Tungumálatöfrar: Klofningur greiddi ferðakostnað barna frá Suðureyri

Eftir að Bæjarins besta geindi frá því í fyrradag að Ísafjarðarbær hefði hafnað erindi frá Tungumálatöfrum um styrk til þess að standa straum af ferðakostnaði barna frá Suðureyri á námskeiðið hafði forstjóri Klofnings, Guðni Einarsson, samband við forsvarsmenn Tungumálatöfra og sagðist myndi styrkja verkefnið um 150.000 krónur. Anna Hildur Hildibrandsdóttir greindi frá þessu á Facebook síðu sinni í gær.

Hún segir að Guðni hafi látið fylgja að sér þætti leitt að sjá að Ísafjarðarbær sæi sér ekki fært að styrkja námskeiðið í ár og þá sérstaklega að þeir skuli ekki gera íbúum smærri staðanna fært að komast með eðlilegum hætti á námskeiðið. Klofningur og Íslandssaga greiddu ennfremur námskeiðsgjöld fyrir börn starfsfólks síns sem vildu sækja námskeiðið.

Sótt var um 400.000 kr. styrk vegna erlendra aðstoðarmanna sem koma úr röðum innflytjenda og var því einnig synjað.

Anna Hildur er ósátt við rökstuðning bæjarráðs sem segir „við séum búin að festa okkur í sessi og fáum nú stuðning úr öðrum sjóðum vegna þess hvað þau hafi stutt verkefnið myndarlega fyrstu árin“ og gerir athugasemd við kröfu bæjarráðs um nýsköpun og segir að í svona námskeiðshaldi sé stöðug krafa um nýsköpun og að „mikil sóknarfæri eru til að þróa frekari fjölbreyttar leiðir í íslenskukennslu og um leið sjálfstyrkingu þeirra barna sem eiga undir högg að sækja í skólakerfinu.“

Hún bætir því við að krafan um nýsköpun og ný verkefni standi Tungumálatöfrum fyrir þrifum sem byggi á nýsköpun byggðri á reynslu og þróun. „Þannig geta Tungumálatöfrar ekki sótt um í Barnamenningarsjóð lengur því verkefnið getur ekki sýnt fram á stöðuga nýsköpun skv. skilgreiningum í mjög gölluðu sjóðakerfi.“

DEILA