Blómstrandi menningarlíf í Ísafjarðarbæ

Menningarlífið í Ísafjarðarbæ hefur stundum verið eins og blóm í náttúrunni. Það leggst í dvala og sprettur á ný með ilmi og ásýnd sem hefur áhrif á fólk. En menning á ekki að þurfa að leggjast í dvala. Aðbúnaður hennar ætti að vera með þeim hætti að hún fái þrifist í aðstæðum hverju sinni. Menningin er lífið í kringum okkur. Tónar, litir og sagan. Sagan sem á heima í þorpunum hér í kring. Á hverjum degi endurspeglum við sem hér búum menningu svæðisins. Hún birtist í sjálfsmynd okkar og ímynd út á við. 

Menning er til þess að sýna úr hverju við erum gerð. Menningarlífið í Ísafjarðarbæ er fjölbreytt og gott menningarlíf á að vera hluti af hversdagslífi íbúa og afþreyingu gesta. Menningarstarf er iðulega byggt á hugsjón. Hugsjón sem leiðir að því marki að gefa öðrum tækifæri til þess að njóta, upplifa, minnast. Jafnvel eflast og þroskast. Í gegnum tíðina hafa öflugir einstaklingar unnið ötult menningarstarf í Ísafjarðarbæ þrátt fyrir smæðina, fjarlægðir, einangrun og veðrið. Þeir hafa fært okkur tónlist, myndlist, leiklist og fræðslu. Þeir hafa varðveitt sögu svæðisins, dregið fram það besta og unnið í gömlum grunni sem færir okkur skýrari sýn á hver við erum og hvað við höfum uppá að bjóða. Tónlistarskólar, söfn, sýningar og setur, gestavinnustofur, hátíðir. Allt hefur þetta þrifist vegna þess að hér er öflugt fólk.

Við viljum menningarsamning

Sveitarfélag sem hefur þann orðstír að kallast menningarbær gegnir ákveðnum skyldum,  gagnvart menningu og listafólki. Það eru ýmsar leiðir færar. Atvinnulífið og menningin geta haldist í hendur, líkt og í ferðaþjónustunni þar sem hvor getur haft hag af hinum. Sagan, tónlistin, matarmenningin eru þar bautarsteinar. Það er margt hægt að gera til að efla enn frekar hið fjölbreytta og gróskumikla menningarstarf í sveitarfélaginu. Það þarf að styðja það með ráðum og dáð. 

Nú hefur verið gefin út menningarstefna Ísafjarðarbæjar. Stefnan nýtist við frekari umræðu og ákvarðanatöku. Það er jákvætt að sveitarfélög móti sér menningarstefnur en þeim þarf að fylgja eftir með fjármagnaðri aðgerðaáætlun. 

Önnur sveitarfélög hafa gert menningarsamninga við íslenska ríkið með talsverðu fjármagni. Hvers vegna ætti Ísafjarðarbær ekki að geta landað slíkum samningi líka? Við í Í-listanum viljum fylgja eftir hinni nýju menningarstefnu. Við viljum sjá til þess að hún komist til innleiðingar og henni fylgi fjármögnuð aðgerðaáætlun.

Setjum X við Í þann 14. maí 2022 og megi menningarlíf í Ísafjarðarbær halda áfram að blómstra og dafna.

Finney Rakel Árnadóttir er þjóð- og safnafræðingur og skipar 7. sæti Í-listans

DEILA