki brugðist við ábendingunum með því að fara að lögum.
Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að ábendingin kom fram í skýrslum KPMG fyrir fjögur ár í röð: 2015, 2016, 2017 og 2018.
Hún segist ekki geta tjáð sig um það af hverju ekki var brugðist við ábendingunum. „Um mitt ár 2018 var farið í að rýna þetta verklag og unnið að því að bæta það.“ segir Rebekka. Hún vill þó benda á „að mörg sveitarfélög hafa ekki gætt að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um gerð viðauka, það á ekki bara við um Vesturbyggð“ og segir hún að sendi sveitarstjórnar- og samgönguráðuneytið hafi sent leiðbeiningar til allra sveitarfélaga á árinu 2018 varðandi þessa framkvæmd.
Í bókun bæjarstjórnar Vesturbyggðar á síðasta fundi þar sem ársreikningar 2018 voru afgreiddir segir : „Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur þegar farið í endurskoðun á verklagi við vinnslu og gerð viðauka, þannig að viðaukar og staðfesting þeirra sé í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og tryggt sé að framkvæmdir séu ekki hafnar fyrr en samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun liggur fyrir.“