Bolungavíkurkaupstaður 50 ára í dag

Jóhanna Gísla GK í Bolungavíkurhöfn í október 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag eru rétt 50 ár síðan Hólshreppur fékk kaupstaðarréttindi og fékk nafnið Bolungavíkurkaupstaður. Í tilefni dagsins verður frítt í sundlaugina.

Á fundi bæjarstjórnar Bolungavíkur í gær var tímamótanna minnst með eftirfarandi samþykkt:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur fagnar þeim tímamótun þann 10.apríl nk. að 50 ár eru liðin frá því að sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindi. Á þessum 50 árum hefur Bolungarvík og íbúar þess gengið í gegnum margvíslegar breytingar og hefur samfélagið ávallt staðið sterkt og horft óhikað fram á veginn. Bæjarstjórn Bolungarvíkur horfir bjartsýnum augum til næstu 50 ára, óskar bæjarbúum til hamingju með daginn og hvetur alla þá sem tækifæri hafa til að draga íslenska fánann að húni í tilefni dagsins.“

Á þeim tíma voru kaupstaðarréttindi miðuð við 1.000 íbúa fjölda og veitt með lögum frá Alþingi hverju sinni. Þann 6. desember 1973 fluttu allir alþingismenn Vestfjarðakjördæmis frumvarp til laga um kaupastaðarréttindi til Hólshrepps og mælti Matthías Bjarnason, fyrsti þingmaður kjördæmisins fyrir málinu í neðri deild þingsins.

Samgöngu við Bolungavík hafa löngum, fram að jarðgöngunum sem tekin voru í notkun 2010, verið farartálmi og kom Matthías inn á það í ræðu sinni:

„Það er staðreynd, eins og hreppsnefndin í Hólshreppi segir, að landfræðilega séð eru lítil eða engin samskipti, sem eiga sér stað við önnur sveitarfélög í N.-Ísafjarðarsýslu eða í Inndjúpinu, og þess vegna hefur það oft áður komið til umr. að óska kaupstaðarréttinda fyrir Bolungarvík. Fyrsta fundarsamþykkt þar um var gerð 4. mars 1915, svo að það má því segja, að þetta mál hafi verið lengi á döfinni.“

Fyrsti bæjarstjóri í Bolungavík var Guðmundur Kristjánsson, faðir Kristjáns Jóns Guðmundssonar, núverandi bæjarfulltrúa. Ólafur Kristjánsson varð fyrsti forseti bæjarstjórnar og síðar lengi bæjarstjóri.

Núverandi forseti bæjarstjórnar er Magnús Ingi Jónsson og bæjarstjóri er Jón Páll Hreinsson.

Íbúafjöldinn var vaxandi þegar sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindin og fór mest upp í 1.282 laust fyrir 1990. Síðan tók að fækka fólki og fæstir voru íbúarnir árið 2012 en þá voru þeir aðeins 874. Nemur fækkunin 32% á um aldarfjórðungi. Nú eru íbúarnir um síðustu mánaðamót 1.031 samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands. Hagstofan birti nýlega aðrar tölur byggðar á leiðréttingum á lögheimilisskrá og telur íbúana hafa um síðustu áramót hafa verið ívíð færri eða 989.

DEILA