Hreppsnefnd Auðkúluhrepps hefur í mörg horn að líta!

Fallegt bæjarstæði. Frá Tjaldanesi í Arnarfirði. Þar bjó Örn landnámsmaður einn vetur í tjöldum. Þar af nafnið. Ekki gengur sól af um skammdegi á Tjaldanesi. Ljósm. H. S.

Í gamni og alvöru af Þingeyrarvefnum:

Eins og komið hefur fram í fréttum, eru mikil umsvif hjá hreppsnefnd Auðkúluhrepps í Arnarfirði þessar vikurnar. Nú sækjast til dæmis ýmsir auðmenn eftir að stofna alls konar fjárfestingafélög í hreppnum, sem eru þó nokkur þar fyrir eins og til dæmis Puntstrá ehf. Samvinnufélag. Þeir halda nefnilega margir að þar sé eitthvert skjól að finna fyrir sköttum með niðurfellingu opinberra gjalda líkt og á Tortola og Cayman Islands.

Í því sambandi skulu nú rifjuð upp ýmis stór fjármál sem hafa verið til umfjöllunar hjá Kauphöll Auðkúluhrepps og Fjármálaeftirliti hreppsins, sem að vísu er lítt starfandi vegna fjárskorts. Allt á þetta að vera opið og gegnsætt. Liggur því beinast við að birta frétt frá í fyrrahaust sem sýnir vel við hvað hreppsnefndin er að kljást þarna í Auðkúluhreppi.

Frétt dagsins 19. nóv. 2018:

Miklar hræringar á hlutabréfamarkaðnum í Auðkúluhreppi

Fréttaritari vor í Auðkúluhreppi símar:

Í dag lék allt á reiðiskjálfi í Kauphöllinni í Auðkúluhreppi í Arnarfirði. Hlutabréf í mörgum félögum skiptu um eigendur og er nánast ómögulegt að átta sig á þeim sviptingum öllum. Hvað þá að nokkur maður viti almennilega á hvaða verði bréfin fóru.

Eignarhaldsfélagið Puntstrá ehf. Samvinnufélag, sem er 49% í eigu Gríms grallara, forstjóra Ánarmúla ehf og 50% í eigu Karls Karlssonar á Karlsstöðum, forstjóra Glímufélagsins Hlaðseyrar hf og 1% í eigu almennra félagsmanna, mun eignast alla hluti í Ufsum hf., sem fer með 40,3% eignarhlut í Hjallkárseyri hf, sem er 90% í eigu Rauðs á Rauðsstöðum, samkvæmt kaupsamningi þess efnis, að því er segir í áríðandi fréttatilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps.

Urðarhlíð hf hefur til þessa verið 50,12% í eigu Skóga ehf. og 49,88% í eigu Gíslaskers sf, en samningur milli félaganna gerir ráð fyrir að Ánarmúli ehf. taki við öllum hlutum Dynjanda II í Skógum ehf.

Þá hefur núverandi hluthöfum Dynjanda II verið veittur kaupréttur á sama viðskiptagengi til 29. febrúar 2019, á þeim hlutum sem undir voru í viðskiptunum. Samkvæmt tilkynningu frá Hlutabréfamarkaði Auðkúluhrepps má rekja tilurð viðskiptanna til þess að líftími Dynjanda II mun renna sitt skeið á næsta ári. Og þá skipta þeir um kennitölu. Úff! (Sjá Viðskiptatíðindi Auðkúluhrepps)

                                                                   Hallgr. Sveinsson

DEILA